06.02.1973
Sameinað þing: 40. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1820 í B-deild Alþingistíðinda. (1427)

123. mál, rannsóknir á íslenskum leirtegundum

Heilbr.- og trmrh. (Magnús Kjartansson):

Herra forseti. Eins og hv. fyrri fyrirspyrjandi tók fram áðan, var samþ. þál. um undirbúning leirverksmiðju í Dalasýslu o.fl. 13. febr. 1957, og fas hv. þm. upp tillgr. hér áðan. Eftir það mælti Iðnaðarmálastofnun Íslands með því, að þessi rannsókn yrði gerð, en rannsóknaráð taldi að fenginni umsögn frá iðnaðardeild atvinnudeildar háskó)ans rannsóknina ekki tímabæra. Lá nú málið niðri langa hríð, en var tekið upp að nýju á Alþ. árið 1970 af alþm. Ásgeiri Bjarnasyni og Friðjóni Þórðarsyni með fsp. til iðnrh., dags. 28. okt. 1970, um undirbúning leirverksmiðju í Dalasýslu o.fl. Ráðh. svaraði þessari fsp. og fól rn. síðan að leggja fyrir Rannsóknastofnun iðnaðarins og jarðkönnunardeild Orkustofnunar að annast rannsóknir þær, er lúta að könnun leirlaga á téðu svæði. Skömmu síðar óskaði Kaupfélag Þingeyinga eftir könnun á leirmyndunum í Þingeyjarsýslum við Rannsóknaráð ríkisins, en það vísaði málinu til iðnrn. Leirkönnunin beindist fyrst og fremst að Hvammsfirði í Dalasýslu og að jarðhitasvæðum við Þeistareyki og Námafjall í Suður-Þingeyjarsýslu. Auk þess var sýnum safnað víða á landinu í því skyni að afla nánari þekkingar á leirmyndunum landsins. Slík þekking er nauðsynleg, þegar dæmt skal um, hvort ákveðin leirvinnsla sé hagkvæm á Íslandi og þá hvar á landinu hún sé hagkvæmust.

Þeir aðilar, sem höfðu frumkvæðið að þessari leirkönnun, lögðu áherzlu á leiriðnað í Dalasýslu og á möguleika á leirvinnslu í Þingeyjarsýslum, án þess að geta sérstaklega um, hvers konar leirvinnsla væri höfð í huga. Eiginleikar hráefnis ráða mjög miklu um það, hvers konar iðnaður er hugsanlegur. Til eru nokkrar tengdir leirminerala, og eru nýtingarmöguleikar leirhráefnis mjög háðir því, hvaða leirmíneröl eru í því, í hvaða hlutföllum og styrk þau eru og hvaða önnur míneröl eru í hráefninu. Til fróðleiks skulu nokkrir notkunarmöguleikar leirs taldir upp:

1. Leir til brennslu, byggingarefni, svo sem múrsteinar, rör og flísar, heimilis- og skrautmunir, hreinlætistæki og postulínsvörur.

2. Leir vegna jarðborana.

3. Leir til lýsishreinsunar.

4. Leir vegna framleiðslu á málningu.

5. Slitlag malarvega.

Eins og framan greinir, var rannsóknunum aðallega beint að leirlögunum í Dalasýslu, en til hagræðis voru aðrir þekktir staðir teknir með. Framkvæmd rannsóknanna var hagað þannig, að Orkustofnunin lagði til jarðfræðikunnáttu, en Rannsóknastofnun iðnaðarins lagði fram tæknilega og efnafræðilega þekkingu og rannsóknir. Þessar rannsóknir urðu viðameiri en búizt var við, þar sem ýmsar spurningar og vandamál komu fram í sambandi við rannsóknastarfið. Þessum nýju atriðum, sem fram komu í sambandi við rannsóknirnar, þarf að svara til þess að fá fullkomnari upplýsingar og niðurstöður um gæði ásamt notkunarmöguleikum íslenzkra leirtegunda. Rannsóknastofnun iðnaðarins þurfti að afla sér ýmissa nauðsynlegra rannsóknartækja vegna þessara leirrannsókna, m.a. leirbrennsluofns ásamt tilheyrandi útbúnaði. Kornastærðargreiningar, efnagreiningar og margvíslegar aðrar rannsóknir byrjuðu strax og sýnum hafði verið safnað, en leirbrennsluofninn kom ekki fyrr en á miðju ári 1972. Var þá hafizt handa við brennslutilraunir á leir. Á svo stuttum tíma sem liðinn er síðan ofninn kom hefur ekki verið hægt að framkvæma nema tiltölulega fáar brennslutilraunir.

