07.02.1973
Neðri deild: 48. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1827 í B-deild Alþingistíðinda. (1443)

151. mál, neyðarráðstafanir vegna jarðelda á Heimaey

Flm. (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Þegar menn fréttu, að eldur væri uppi á Heimaey við bæjardyr Vestmanneyinga, eyjarnar nálega yfirgefnar og byggðin í hættu, fundu menn strax, að það, sem var að gerast, snerti alla landsmenn, og viðbrögð manna til hjálpar og stuðnings hafa verið í samræmi við það. Í jarðeldalandi verða menn að bera sameiginlega ábyrgð á jarðeldatjóni. Enginn veit, hverjir fyrir kunna að verða, og þannig hefur það alltaf verið og þjóðin ekki sett þá áhættu fyrir sig. Það mun hún ekki heldur gera framvegis og allra sízt ef drengilega og myndarlega tekst að mæta því þjóðaráfalli, sem orðið hefur í Vestmannaeyjum.

Þetta áfall er mikið, ekki aðeins fyrir það fólk, sem orðið hefur að hrekjast frá öllu sínu — að við enn trúum fastlega — um stundarsakir, heldur einnig fyrir alla íslenzku þjóðina. Vestmannaeyjar hafa um langa hríð verið ein styrkasta stoð íslenzks þjóðarbúskapar og þeirra lífskjara, sem við höfum búið við og búum við, — ekki aðeins Vestmanneyingar, heldur við öll. Vestmannaeyjar hafa ekki aðeins verið framleiðslustöð Vestmanneyinga sjálfra, heldur einnig þjónustustöð fyrir drjúgan hluta íslenzka fiskiskipaflotans vetur, sumar, vor og haust, eins og mál hafa þróazt undanfarið. Þessi þáttur kemur víðar inn í þjóðartekjurnar en menn átta sig á í fljótu bragði.

Vestmannaeyjar hafa orðið smátt og smátt eins konar móðurskip fyrir æðimikinn hluta íslenzka flotans og það miðja vegu á fengsælustu fiskimiðum landsmanna. Þessi stórkostlegu fiskimið, sem eru ein aðalundirstaða íslenzks þjóðarbúskapar og ég segi enn: þeirra lífskjara, sem við njótum öll, verða ekki hagnýtt í þeim mæli, sem þjóðin þarfnast, ef það volduga móðurskip hverfur af miðunum.

Það er brýn þjóðarnauðsyn og í okkar eigin þágu allra að standa fast með því kjarkmikla og dugmikla fólki, sem byggt hefur Vestmannaeyjar, bera með því byrðarnar, bjarga því, sem bjargað verður, og bæta það, sem brestur í hamförunum. Vestmannaeyjakaupstað verður að reisa við, svo að Vestmannaeyjar geti á ný orðið sú máttarstoð, sem þær hafa verið í okkar þjóðarbúi.

Kjarni málsins er að búa svo um hnútana, að Vestmanneyingar geti gert þetta sjálfir með kröftugri aðstoð okkar allra hinna. Aðrir gera það ekki. Það verður að styðja Vestmanneyinga til þessa með sameiginlegu átaki allra landamanna. Það, sem gert er, þarf helzt að vera í sæmilegu samræmi við manndóm þann, sem Vestmanneyingar hafa sjálfir sýnt, og fórnfýsi og dug þeirra, sem undanfarið hafa unnið frábært björgunarstarf í Vestmannaeyjum við mikla áhættu, og má enn minna á þá einstöku mildi, að ekki hefur orðið manntjón eða stórslys í eldregni því, sem margir hafa brotizt um í við björgunarstörfin undanfarið.

Meginþungann af því áfalli, sem þjóðin verður fyrir vegna náttúruhamfaranna, hljótum við að bera sjálf, en taka með þökkum framlögum erlendis frá, sem þegar hafa borizt víða að og munu sjálfsagt berast. Verður þess lengi minnzt, hvernig frændþjóðir á Norðurlöndum hafa brugðið við og lagt fram stórhöfðinglegan stuðning. Veitir það stóraukinn styrk og öryggi í þessum vanda að vita það, að við Íslendingar stöndum ekki einir.

Við getum ekki fyrr en í fulla hnefana og í ýtrustu neyð skotið því yfir á næstu kynslóð að mæta þessu tjóni. Annað mál er að athuga um hagfelld lán til þess að mæta verðmætisaukningu, sem endurreisn kann að fylgja.

