07.02.1973
Neðri deild: 47. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1826 í B-deild Alþingistíðinda. (1438)

143. mál, sala Miklaholtshellis í Hraungerðishreppi

Flm. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Það er út af fyrir sig ekkert óeðlilegt, þótt hæstv. samgrh. veki athygli á malartöku á jörðinni. En hæstv. ráðh. veit eigi að síður, að það skiptir ekki öllu máli, hvort jörð er í einkaeign eða ríkiseign. Vegagerðin á alltaf rétt til malartöku í landi, eftir því sem þörf er á, hver sem jörðina á. Það má vel vera, að eðlilegt sé að gera einhvern fyrirvara eigi að síður, sérstaklega um verð á mölinni, sem þó fer eftir mati hverju sinni, þótt um einkaeign sé að ræða. En malartekja undanfarið hefur verið mikil á þessari jörð, og hefur túnið verið skemmt. Bræðurnir hafa fengið bætur fyrir það, enda þótt þeir hafi ekki átt jörðina.

Það er vitanlega eðlileg meðferð á þessu máli að senda það vegamálastjóra til umsagnar og til athugunar, hvort fyrirvari þurfi að vera um malartökuna. Sérstaklega er rétt að athuga um verðið á mölinni. En vegagerðin hefur sinn rétt til þess að taka mölina, enda þótt jörðin verði í einkaeign, eins og hæstv. ráðh. veit.