06.02.1973
Sameinað þing: 40. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1822 í B-deild Alþingistíðinda. (1429)

123. mál, rannsóknir á íslenskum leirtegundum

Friðjón Þórðarson:

Herra forseti. Ég vil aðeins leyfa mér að taka undir þakkir hv. 1. þm. Vesturl. til hæstv. iðnrh. og þeirra manna, sem unnið hafa að rannsóknum þessa efnis. Það má segja, að það var rennt nokkuð blint í sjóinn með flutningi þessarar till. á sínum tíma og ályktun Alþ., sem samþ. var á Alþ. 13. febr. 1957, og vissulega skorti þá mörg skilyrði til þess, að hægt væri að halda þessu máli áfram, m.a. var þá ekki rafmagn, sem nú er komið á þessar slóðir. En nú á síðustu árum hafa verið gerð myndarleg átök við að framkvæma þá rannsókn, sem um var beðið, og eins og hæstv. ráðh. gat um, er nú lokið rannsóknarþætti þessa máls. Er mjög myndarlega að því verki staðið, og mun ég a.m.k. þiggja að líta nánar í þær bækur, sem hæstv. ráðh. var hér með áðan.

Ég vona, að þessu máli verði haldið áfram, haldið vakandi, því að vissulega getur hér verið um mikið hagsmunamál fyrir þessa byggð að ræða. Ég vænti þess, að þar leggist allir á eitt við að athuga til hlítar, hvort ekki getur orðið þarna um raunhæfa hagnýtingu að ræða byggðinni til heilla.