31.01.1973
Efri deild: 51. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1769 í B-deild Alþingistíðinda. (1382)

29. mál, rannsóknir í þágu atvinnuveganna

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Hv. 3. þm. Austf. var eitthvað undrandi á því, að ég skyldi hafa varið nokkrum tíma til að ræða þetta mál að gefnu tilefni í hans ræðu. Hann um það, ef honum finnst þetta undrunarefni, og hann má gefa mér hvaða einkunnir sem honum sýnist fyrir mína ræðu. Ég ætla ekki að fjölyrða um það, ég legg það undir dóm hv. dm. En ég hefði haldið, að hv. þm. gerði þá tilraun til þess að ræða það eitthvað efnislega sem um var að ræða. Öll ræða hans var hinn mesti misskilningur frá upphafi til enda. Hann byrjaði með því að segja, að ég byggði á því, að hann væri með fjandskap við Ísafjarðarkaupstað. Ég sagði það aldrei. Þvert á móti lagði ég lykkju á leið mína og tók fram, að ég vændi ekki þennan hv. þm. um nein óheilindi í málinu. Samt segir hann þetta. Hann talar um það eins og það sé einhver óhæfa, að ég skuli láta mér koma til hugar að segja, að báðar þær leiðir, sem hann var að tala um, séu ófærar. Það er nú ekki meiri óhæfa en það, að sjálfur er hann búinn að dæma aðra leiðina ófæra, þ.e.a.s. þá leið, að það sé tekið fram í löggjöfinni, á hvaða stöðum rannsóknastofurnar skuli vera. Hann er sjálfur búinn að dæma það óhæft. Þá stendur aðeins hin leiðin eftir, að það sé ekki tekið fram í löggjöfinni um staðina, en almenn stefnuyfirlýsing um það, að rannsóknastofnun skuli koma í hverjum landsfjórðungi. Er það nokkur óhæfa að halda því fram, eins og ég gerði, að það sé óeðlilegt af löggjafarvaldinu að afsala sér rétti um það, hvar þessar stofnanir skuli vera staðsettar? Það er allt og sumt, sem ég hef haldið fram í þessu máli.

Hugleiðingar hv. þm. um iðnfræðslu og húsmæðraskóla og annað slíkt voru furðulegar, því að þá hagaði hann máli sínu eins og ég væri á móti því, að það væri tekið fram í hinni almennu löggjöf, hvar þessar stofnanir ættu að vera. Ég er einmitt að gera brtt. um að taka slíkt fram. En hann snýr þessu við í sínum málflutningi. Hann talaði eins og ég gerði ráð fyrir því, að það ætti aðeins að vera í löggjöfinni, að það skyldu vera rannsóknastofur á þessum tveimur stöðum, í Vestmannaeyjum og á Ísafirði. Þetta er ekki rétt. Ég hélt því einmitt fram, að það hlyti að vera eðlileg þróun í þessu efni, og um leið og það er ákveðið og grundvöllur fyrir því að setja upp slíkar stofnanir annars staðar, þá verður auðvitað lögunum breytt og þeir staðir settir inn. Það er einmitt slíkt, sem hefur gerzt. Tökum t.d. lögin um menntaskóla. Þar hefur þetta alltaf verið að breytast. Fyrir þessu þingi liggur frv. um að breyta l. um menntaskóla og setja inn ákveðinn stað. Þannig hlýtur þetta að vera. Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta, enda leyfist mér ekki að gera slíkt, og ég þakka hæstv. forseta fyrir að hafa gefið mér tækifæri til að benda á þetta ósamræmi í málflutningi hv. 3. þm. Austf.