25.10.1972
Neðri deild: 6. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 360 í B-deild Alþingistíðinda. (141)

25. mál, dvalarheimili aldraðra

Heilbr.- og trmrh. (Magnús Kjartansson):

Herra forseti. Ég held, að þessi ræða hv. þm. Ingólfs Jónssonar sé sú einkennilegasta, sem ég hef heyrt hér á þingi, og er þá nokkuð mikið sagt, enda viðurkenndi hann það í upphafi máls síns, að hann hefði ekki fylgzt með þessum umr. nema að mjög takmörkuðu leyti, þannig að hann vissi auðheyrilega ekkert, um hvað hann var að tala. Ég ætla þó ekki að fara að elta uppi þennan einkennilega hugsanaferil, sem kom fram hjá honum, annars vegar staðhæfingar um það, að ég hefði lýst því yfir, líklega núna eða einhvern tíma, að ég væri á móti öllum einkarekstri og öllum hlutafélögum, sem ég kannast alls ekki við, að ég hafi gert, og yfir í það að fara hér út í almennar umræður um fjárlög í áframhaldi af fjárlagaumr., sem hér hafa staðið í marga daga.

En þrátt fyrir það, að ræðan væri svona afar einkennileg, þá kom fram í henni grundvallarmunur á viðhorfum mínum og þessa hv. þm. Hann sagði, að ég héldi því fram, að sjálfstæðismenn væru verri menn en við í Alþb. Það hefur mér aldrei til hugar komið, en þau dæmi, sem þessi hv. þm, tók í því sambandi, varpa ákaflega skýru ljósi á ágreininginn. Hann spurði, hversu fús ég væri til að opna budduna. Hann spurði, hversu fús ég væri til að gefa gjafir. Það er þetta sjónarmið, sem enn þá er uppi hjá þessum hv. þm., að félagsleg starfsemi í þjóðfélaginu sé ölmusa, hún sé gjafir. Það er þessi afstaða, sem ég mótmæli, vegna þess að ég lít svo á, að félagsleg þjónusta í þjóðfélaginu sé réttur þess fólks, sem nýtur hennar, en engar gjafir og reyni hvorki á hjartagæzku mína né þessa hv. þm. Þessi aths. hv. þm. segir miklu meira en margar langar ræður. Opna budduna, gefa gjafir, það er það, sem hann heldur, að félagsleg starfsemi sé í nútímaþjóðfélagi.

Hitt er ástæða til að minna á, að það eru til lönd, þar sem starfræksla dvalarheimila aldraðra er gróðastarfsemi, þar sem slík heimili eru rekin til þess að hagnast á þeim. Þangað komast aðeins inn þeir, sem eru mjög auðugir. Þeir fá þar góða þjónustu. Þetta tíðkast m.a. í Bandaríkjunum. En þegar uppi eru raddir um það þar, að það þurfi að koma þessari þjónustu á félagslegan grundvöll, hvert er þá svarið? Þetta er árás á framtak einstaklingsins. Þeir menn, sem heimta félagslega starfsemi á þessu sviði, eru að ráðast á hið heilaga framtak einstaklingsins til að græða líka á gömlu fólki. Það er í þessu, sem ágreiningurinn felst, hvort þetta á að vera félagslegur réttur fólksins í þjóðfélaginu eða hvort það á að vera góðgerðastarfsemi, og þess vegna sé ég ástæðu til þess að þakka þessum hv. þm. fyrir að hafa skýrt þetta mál ákaflega vel út.