Segja má, að það frv., sem hér liggur fyrir nú, sé annar áfangi þessa mikla vandamáls hér á Alþ., og mun ég nú rekja aðdraganda þess og efni.

Hinn 29. jan. samþykkti Alþ. með shlj. atkv. Till. til þál. um neyðarráðstafanir vegna jarðelda í Vestmannaeyjum. Í till. er svofellt ákvæði, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að kjósa nefnd 7 þm. til þess að gera till. um neyðarráðstafanir vegna eldgossins í Heimaey og um fjáröflun þeirra vegna. Skal hún þegar hefja starf og skila till. sínum í frv.- formi svo fljótt sem nokkur kostur er. Till. n. skulu við það miðaðar, að húsifjar af völdum náttúruhamfaranna séu bornar af þjóðinni allri sameiginlega.“

Flm. þessa frv. voru kosnir í n. Hefur n. unnið að þessu verkefni síðan, og er þetta frv. ávöxturinn af starfi hennar og byggt á samkomulagi, er í henni varð.

N. hefur að sjálfsögðu fylgt þeirri stefnu í starfi sínu, sem mótuð er í ályktun Alþ., er ég áðan las úr. Var reynt að gera sér grein fyrir stærð þess vandamáls, sem við er að etja. Reyndist raunar ókleift að komast að niðurstöðu um það, hver stærðin væri, jafnvel ekki tóm til að meta það tjón, sem þegar er orðið, og afleiðingar þess, hvað þá heldur að geta sér til um, hversu stórfellt áfall þetta getur orðið, ef hamfarirnar halda áfram. N. sér þó eftir eins vandlega skoðun og unnt er við að koma nú, að tjónið nemur nú þegar milljörðum, og telur hún því þjóðarnauðsyn bera til að stofna án tafar myndarlegan sjóð, sem þjóðin öll leggi fé til, og telur, að hann verði að nema í upphafi tveimur milljörðum kr., að viðbættu því, sem komið getur til í gjöfum innanlands og utan. Lán koma einnig til greina tengd þeirri miklu uppbyggingu og endurreisn byggðar í Vestmannaeyjum, sem kemur til framkvæmda svo fljótt sem nokkur kostur er. N. telur, að þessara tveggja milljarða verði að afla á næstu 12 mánuðum, og eru till. um fjáröflun til sjóðsins byggðar á þeirri skoðun. Eru fjáröflunarleiðir miðaðar við það sjónarmið að dreifa byrðinni.

Ég endurtek, að enginn veit, hversu tjónið verður mikið né hvað þarf til þess að bæta það. En með því að stofna þennan sjóð strax er þó stigið myndarlegt spor í þá átt og lagður grundvöllur að þeirri sókn, sem þjóðin verður að taka upp til þess að endurreisa hina voldugu framleiðslustöð í Vestmannaeyjum.

Samkv. frv. á að stofna Viðlagasjóð vegna náttúruhamfaranna, og er hlutverk hans rakið í frv. Er þar um víðtækar heimildir að ræða, enda verður ekki hjá slíku komizt vegna þess, hve margt er á þessu stigi óljóst um framkvæmd málsins. Verður valdið hjá stjórn sjóðsins, sem lagt er til, að verði skipuð 7 mönnum þingkjörnum. Þá er í frv. ákvæði um gjafafé og annað fé, sem renna skal til sjóðsins, ef því er ekki beint til annarra aðila.

Ákvæði er í frv. um, að stjórn sjóðsins skuli í öllu starfi sínu hafa náið samráð við bæjarstjórn Vestmannaeyja og aðra opinbera aðila, sem um málefni Vestmanneyinga fjalla.

Margir þættir og málaflokkar koma til greina, þegar meta á, hvað gera skal í þessum mikla vanda, og þá m.a. þessir, er ég skal nú aðeins nefna: Flutningar frá Vestmannaeyjum: fólksflutningar, búslóðarflutningar, birgðaflutningar, véla- og tækjaflutningar. Starfsemi almannaráðs. Björgunarstarfsemi annarra aðila. Starfsemi Vestmannaeyjakaupstaðar og stofnana hans heima fyrir og í Reykjavík. Húsnæðiskostnaður og geymslukostnaður í landi. Félagsmálaútgjöld ýmiss konar, skólahald og margir fleiri málaflokkar. Kostnaður í Vestmannaeyjum við vernd mannvirkja. Hreinsunarkostnaður, gosefnisflutningur úr bænum og fleira því líkt. Lagfæringar á eignum og mannvirkjum, sem orðið hafa fyrir skemmdum, og bætur vegna eignatjóns. Kostnaður útgerðarmanna við að koma fiskiflota Vestmannaeyja og búnaði hans í aðstöðu í öðrum verstöðvum. Kostnaður vegna sérstakra aðgerða í fiskvinnslustöðvum í Vestmannaeyjum. Aukning viðlegurýmis og hafnarbætur í landi vegna Vestmannaeyjabáta (skyndiráðstafanir ýmiss konar). Kostnaður við fiskflutninga. Bætur fyrir tekjumissi á árinu 1973 til einstaklinga og fyrirtækja. Vextir og afborganir af eignum, sem verða óarðgæfar um sinn. Heimflutningar til Vestmannaeyja. Uppbygging í Vestmannaeyjum.

