05.02.1973
Neðri deild: 46. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1807 í B-deild Alþingistíðinda. (1416)

Umræður utan dagskrár

Jónas Árnason:

Herra forseti. S.l. föstudagskvöld var flutt í hljóðvarp og sjónvarp ávarp í tilefni tíðinda, sem hingað höfðu borizt frá borginni Haag í Hollandi. Tíðindin, sem borizt höfðu, voru í stuttu máli á þá leið, að Alþjóðadómstóllinn í Haag hefði lýst því yfir, að hann teldi sig hafa lögsögu í fiskveiðideilu þeirri, sem við íslendingar eigum í við vini okkar, þá sem ríkjum ráða í Bretlandi og í Vestur-Þýzkalandi.

Yfirlýsing þessi hafði verið lesin upp um hádegisbil þennan dag, föstudag, og sá, sem það gerði, var forseti dómsins, sem samkv. útvarpsfréttum stendur nú á áttræðu og mundi því hafa komizt á eftirlaun fyrir 15 árum, hefði hann verið sýslumaður á Íslandi.

Yfirlýsing þessi var í rauninni engin stórtíðindi. Íslendingar hlutu að vita, að við gátum aldrei átt á öðru von en einmitt þessu úr þessari átt. Hitt hefði þó í sjálfu sér ekki getað talizt óeðlilegt, að fréttastofur hljóðvarps og sjónvarps kveddu til einhvern af æðstu mönnum þjóðarinnar að ávarpa hana við þetta tækifæri. En það var ekki gert. Sá, sem fenginn var til að flytja ávarpið, er að vísu alþm., en að forminu til ekki neitt meira en óbreyttur alþm. eins og við flest hin, sem hér eigum sæti. Og hafi hann verið valinn vegna þess, að hann kennir þjóðarétt við háskólann, þá er því til að svara, að þann starfa hefur þessi hv. alþm. ekki haft með höndum ýkjalengi. Hins vegar vill svo til, að í röðum okkar alþm. er að finna annan mann, sem kenndi þjóðarétt við háskólann um langt árabil eða a.m.k. fjórum sinnum lengur en hinn alþm., og er þá augljóst, hjá hvorum þeirra væri að leita staðbetri þekkingar í þessum efnum. En þar við bætist, að sá þeirra, sem áður gengdi því starfi, sem hinn gegnir nú, er sjálfur forsrh. okkar Íslendinga, og sem slíkur hefði hann að sjálfsögðu átt að vera kvaddur til fyrstur manna, þó að ekki komi annað til, að ávarpa þjóðina vegna fréttarinnar frá Haag. Og ef hann hefði sökum annríkis ekki haft tök á slíku, þá hlaut röðin næst að koma að öðrum hæstv. ráðh., utanrrh. eða sjútvrh.

Sumir segja, að fréttastofur hljóðvarps og sjónvarps hafi viljað staðfesta lýðræðisást sína og frjálslyndi með því að leyfa einmitt stjórnarandstöðunni að túlka sín sjónarmið varðandi fréttina frá Haag. Og þá hafi auðvitað verið sjálfsagt að velja mann úr hinum stærri stjórnarandstöðuflokki. En þá þekki ég illa ónefnda menn í þeim herbúðum, ef þeim finnst ekki, að þarna hafi verið næsta freklega fram hjá þeim gengið, því að mér vitanlega hefur ekki enn ekki enn — verið skipt um formann í Sjálfstfl. En hitt sýnist mér, að með sama áframhaldi kynnu fréttastofur hljóðvarps og sjónvarps að flýta nokkuð fyrir þeim skiptum — óviljandi þó að sjálfsögðu.

En varðandi ávarpið mikla á föstudagskvöldið, þá er aðalatriðið ekki, hver flutti það. Það atriði út af fyrir sig var næsta lítið hneyksli í samanburði við boðskap þann, sem í ávarpinu fólst.

Sá boðskapur var á þá leið, að við íslendingar skyldum, þvert gegn yfirlýstri stefnu ríkisstj. okkar, þvert gegn samþykktum Alþ. okkar, samþykktum, sem sá hv. þm., sem ávarpið flutti, og allir aðrir þm. stóðu að fyrir ekki svo óralöngu, — þvert gegn öllu þessu skyldum við Íslendingar hlíta þeim niðurstöðum, sem orðið hafa og eiga eftir að verða árangurinn af vangaveltum hinna skikkjuklæddu öldunga, er sæti eiga í Haagdómstólnum.

Ég ætla ekki að fjölyrða um þá hlið þessa máls. En ég þykist mega krefjast þess sem einn af stuðningsmönnum hæstv. ríkisstj. hér á Alþ., að af hennar hálfu verði héðan úr þessum ræðustól fordæmdur sá boðskapur, sem fólst í margnefndu ávarpi á föstudagskvöldið. Við Íslendingar höfum hingað til staðið uppréttir gagavart andstæðingum okkar í landhelgisdeilunni, og það er engin ástæða til þess að láta þá eða nokkra aðra ganga upp í þeirri dul, að við Íslendingar ætlum okkur allt í einu núna að fara að standa í keng.

hv. alþm., sem ávarpið flutti á föstudagskvöldið, byggði málflutning sinn á því samkomulagi, sem hann átti sjálfur þátt í, að gert var við Breta og Vestur Þjóðverja 1961, — því samkomulagi, sem Haagdómstóllinn byggði reyndar úrskurð sinn á. Núv. stjórnarflokkar báru aldrei neina ábyrgð á því samkomulagi. Þeir mótmæltu því harðlega, þegar það var gert, og núv. ríkisstj. hefur fyrir hönd íslenzku þjóðarinnar sagt því formlega upp. Það er því úr sögunni sem slíkt, og tilraunum eins og þeirri, sem gerð var á föstudagskvöldið til þess að leggja ábyrgðina á þessu samkomulagi, þessum smánarsamningi, á herðar núv. hæstv. ríkisstj. eða íslenzku þjóðarinnar í heild, — slíkum tilraunum verður bezt svarað með þeim orðum, sem sögð voru við Sigurð jarl í Brjánsbardaga forðum: „Ber þú sjálfur fjanda þinn.“