25.10.1972
Neðri deild: 6. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 361 í B-deild Alþingistíðinda. (142)

25. mál, dvalarheimili aldraðra

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Það var einhvern tíma endur fyrir löngu einvaldskonungur í Frakklandi, mig minnir, að það hafi verið Loðvík XIV. Það var a.m.k. ekki Karlamagnús, sem stundum hefur verið kallaður Magnús mikli, sem sagði þessi orð: „Ríkið, það er ég.“ Það er sennilega eitthvað í ætt við þennan hugsunarhátt einvaldskóngsins, það sem blað hæstv. heilbrmrh., sem hér hefur verið að tala, skrifaði um á s.l. vetri, að það yrði ekki látið viðgangast til lengdar, að það, sem trmrh. og heilbrmrh. færði fólkinu, — það áttí þá sennilega að skiljast sem gjafir frá honum eða það mátti a.m.k. skiljast sem slíkt, — yrði tekið af fólkinu af skattamrh., fjmrh. Ég er því miður hræddur um, að það hendi mjög oft þessa félagshyggjumenn, sem svo kalla sig, að vilja láta fólkið halda, að þeir séu að færa því eitthvað, þegar fólkið er að njóta tryggingabóta samkv. lögum, sem sett hafa verið af Alþ., og ýmist hefur verið greitt af fólkinu sjálfu ásamt sveitarfélögum og ríkinu eða ríkinu eingöngu í heild.

Það er ómögulegt að neita því, að það hefur stundum verið og verður ævinlega blettur á sérhverri félagsmálalöggjöf, þegar hún er framkvæmd þannig, að þeir, sem í það og það skiptið fara með framkvæmd hennar, leggja sig eftir því eða vilja láta líta svo út, að þeir séu að umbuna fólkinu: „Ég hef talað, og ég hef gert.“ Það mátti vel heyra raustina í þessum hæstv. ráðh. „Hvað eru þm. að koma svo upp í pontuna og tala um, að einhvern tíma áður hafi verið til ráðh. á Íslandi, sem einmitt hafi talað og eitthvað hafi gert? Það er ég, sem hef talað, og það er ég, sem hef gert þetta, og ég ætla að setja reglugerð.“

Sannleikurinn er sá, að þessi hæstv, ráðh. er orðinn nokkuð kunnur af því á stuttum valdaferli að leggja mikið upp úr auglýsingastarfsemi fyrir sjálfan sig. Hann verður að eiga það, og ég skal láta það liggja milli hluta. En þegar hæstv. ráðh. talaði hér með þjósti um það, að þm. hefðu bæði nú og í gær vitnað til þess, að eitthvað hefði áður verið gert á sviði þeirra mála, sem hann var að tala um, þá má það heita næsta furðulegt. Það er ekkert last fyrir þennan hæstv. ráðh., þó að það hafi verið búið að ákveða fyrir nokkrum árum, að næsta bygging á landsspítalalóðinni yrði geðdeild í tengslum við Landsspítalann. Það er ekkert last fyrir hann, þó að sagt sé frá því. Það er heldur ekkert last fyrir hann, þó að minnst sé á það, að sérfræðingar, landlæknir, læknar Kleppsspítalans og borgarlæknir í Reykjavík, hafi verið skipaðir af fyrrverandi heilbrmrh. í n. til þess að gera athuganir og till. um byggingu geðdeildar á landsspítalalóðinni og í tengslum við Landsspítalann. Ef hæstv. ráðh. hefur ekkert vitað um þetta, skaðar það hann heldur ekki neitt, þó að hann sé upplýstur um þetta, — ekki nokkurn skapaðan hlut.

