05.02.1973
Neðri deild: 46. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1810 í B-deild Alþingistíðinda. (1418)

Umræður utan dagskrár

Matthías Á. Mathiesen:

Herra forseti. Út af ræðu hv. 5. þm. Vesturl. hér áðan varðandi ummæli Gunnars Thoroddsens prófessors og alþm., hv. 5. þm. Reykv., langar mig til að lýsa furðu minni á því, að slíkt mál sé tekið hér til umr. utan dagskrár, án þess að þessum hv. þm. hafi verið gert aðvart. Ég þekki það til starfsreglna Alþ., að eigi að ræða utan dagskrár fsp. eða aths. til ráðh., þá hefur tíðkazt, að forsetar hafa jafnan athugað, hvort viðkomandi ráðh. hafi verið gert viðvart, til þess að hann geti verið viðstaddur, þegar umr. fara fram, og haft tækifæri til andsvara, ef um aths. er að ræða. Þetta hefur tíðkazt, — þetta tíðkaðist í tíð fyrrv. ríkisstj., og ég held, að ég megi segja, að það tíðkist enn í dag. Mér finnst vera mjög eðlilegt, þegar hafnar eru umr. utan dagskrár og vikið að málefnum einstaks ráðh., að þá sé við hann rætt, og mér finnst eðlilegt, að viðkomandi þm. ræði sjálfur við viðkomandi ráðh., áður en til umr. komi í þinginu.

Hins vegar hefur það gerzt, að einn hv. þm. hefur séð ástæðu til þess að kveðja sér hljóðs hér utan dagskrár vegna ummæla eins þm. í útvarpi s.l. föstudagskvöld vegna niðurstöðu Haagdómstólsins varðandi lögsögu í þeim málaferlum, sem Bretar og Vestur-Þjóðverjar eiga í við okkur Íslendinga. Fyrst og fremst og eingöngu held ég, að hér sé verið að ræða við prófessor við háskólann. Það hafði verið gert áður við svipað tækifæri. Ég held, að það detti engum manni í hug, að hér sé verið að ganga fram hjá ríkisstj. í sambandi við það, sem hún vildi láta eftir sér hafa varðandi þennan úrskurð. Ég geri ráð fyrir því, að ríkisstj. hafi þá ekki haft í höndum úrskurðinn með þeim forsendum, sem honum fylgja, og hún hafi þess vegna ekki verið reiðubúin til að tjá sig í málin.

En það, að ríkisútvarpið skuli leyfa sér að leita til stjórnarandstöðumanns, sem er prófessor í lögum, af því að það vill svo til, að hann er þm. í liði stjórnarandstæðinga, telur hv, þm. ástæðu til að gagnrýna. Hann er að senda fjölmiðlunum boð um, að það, sem þarna gerðist, sé ekki að hans skapi. Ég veit vel, að hv. þm. kemur hér á eftir og svarar mér og segir: Þeim hv. þm., sem útvarp og sjónvarp leitaði til, ber að vera mættum hér til þingfundar kl. 2 í dag. — Það er alveg rétt. Hér hefjast þingfundir kl. 2. En vel getur svo verið, að umræddur þm. hafi lögmæt forföll, og þess vegna finnst mér í alla staði hafa verið háttvísi, hafa verið eðlilegt af þessum hv. þm. að gera þeim aðila aðvart.

Ég skal ekki fara hér í umr. um úrskurð dómstólsins. Það verður sjálfsagt tækifæri til þess síðar meir, þegar aðilar hafa fengið dóminn ásamt forsendum hans í hendur. Ég geri fastlega ráð fyrir því, að þegar ríkisstj. hefur fengið viðeigandi gögn, muni hún láta utanrmn. þau í té, og þá munu stjórnarandstæðingar eins og stjórnarliðar, sem þar eiga sæti, fá tækifæri til þess að skoða úrskurðinn og þær forsendur, sem honum fylgja. Mér fannst ástæða til þess að vekja athygli á þessari óvenjulegu — ég segi óvenjulegu — ræðu hér utan dagskrár.