01.02.1973
Sameinað þing: 39. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1796 í B-deild Alþingistíðinda. (1409)

85. mál, veggjald af hraðbrautum

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að verða langorður að þessu sinni, en ég taldi þó ástæðu til að kveðja mér hljóðs, þegar þessi till, um vegtoll á hraðbrautum er rædd hér. Hún hefur legið lengi fyrir þinginu, var flutt á s.l. hausti, tæplega 5 mánuðum eftir að Alþ. hafði gengið frá vegáætlun fyrir árin 1972–1975. Það er þess vegna mjög hæpið, að þessi till. hafi verið lögformlega rétt flutt, þegar það er athugað, að hún felur í sér raunverulega brtt. á vegáætluninni, en vegal. segja svo um, að það sé aðeins heimilt að endurskoða vegáætlunina eftir tvö ár. En látum það nú vera. Till. er flutt, og víst er það, að hún hefur ekki verið úrskurðuð frá umr. hér, og þá verður að líta svo á, að hún sé lögleg.

Hv. 1. flm. flutti hér framsöguræðu, eins og eðlilegt má telja, af hógværð og eins miklum rökum og hægt er að færa fram fyrir svona máli. En rökin eru vitanlega ekki haldgóð, ef málið er skoðað í réttu ljósi og frá fleiri hliðum en þessari einu gömlu hlið, sem aðeins sér hraðbrautarspottana, sem komnir eru. Þetta er gamla hliðin, að líta aðeins á hraðbrautarspottana, og þá hafa menn haldið, að með því að leggja veggjald á þessa spotta, væri verið að tolla þá, sem búa næst þessum vegum. Ég held, að það sé næstum alveg augljóst mál, að þegar hringvegurinn er kominn og hv. 5. þm. Austf. ætlar að nota þennan veg á leið sinni til Reykjavíkur, þá er ekki eðlilegt, að hann þurfi að borga aðgangseyri til þess að komast til Reykjavíkur, vegna þess að hann hefur 50 km veg góðan, eftir að hann er búinn að aka sjálfur kannske 600–700 km á vondum vegi. Og Norðlendingar og Vestlendingar, þegar þeir ætla til Reykjavíkur, hafa kannske ekið 300–500 km á malarvegi og verða að taka upp budduna, þegar þeir koma í Hvalfjörð, t.d. hjá Kiðafelli, og borga fyrir það að aka 30–40 km veg, sem liggur þaðan til Reykjavíkur. En fólkið, sem býr á Reykjavíkursvæðinu og alltaf ekur á malbikuðum vegi, góðum vegi, borgar aldrei neitt fyrir það sérstaklega. Ég verð þess vegna að segja það, að þó að ég hafi falið, að hv. þm. hafi fært fram þau rök, sem hægt var fyrir þessu máli, þá hafi rök hans, þegar málið er skoðað á réttan hátt, verið alveg öfug, því að till. hljóðar um að skattleggja þá fyrst og fremst, sem búa utan þessara vega. Þeim, sem búa á Reykjavíkursvæðinu, er ekki ætlað að borga þennan skatt.

Þegar talað var um, hvar ætti að setja tollskýlið niður á Suðurlandsvegi, ef það væri sett niður, þá var talað um, að það væri hjá Hveragerði. Hvers vegna? M.a. til þess að þeir, sem fara frá Reykjavík upp á Hellisheiði, þurfi ekki að borga veggjald. En bændurnir fyrir austan fjall, sem flytja mjólkina á sinn kostnað frá Flóabúinu hingað til samsölunnar, eiga að borga skatt, vegna þess að þeir hafa fengið þennan veg á leiðinni. Það er beinn skattur á bændur, vegna þess að þeir flytja mjólkina á sinn kostnað til Reykjavíkur. Hvað þessi skattur verður margir aurar á lítra, veit ég ekki. En ég er alveg sannfærður um, að hv. frsm. hefur ekki athugað þetta, þegar hann flutti till. og talaði fyrir henni. Bændur verða að flytja garðávexti, kjötvörur og framleiðsluvörur sínar yfirleitt til Reykjavíkur. og það eru ekki aðeins Sunnlendingar, sem flytja þessar vörur landleiðina, heldur líka af Vesturlandi og Norðurlandi. Ég sé hér daglega vörubíla frá KEA, frá Kaupfélagi Sauðárkróks, frá kaupfélögum í Húnavatnssýslu. Þeir eru að flytja afurðir til Reykjavíkur og þungavöru til baka.

Mér dettur ekki í hug, að hv. 5. þm. Austf. hafi ætlað sér að skattleggja þessa menn sérstaklega fyrir það, að þeir geta keyrt næstu ár 30–40 km. á góðum vegi í Hvalfirði. Þetta var alls ekki meiningin. En útkoman verður svona, ef þessi till. verður samþykkt. Ég gat ekki stillt mig um að benda á þetta og leiðrétta í tíma. Mér finnst, að hv. flm. hljóti að taka þetta til greina, þegar þeir gera sér grein fyrir þeim afleiðingum, sem að því yrðu að samþykkja þessa till.

