05.02.1973
Neðri deild: 46. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1812 í B-deild Alþingistíðinda. (1420)

Umræður utan dagskrár

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Dómurinn, sem kveðinn var upp af Alþjóðadómstólnum í Haag, er, hvort sem okkur líkar betur eða verr, þýðingarmikið atriði í landhelgismálinu, sem við setjum framar öllum öðrum málum íslenzku þjóðarinnar í dag.

En hvað gerist, þegar sjálft Alþingi Íslendinga kemur saman á fyrsta fund sinn, eftir að þessi dómur er kveðinn upp? Þingmenn eru komnir í háarifrildi út af því, hver hafi verið látinn tala um þetta í útvarp fyrir helgina, og með alls konar glósum og bröndurum höggvast þm. um það, hvort hafi meiri eða minni þýðingu, að tilgreindir menn séu ýmist í sætum sínum hér á þingi eða á togara á leið til Bretlands. Hvílík reisn á þessu þingi!

Ég tel, að Alþ. þurfi að ræða um dóminn í Haag. Mér finnst ekki eðlilegt, að ríkisstj. sé við því búin að gera það í dag, því að ég veit ekki til þess, að hún sé búin að fá skýrslur frá Haag um það, hvernig dómurinn er, hvernig hann féll og á hvaða forsendum hann er upp kveðinn. Þegar þau gögn liggja fyrir, finnst mér eðlilegt, að það fari fram alvarleg umr. um þetta mál hér á Alþ., en við látum vera að pexa um það, hver hafi komið fram í hvaða fjölmiðli hvenær, hvað menn séu gamlir og hvenær þeir séu að flækjast á togurum til annarra landa o.s.frv.

Ég vil skjóta fram einni hugmynd til hæstv. ríkisstj., sem gæti komið að gangi, áður en eðlilegar umr. fara fram. Og hún er sú, hvort ekki er tímabært fyrir okkur að ráðgast nú við aðrar þjóðir, sem hafa meira en 50 mílna landhelgi, heyra þeirra viðhorf og vita eitthvað um það, þegar málið verður rætt hér alvarlega. Það er til í dæminu, að þetta mál verði, úr því að það heldur áfram fyrir dómnum í Haag, að einhverju leyti prófmál. Það er hugsanlegt, að það verði takmarkað eingöngu við íslenzkar aðstæður, en það er líka hugsanlegt, að það geti haft áhrif á gerðir allra þeirra þjóða, sem hafa meira en 50 mílna landhelgi. Við ættum að heyra skoðanir þeirra og sérfræðinga þeirra, þegar við ræðum málið.

Ég ætla svo að lokum að skjóta fram fsp. til hæstv. ríkisstj., enda þótt utanrrh. sé ekki við. Ég óska ekki eftir svari nú. Fsp. er á þá leið, hvort ekki verði af Íslands hálfu gerð aths. við það, að skip, sem siglir undir fána Afríkulýðveldisins Líberíu, er farið að taka þátt í að veita brezkum landhelgisbrjótum vernd hér við landið? Ég veit ekki, hversu mikið þetta skip hefur þegar gert, en ég er ekki viss um, að þjóðin, sem skipið er skráð hjá, sé hrifin af því. ég þekki það a.m.k. af ræðum, sem fulltrúar Líberíumanna hafa flutt á opinberum vettvangi, að viðhorf þeirra til landhelgismála eru miklu nær okkar viðhorfum heldur en Breta.