Ég held, að það hafi verið á árinu 1966, sem þessir sérfræðingar, sem ég nefndi, fengu það verkefni að gera till. um byggingar fyrir geðsjúklinga í landinu, og álit þeirra var, að það væri rétt að byggja geðdeild við Landsspítalann, jafnframt því sem rétt væri að tryggja lóð fyrir framtíðarsjúkrahús, spítala, sem tæki við af gamla spítalanum á Kleppi. Síðan voru þessi mál í athugun fyrst í stað, eins og oft vill verða og tekur nokkurn tíma. Landsspítalalóðin var of þröng. Reynt var að hola þessari fyrirhuguðu geðdeild við Landsspítalann niður á lóðinni, en það kom í ljós, að það fór ekki vel og gat naumast orðið. Þá stóð einnig fyrir dyrum endurskipulagning á landsspítalalóðinni, og ákvörðun um staðarval á landsspítalalóðinni gat í raun og veru ekki farið endanlega fram, fyrr en skipulag landsspítalalóðarinnar var ákveðið. Það var svo í desembermánuði 1969, að gengið var frá samningi milli Reykjavíkurborgar og þess ráðherra, sem þá fór með heilbrigðismál, um landsspítalalóðina, um stórkostlega stækkun á landsspítalalóðinni, sem kannske er eitt veigamesta atriðið fyrir alla þróun heilbrigðismála í tengslum við Landsspítalann, sem gert hefur verið á síðari árum. Ef þessi samningur hefði ekki verið gerður, hefði orðið að flytja Landsspítalann eða það, sem byggt yrði í framtíðinni, á annan stað í borginni eða utan borgarinnar. Það, sem fólst í þessum samningi, var það, að Landsspítalinn fær alla landsspilduna, sem nú er fyrir neðan landsspítalalóðina, þar sem nú er Miklabrautin, sem er mikið landssvæði, og einnig stórt landssvæði fyrir neðan Miklubrautina eða fyrir sunnan í mýrinni, sem þar er. Miklabrautin verður færð með þeim árangri og afleiðingum, að það verður ekki eins mikill hávaði frá umferðinni á Landsspítalanum og nú er. Á móti þessu lét svo ríkið ýmsar lóðir til bæjarins, bæði á Arnarhóli og við Hverfisgötuna. Þegar þetta lá fyrir skapaðist möguleiki fyrir staðsetningu fæðingardeildar og kvensjúkdómadeildar á landsspítalalóðinni og fyrir geðdeildina. Það var þá tekið fram í fréttatilkynningu frá dómsmrn., sem fór með heilbrigðismál, að þar með væri sköpuð aðstaða fyrir þessar deildir, og sérstaklega tekið fram um geðdeildina við Landsspítalann, að með því móti yrði gott rúm fyrir hana, en hún hefði verið fyrirhuguð sem næsta bygging á landsspítalalóðinni á eftir kvensjúkdómadeildinni og fæðingardeildinni. Þarna skapaðist um leið starfsaðstaða fyrir læknadeild háskólans og möguleiki til bygginga fyrir læknadeildina og margháttaðar rannsóknarstofnanir á hinni nýju landsspítalalóð fyrir sunnan Hringbrautina. Það er þess vegna upp úr þessu,sem aðstaða skapast til þess að ákveða framkvæmdir, þegar fé og annað er fyrir hendi til byggingar geðdeildarinnar á landsspítalalóðinni.

Ég fagna því, að það hefur ekki verið horfið frá þeim ákvörðunum, sem þarna voru teknar og mjög auðvelt var að framkvæma, þegar aðstaða var til. vegna hins nýja skipulags á landsspítalalóðinni.

Ég sé ekki, að það þurfi neitt að hlaupa í skapið á hæstv. ráðh., þó að þm. leyfi sér stundum að rekja nokkuð aftur í tímann sögu mála. Það á ekki að þurfa að draga neitt úr miklum verkum og afrekum þessa ráðherra. Mér er alveg ljóst, að hæstv. heilbr.- og trmrh. er á mörgum sviðum mjög afkastamikill, við höfum orðið vör við það hér í þinginu. Hann kom því til leiðar, að sérstakur ráðgjafi var sendur á vegum heilbrmrn. til Sameinuðu þjóðanna, og ég efast um, að margir leiki þetta eftir hæstv. ráðh.