Allir hér á Reykjavíkursvæðinu — Stór-Reykjavíkursvæðinu — aka á góðum vegum. Það er alls ekki meiningin að skattleggja þá. Þeir fara kannske einu sinni á ári eitthvað í sumarfrí út á land og borga þá náttúrlega gjaldið í þetta eina skipti. En hvað munar um það? Hvað munar vegasjóð um það? Vegasjóðinn munar ekkert um annað en það, sem þeir borga, sem þurfa að fara þarna um daglega. Það eru vörubílar bændanna og kaupfélaganna, og það eru sveitamennirnir, sem eiga oft erindi til Reykjavíkur. Margir bændur, sem þurfa að fara vikulega til Reykjavíkur í alls konar erindum, eiga að taka á sig þennan skatt til viðbótar jeppaskattinum, til viðbótar öllum sköttunum, sem komið hafa núna á nokkrum mánuðum. Satt að segja hélt ég, að mælirinn væri orðinn fullur. Ég hélt, að það væri farið að fljóta út af og hv. flm. væru hættir við þessa till., þeir hefðu gert sér grein fyrir því, að það væri ekki hægt að leggja meira á Skjónu, hún bæri ekki meira. En það er alveg sýnilegt, að þeir vilja reyna þolrifin eins og hægt er.

Það er ástæðulaust að fara að rifja upp, hvað þessir baggar eru þungir, sem hafa verið hengdir á Skjónu, og sízt af öllu, ef þessi till. kæmi ekki aftur til umr, frá fjvn. Það vita allir, að innkaupsverð bíla hefur hækkað mjög mikið á s.l. ári. Í byrjun ársins 1972 var lagður þungur skattur á innkaupsverð bila. Svo hækkaði innkaupsverðið vitanlega vegna gengisbreytingarinnar. Benzínið hækkaði rétt fyrir jólin, þungaskattur um 25%, gúmmígjald o.s.frv. þetta eru vitanlega byrðar. Hv. 5. þm. Austf. sagði, að vegasjóð vantaði fé, það væru svo miklar vegaframkvæmdir núna, sem síðasta Alþ. hefði ákveðið og þetta Alþ. Það er algert aukaatriði, hvort þessar framkvæmdir, sem nú er verið að vinna að, voru ákveðnar á síðasta þingi, þessu þingi eða t.d. áður en fyrrv. ríkisstj. fór frá völdum. En vegna þess að hv. 5. þm. Austf. sagði, að það hefði verið ákveðið alveg nýverið, vil ég minna á, að Norðurlandsáætlunin, Austurlandsáætlunin og hringvegurinn voru ákveðin í tíð fyrrv. ríkisstj. Lög um fjáröflun í hringveginn voru samþ. á þinginu 1971, og það var ákveðið að ráðast í Austurlandsáætlun og Norðurlandsáætlun einnig þá. (Gripið fram í.) Jú, ég segi þetta til þess að leiðrétta. hv. þm. Hann hefur sjálfsagt sagt þetta í ógáti, en ekki af því, að hann hafi viljað fara rangt með. Ég veit, að hv. þm. tekur þetta vel upp, og veit, að það er vel meint.

Vitanlega þurfa þessar framkvæmdir fjármagn. Það gerðu hv. þm. sér ljóst, þegar þeir fengu frá vegáætluninni vorið 1972. Sú vegáætlun var samin á eðlilegan hátt, eins og aðrar vegáætlanir, sem unnið hefur verið eftir, og þá var gert ráð fyrir fjáröflun, en ekki þeirri fjáröflun, sem gerð var rétt fyrir jólin. Ég skal ekki fara lengra út í það. En ég veit, að allir hv. þm, telja, að skattbyrðar, sem lagðar eru á þjóðina, eru ærið miklar, og það á ekki að fara út í skattlagningu nema eftir því sem nauðsynlegt er talið á hverjum tíma. Og sú skattlagning, sem hér er um að ræða, er ekki nauðsynleg, vegna þess að það hefur verið gengið frá vegáætluninni og aflað fjár til hennar, og hún er óréttlát einnig, vegna þess að sú skattlagning kemur helzt niður á þeim, sem sízt gætu eða ættu að bera þessa skatta. Hún kemur niður á framleiðslunni, og hún kemur niður á þeim, sem helzt nota vondu vegina. Þeir eru skattlagðir fyrir að komast inn á góðu vegina og keyra kannske 10% af leiðinni á góðum vegi, eftir að þeir hafa hossazt lengi á vondum vegum. Þetta getur ekki verið réttlátt. Og það var ekki þetta, sem var meint með flutningi till. Ég er alveg sannfærður um, að hv. 5. þm. Austf. á í sér þann manndóm og þá karlmennsku að játa, að þarna hafi verið skammt stefnt. Hitt er svo eðlilegt, að þessi till. sé rædd, úr því að hún var flutt. Samkv. þingsköpum fer hún í n., og ég vona, að hún komi þaðan ekki aftur. Ég ætla þess vegna að láta máli mínu lokið að þessu sinni í trausti þess, að till. komi ekki aftur, en komi hún til 2. umr., gefst tækifæri til að eyða lengri tíma í ræðuhöld.