07.02.1973
Neðri deild: 48. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1830 í B-deild Alþingistíðinda. (1444)

151. mál, neyðarráðstafanir vegna jarðelda á Heimaey

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Á fyrsta degi náttúruhamfaranna á Heimaey kvaddi hæstv. forsrh. formann Alþfl. og mig á sinn fund til þess að ræða þessa alvarlegu atburði, er vörðuðu okkur Íslendinga alla. Í frásögnum af þessum viðræðum var að mínu ráði talað um okkur Gylfa Þ. Gíslason sem formenn þeirra flokka, sem ekki ættu fulltrúa í ríkisstj. Ég kýs því enn að ræða þetta mál — ekki frá sjónarmiði stjórnar eða stjórnarandstöðu, í þessu máli er enginn þingflokkur í andstöðu.

Þegar kosin var sú 7 manna n. allra þingflokka mánudaginn 29. jan. s.l., sem nú stendur að flutningi þessa frv. um neyðarráðstafanir vegna jarðelda á Heimaey, gerði ég grein fyrir afstöðu okkar sjálfstæðismanna í meginatriðum. Aðalatriðin voru: Í fyrsta lagi, að þingflokkur sjálfstæðismanna var einhuga um, að veita bæri Vestmanneyingum allan nauðsynlegan stuðning vegna eldgossins þar. Í öðru lagi var skoðun okkar, að till. um neyðarráðstafanir ætti ekki að leggja fram í þinginu fyrr en fullreynt væri um samkomulag milli allra þingflokkanna. Í þriðja lagi: Við töldum eðlilegast, að frv. um neyðarráðstafanir yrði flutt sem þmfrv. allra þingflokka. Í fjórða lagi: Við töldum, að einangra bæri aðgerðir við aðstoð til Vestmanneyinga og úrbætur í tengslum við náttúruhamfarirnar og með engu móti blanda saman við annan efnahagsvanda.

Þegar við komum til þingfundar 29. jan., höfðum við sjálfstæðismenn undirbúið uppkast að till. til þál. og frv. að neyðarráðstöfunum vegna eldgossins. Við höfum gert ráð fyrir að hafa samráð um hvort tveggja við þingflokka. Í 7 manna n. varð í upphafi samstaða um að einangra tillögugerð við Vestmannaeyjavandann. Í öndverðu varð einnig samstaða um að stofna vegna náttúruhamfaranna í Vestmannaeyjum Viðlagasjóð, er væri um 2000 millj. kr. Um fjáröflun til sjóðsins hafa verið skiptar skoðanir, en við höfum viljað samræma sjónarmiðin. N. hefur haldið fundi daglega og þingflokkafundir verði jafnan haldnir þess í milli. Frv., sem við nm. nú leggjum fram, grundvallast á samkomulagi okkar allra.

Við biðjum nú þess, að forsjónin hlífi Vestmanneyingum við meiri voða en þegar er orðinn, bæði á efnahagssviði, en ekki síður í sálrænu tilliti. Við reynum að skynja hina skelfilegu óvissu, en vitum, að við mennirnir fáum ekki við ráðið. Við þökkum guði björgun fólksins. Við biðjum þess, að við megum næra í brjóstum okkar vonina um það, að nú sem fyrr stytti élin upp um síðir, að í fyllingu tímans megi byggðin aftur risa á Heimaey, að eyjan fagra byggist aftur sjósóknurum og áræðismönnum með vonglaðar eiginkonur og mæður við heimilisarin.