31.01.1973
Neðri deild: 45. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1778 í B-deild Alþingistíðinda. (1390)

130. mál, skólakostnaður

Menntmrh. (Magnús T. Ólafsson):

Herra forseti. Hafi hv. þm. eitthvað sérstakt upp á það að klaga, hvernig staðið var á síðasta ári á niðurskurði framkvæmda af hálfu míns rn., væri mér þökk á því, ef hann vildi koma á framfæri við mig vitneskju um, hvað hann telur, að þar hafi farið úrskeiðis. Því fylgir vissulega ábyrgð fyrir þingmeirihl, og fyrir ríkisstj. að fá slíka heimild sem veitt var við fjárlagaafgreiðsluna fyrir jólin. Ég held, að okkur öllum, sem skipum núv. meiri hl. á Alþ., sé þessi ábyrgð ljós, og ég veit ekki til, að tilefni hafi gefizt til aðdróttana um, að til standi að misnota þá heimild, sem þar er fengin, eða beita því valdi, sem í henni felst, á annan hátt en eðlilegt má telja eftir því hvernig á stendur um hvern málaflokk og hverja framkvæmd.

Ítrekaðri spurningu hv. þm. um afstöðu mína til þess, hvort lögfesting fjögurra ára reglu um framlög til skólabygginga sé raunhæf, vil ég svara því, að miðað við óbreyttar aðstæður tel ég, að hún sé raunhæf. Það hefur verið raunhæft allar götur síðan 1968 að fylgja þeirri reglu, þangað til nú á árunum 1973 og 1974. Þá er í fyrsta skipti og eina skipti á þessu tímabili vikið frá henni og framlögum dreift á 5 ár. Það er að sjálfsögðu rétt athugað hjá hv. þm., sem er langreyndur í störfum í fjvn. og maður glöggur á meðferð fjármuna, að þetta er að sjálfsögðu nokkru erfiðara, þegar á sér stað frestun framlags með niðurskurði eins og þeim, sem framkvæmdur var á síðasta ári, og þeim, sem nú er fyrirhugaður. En að öllu eðlilegu sé ég enga ástæðu til að vantreysta því, að við fjögurra ára reglu verði unnt að standa hér eftir eins og hingað til.