Ekki má telja, að hér sé tæmandi upp talið það, sem til greina getur komið. T.d. eru skattgreiðslur Vestmanneyinga vandamál, sem verður að athuga alveg sérstaklega.

Mun ég þá gera grein fyrir ákveðnum frv. um tekjuöflun til Viðlagasjóðs, og koma þar til þessir liðir:

Sérstakt viðlagagjald, 2% á söluskattsstofn, sem gildi frá 1. marz n.k. til 28. febrúar 1974. Fylgir það ákvæði, að verðhækkunaráhrif þessa gjalds komi ekki inn í kaupgreiðsluvísitölu. Verður svo að vera, því að annars yrði þessi fjáröflun til að kosta neyðarráðstafanir vegna jarðeldanna tilefni til almennra kanphækkana. Viðlagagjald verði 30% á álagðan eignarskatt á gjaldárinu 1973. Viðlagagjald verði á árinu 1973 innheimt á gjaldstofn aðstöðugjalds, sem nemi 35% þess hundraðshluta, sem á var lagður sem aðstöðugjald á árinu 1971. Þá verði 1% gjald lagt á tekjur á árinu 1972, eins og þær verða ákvarðaðar til grundvallar útsvarsálagninga á þessu ári, og er gert ráð fyrir, að þetta viðlagagjald sé lagt á og innheimt um leið og útsvörin. Þetta er framlag einstaklinganna, en innheimt af sveitarstjórnum með útsvörum. Viðlagagjald þeirra, sem greiða landsútsvör, er 10% af fjárhæð þeirra á þessu ári.

Ákveðið er í frv., að ríkissjóður leggi Viðlagasjóði 160 millj. kr., og ríkisstj. heimilað að lækka ríkisútgjöldin sem því svarar til viðbótar öðrum lækkunum á ríkisútgjöldum, sem áður hafa verið heimilaðar og ákveðið er, að framkvæmdar verði. Stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs er heimilað að leggja til Viðlagasjóðs 160 millj. kr. óafturkræft framlag, og er þetta ákvæði sett í trausti þess, að sú heimild verði notuð.

Tekjur Viðlagasjóðs eru áætlaðar þessar samkv. þessu: Viðlagagjald á söluskattsstofn, 900 millj. kr., viðlagagjald á aðstöðugjaldsstofn 300 millj. kr., viðlagagjald lagt á eignarskatt 80 millj. kr., viðlagagj. miðað við tekjur við útsvarsálagningu og álag á landsútsvar 400 millj. kr., frá ríkissjóði 160 millj., frá Atvinnuleysistryggingasjóði 160 millj., samtals 2 000 millj.

Þetta eru æðimiklar álögur, sem frv. gerir ráð fyrir, en því miður sízt of í lagt. Deila má að sjálfsögðu um, hvernig til hefur tekizt að jafna þessu niður, og mun þar sitt sýnast hverjum, enda úr vöndu að ráða. En ég er sannfærður um, að enginn mun sjá eftir sínum hluta.

Að lokum vil ég enn leggja áherzlu á, að margt er óljóst í málum þessum. Það verður því að þreifa sig áfram við framkvæmd þeirra skref fyrir skref. Mjög miklu skiptir, að þjóðin öll byrji strax að búa sig í stakk fjárhagslega til þess að mæta í sameiningu áfallinu og stuðla að endurreisn byggðarinnar í Vestmannaeyjum, og að því miðar þetta frv.

Frv. er undirbúið og samið af þn. í samráði við allan þingheim stig af stigi, og á þann hátt má í raun og veru segja, að allir þm. hafi unnið sem ein nefnd í þessu máli. Legg ég því ekki til, að frv. verði vísað til n. í hv. d., en það er sameiginleg ósk allra flm. frv., að málinu verði hraðað gegnum báðar þingdeildir.