07.02.1973
Neðri deild: 47. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1825 í B-deild Alþingistíðinda. (1436)

143. mál, sala Miklaholtshellis í Hraungerðishreppi

Flm. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér ásamt hv. 2. þm. Sunnl. að flytja frv. á þskj. 270 um heimild fyrir ríkisstj. til þess að selja jörðina Miklaholtshelli í Hraungerðishreppi bræðrunum Bjarna og Einari Eiríkssonum, sem hafa búið lengi á þessari jörð. áður bjuggu þar foreldrar þessara bræðra. Jörðin er landlítil, en hefur verið ræktuð, verið húsuð vel, bæði peningshús og íbúðarhús, og þarna er allt með myndarbrag. Bræðurnir hafa sótt um að fá jörðina keypta. Hreppsnefnd Hraungerðishrepps mælir eindregið með því, að jörðin verði seld ábúendum jarðarinnar, eins og sjá má á prentuðu fskj. með frv.

Ég sé ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þetta mál, en legg til, herra forseti, að því verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. landbn.