07.02.1973
Efri deild: 53. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1823 í B-deild Alþingistíðinda. (1433)

148. mál, sala landspildu úr Bjarnanesi í Nesjahreppi

Flm. (Páll Þorsteinsson):

Herra forseti. Í Nesjahreppi Austur-Skaftafellssýslu er í smíðum heimavistarskóli, sem á að taka nemendur úr 5 hreppum sýslunnar. Smíði þess skóla er ekki að fullu lokið, en þó svo langt komið, að þegar er haldinn skóli á þessum stað, og hefur svo verið hina síðustu vetur. Í næsta nágrenni við þennan skóla er félagsheimili sveitarinnar. Nú hafa nokkrir menn, sem vilja stofna heimili í sveitinni, farið þess á leit við hreppsnefndina, að hún láti í té byggingarlóðir í grennd við þessar stofnanir, skólann og félagsheimilið. Hreppsnefndin vill verða við þessum tilmælum, en hefur ekki umráð yfir þeirri landspildu, sem þykir koma til greina í þessu sambandi. Landspildan er í landareign jarðar, sem heitir Austurhóll, en sú jörð, Austurhóll, er mjög landlítil og var upphaflega hjáleiga frá prestssetrinu Bjarnanesi. Þegar leitað var til bóndans á Austurhóli um, að hann léti af hendi þetta land til hreppsins, gaf hann þau svör, að hann vildi ekki verða við þeim tilmælum nema með því skilyrði, að hann fengi jafnstóra spildu á öðrum stað til þess að leggja við landareign sína. En þá þarf að skerða prestssetursjörðina Bjarnanes sem þessu nemur. Hreppsnefndin leitaði þá álits prestsins í Bjarnanesi um viðhorf hans í þessu efni, og hann lét í té mjög jákvæða umsögn um málið, sem ég hef leyft mér að birta sem fskj. með grg. frv., og er umsögn þessi svo hljóðandi:

„Hreppsnefnd Nesjahrepps hefur farið þess á leit við mig, að ég yrði henni hliðhollur í þeirri málaleitan, að Stjórnarráð Íslands veitti leyfi sitt til þess, að seldir yrðu úr landi prestssetursins Bjarnaness 4 hektarar lands til Guðmundar Guðbjartssonar bónda á Austurhóli í stað lands, er hann lætur hreppsnefndinni í té til stofnunar byggðahverfis. Þar að land til byggðahverfisstofnunar fæst ekki átakalaust nema með þessum kostum, en spildan, sem um er beðið, er prestssetrinu nytjalítil, hlýt ég að vera þessari beiðni meðmæltur.

Virðingarfyllst.

Skarphéðinn Pétursson.“

Í framhaldi af þessu sendi oddviti hreppsins erindi til kirkjumrn., þar sem jörðin Bjarnanes er prestssetur, og óskaði þess á s.l. vori, að kirkjumrn. hlutaðist til um, að hreppurinn gæti fengið þá spildu, sem hér um ræðir. Ráðuneytið tók þessari málaleitun fremur vel út af fyrir sig, en það bendir á, að þessi viðskipti þurfi að gerast á þann hátt, að spildan úr Bjarnaneslandi, sem leitað er eftir, verði seld Nesjahreppi, og til þess að svo megi verða, þurfi að fá lagaheimild, til þess að sala geti átt sér stað. Þegar málið var komið í þetta form, var leitað til þm. um það, að þeir reyndu að fá lögfesta slíka lagaheimild. Af því tilefni er frv. þetta nú borið fram.

Frv. mælir fyrir um það, að ríkisstj. sé heimilt að selja Nesjahreppi í Austur-Skaftafellssýslu landspildu allt að 8 ha. að stærð úr prestssetursjörðinni Bjarnanesi í Nesjahreppi. Verði þetta frv. samþykkt, hyggst hreppsnefndin ráðstafa þessari spildu til bóndans á Austurhóli í skiptum fyrir land, sem hann lætur hreppnum í té og notað verður sem lóðir undir íbúðarhús í næsta nágrenni við félagsheimili og skóla í miðri sveit. Það er ekki fyllilega ákveðið, hvað þessi spilda verður stór, en lágmarkið er 4 hektarar og hámarkið 8 hektarar. Til þess að ekki standi á lagaheimild í þessu efni, segir svo í frv., að spildan megi vera allt að 8 ha. að stærð.

Ég tel ekki þörf á að láta fylgja þessu máli frekari skýringar og legg til, að frv. verði vísað til 2. umr, og hv. landbn.