Fyrrgreindar tvær stofnanir hafa nú sent frá sér ítarlegar og viðamiklar skýrslur. Segja má, að þar með sé lokið rannsóknaþætti þessa máls. Hann hefur tekið lengri tíma og orðið yfirgripsmeiri en til stóð í byrjun, enda eru leirrannsóknum hérlendis þar með gerð sæmileg skil. Leirsýni frá eftirtöldum stöðum voru tekin til rannsóknar í Rannsóknastofnun iðnaðarins: Sigöldu, Torfajökli, Dalasýslu, Námafjalli, Krókóttu vötnum, Kröflu, Þeistareykjum, Ketillaugarfjalli í Hornafirði, Bæjardal í Lóni, Hoffellsdal, Hornafirði, Hengifossi, Kerlingarfirði og Norðurárdal í Borgarfirði. Eru þetta þeir staðir, sem vitað var um leirnámur á. Sumar þeirra eru þó mjög litlar. Alls voru 68 sýni efnagreind, en með því má áætla gæði leirsins að nokkru. Síðan voru sýni frá þeim stöðum, sem líklegastir þóttu að gæðum og magni, tekin til nánari rannsóknar. Var það leir frá Dalasýslu, Námafjalli, Þeistareykjum, Hornafirði, Bæjardal í Lóni, Sigöldu og Torfajökli. Einnig var tekið með sýni frá Ketillaugarfjalli í Hornafirði, þótt enn sé ekki vitað nema um tiltölulega lítið leirmagn þar, vegna þess hve leirinn var talinn álitlegur eftir efnarannsókn. Prófun á mótanleika eða þjálni reyndist jákvæð fyrir leir frá Dalasýslu, Námafjalli, Þeistareykjum og Ketillaugarfjalli. Prófanir á rýrnun við þurrkun voru hins vegar einungis jákvæðar fyrir Dalasýslu og Ketillaugarfjall. Þær leirgerðir eru því þær einu, sem koma til greina sem aðalefni til leirframleiðslu. Aftur á móti kom í ljós, að leir frá Torfajökli er hentugur til íblöndunar í Dalasýsluleirinn, þar sem hann bætti mjög þurrkunareiginleika hans.

Brennsluprófanir reyndust hagstæðar fyrir Ketillaugarfjallsleir. Dalasýsluleirinn hafði þröngt brennslusvið eða hitasvið við brennslu, og orsakar það, að varfærni og eftirlit þarf við brennslu hans. Möguleikar eru þó á að breyta þessum eiginleika með íblöndun. Prófanir á vatnsdrægni Dalasýsluleirs eftir brennslu reyndust fullnægjandi fyrir ýmsa grófkeramik, t.d. tígulsteina, en rannsóknir á frostþoli þarf einnig að framkvæma. Þar sem leir hefur enn aðeins fundizt í tiltölulega litlu magni í Ketillaugarfjalli í Hornafirði, virðist einkum vera um möguleika á nýtingu leirs í Dalasýslu eða Laxárdal að ræða.

Um grundvöll fyrir rekstri leirverksmiðju í Búðardal skal eftirfarandi tekið fram:

Mikið magn er af leir við Búðardal, og er að sjá, að leirinn sé jafn að gæðum. Þótt rannsóknir hafi leitt í ljós, að um viðkvæman leir sé að ræða, þannig að brennslusviðið sé stutt, þá eru möguleikar á að bæta leirinn með ýmsum íblöndunum. Þar með ætti fyrri hluta fsp. að vera svarað.

Um síðari hlutann mætti segja þetta: Rannsóknin hefur leitt í ljós, að í Dalasýslu er leir nothæfur til iðnaðarframleiðslu, sem líklega má þó bæta með íblöndun. En spurningunni um rekstrargrundvöll leirverksmiðju er ekki þar með svarað. Kanna þyrfti, hver væri hugsanlegur markaður fyrir framleiðsluna og hvaða vörutegundir mundu bezt henta. Slíka hagkvæmniskönnun þyrfti að gera, og væri æskilegt, að fjár yrði aflað í því skyni.

Eins og ég gat um fyrr í svari mínu, eru þegar tiltækar tvær skýrslur um þessi efni. Það er í fyrsta lagi skýrsla frá Orkustofnun: Leirmyndanir í Dalasýslu og Þingeyjarsýslum. Hún kom út í okt. 1972 og er aflmikið plagg. Hin síðari kom í jan. í ár frá Rannsóknastofnun iðnaðarins: Rannsóknir á íslenzkum leir, og er mikið plagg, eins og menn sjá. Þessar skýrslur eru tiltækar hjá iðnrn. fyrir þá, sem hefðu áhuga á að kynna sér þær. í iðnrn. eru einnig til nokkur sýni af brenndum leir, bæði leir úr Dalasýslu og með íblöndun frá leir annars staðar að, sem þeir þm., sem áhuga hafa á þessu máli, geta skoðað þar.