31.01.1973
Neðri deild: 45. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1790 í B-deild Alþingistíðinda. (1402)

97. mál, Húsafriðunarsjóður

Flm. (Ingvar Gíslason):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. 9. landsk. þm. fyrir góðar undirtektir við hetta frv. Hann kom með vissar ábendingar, sem ég tel mjög réttmætar og er sjálfsagt að athuga, þegar kemur til n. En það vill svo til, að við sitjum báðir í þeirri n., sem ég vona, að þessu máli verði vísað til, menntmn. Hann bendir á það réttilega, að hugsanlegt sé að fella ákvæðin, sem þetta frv. hefur að geyma, inn í þjóðminjalög. Mér finnst þetta vel koma til greina og er fús til að ræða það í n., og einnig get ég hugsað mér að vera til viðtals um að breyta eitthvað um þann hátt á stjórn húsafriðunarsjóðs, sem við flm. höfum látið okkur koma til hugar. En þegar við nefnum þessa þrjá tilteknu aðila sem stjórn húsafriðunarsjóðs, gerum við það með tilliti til þess, að það eru bæði ríkissjóður og sveitarfélögin, sem mundu leggja sjóðnum til fé, og má segja, að sjálfkjörinn formaður sé þjóðminjavörður, sem er réttur yfirmaður þessara mála í landinu.

Í sambandi við önnur atriði, sem hv. þm. nefndi, eins og Bernhöftstorfuna, þá get ég ósköp vel sagt það sem mína skoðun, að ég tel friðun hennar alveg sjálfsagða og endurbyggingu húsanna jafnsjálfsagða. Fyrir mér er það algerlega fráleitt að reisa þarna stórbyggingu, og einkum held ég, að það sé óheppilegt að reisa þarna byggingu fyrir stjórnarráðsskrifstofur, því að ég held, að það sé engan veginn heppilegur staður fyrir slíka starfsemi. Þarna er of þröngt í kring m.a., og yrði a.m.k. ákaflega dýrt að ætla að koma þar fyrir eðlilegum bílastæðum og öðru, sem þarf að vera í umhverfi slíkra húsa, þannig að það þarf ekkert að brýna mig persónulega á því. Hins vegar er mér ljóst, að þetta er mikið deilumál, og ég vil nú leggja til og mælast til þess, að Bernhöftstorfumálið og deilurnar um það verði ekki til þess að yfirskyggja allt þetta mál og yfirskyggja svo margt annað, sem við þurfum að gera í byggingaverndarmálum.

Ég vil nefna það enn, sem ég nefndi hér áðan, að nú er almenn vakning í heiminum, einkum í Evrópu, að því er varðar byggingaverndarstarfsemina, og beinlínis búið að móta ákveðna hreyfingu, sem þegar er tekin til starfa og ætlar að starfa næstu 3 árin. Ég vona, að Íslendingar taki þátt í þessari starfsemi og það verði mynduð byggingaverndarhreyfing í tengslum við byggingaverndarhreyfingu Evrópu, þannig að við á næstu árum sjáum verulegan árangur í þessum málum. Það er alveg rétt, að eins og ég raunar tók mjög skýrt fram í minni fyrri ræðu, þá er skilningsleysið verst í þessu máli eins og svo mörgum öðrum menningarmálum, sem við erum að ræða hér á landi. Því miður er ríkjandi mikið skilningsleysi í þeim efnum, eins og sést á því, að margir hv. þm. stinga af út úr þingsalnum, þegar farið er að ræða um þessi mál, og menn verða að ræða svo mikilvæg mál sem þessi fyrir nærri tómum stólum. Hins vegar held ég, að það sé möguleiki á því að vekja fólk í þessu sambandi, og það þurfum við að gera.

Það er sannarlega þörf á vakningu í þessu efni, almennri vakningu, sem nær til allra landsmanna og er ekki eingöngu bundin við eitthvert tiltekið svið, sem kannske er meira og minna uppblásið í æsingaskyni og af fullmikilli tilfinningasemi. Þar með er ég ekki að segja, að í því, sem gert hefur verið til þess að vernda Bernhöftstorfuna, hafi verið neitt ofgert. Það dettur mér ekki í hug að halda. Ég tel sjálfsagt, að þau hús verði friðuð og þau verði endurbyggð og ekki komi til greina að byggja þar neina stórbyggingu, og mun gera það, sem í mínu valdi stendur, til þess að koma í veg fyrir það. Aðrir verða svo að tala fyrir sig. En ég vil þakka þeim þm., sem ræddi þetta mál áðan af góðum skilningi, og ég vona, að við fáum tækifæri til þess að ræða þetta mál frekar í þeirri n., sem við báðir sitjum í.