31.01.1973
Neðri deild: 45. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1780 í B-deild Alþingistíðinda. (1394)

130. mál, skólakostnaður

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Það er út af síðustu orðum hv, síðasta ræðumanns og reyndar því, sem fram kom fyrr í ræðu hans, að það mætti ætla, að hér hefði verið um einstæðan atburð að ræða, að þessi háttur hefði verið hafður á, að það hefði verið samþ. í fjárl. — eða jafnvel eftir að fjárl. hafa verið afgreidd — heimild til ríkisstj. til þess að skera niður verklegar framkvæmdir, að ég vildi aðeins segja örfá orð.

Ég vil út af fyrir sig ekki mæla þessari starfsaðferð neina bót. En hitt er staðreynd, sem hv. þm. þekkir eins vel og ég, að þetta hefur æ ofan í æ átt sér stað í þingsögunni. Hann getur t.d. farið alla leið aftur til 1933. Í fjárl., sem samþ. voru á árinu 1933 fyrir árið 1934, hygg ég, að hafi verið veitt sú stærsta heimild til niðurskurðar á ólögbundnum fjárveitingum, sem átt hefur sér stað í þingsögunni. En þá var, ef ég man rétt, heimilað að skera niður um 30 eða 33% allar slíkar fjárveitingar. Ég minnist þess glöggt, að þetta átti sér stað oftar en einu sinni í tíð fyrrv. hæstv. ríkisstj., og a.m.k. örugglega einu sinni, eftir að fjárlög höfðu verið afgreidd, voru samþykkt lög, sem heimiluðu niðurskurð. Ég minnist þess ekki, að þá hafi verið gert ráð fyrir því, að haft yrði sérstakt samráð við stjórnarandstöðuna um þessi efni.

Ég vildi aðeins láta þetta koma fram, að hér er ekki um nein ný vinnubrögð að tefla. Hér er fylgt fordæmum, sem e.t.v. eru ekki góð. En ég veit, að hv. þm. kannast við þessi dæmi.

Ég hygg, að það hafi verið haft samráð við undirnefnd fjvn. um þessi mál, án þess að ég sé þess þó umkominn að fullyrða um það. En mér hefur skilizt, að það hafi verið gert og mér þykir ekki ólíklegt, að þeim starfsháttum verði fylgt nú á þessu ári.