08.02.1973
Sameinað þing: 41. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1842 í B-deild Alþingistíðinda. (1470)

85. mál, veggjald af hraðbrautum

Stefán Gunnlaugsson:

Herra forseti. Það hefur vakið athygli og undrun, a.m.k. á Suðurnesjum, að nokkrir hv. alþm., stuðningsmenn hæstv. ríkisstj., skuli hafa tekið sig til og flutt þá till. til þál., sem hér er til umr., svo stuttu eftir að Alþ. hefur gert ályktun varðandi þetta mál, án þess að forsendur hafi í nokkru breytzt, að því er bezt verður séð. En eins og kunnugt er og hefur komið fram í þessum umr., var við afgreiðslu þál. um vegáætlun fyrir árin 19721975 á síðasta Alþ. samþykkt að fella burt veggjald úr tekjuáætlun vegasjóðs á árunum 1973–1975, veggjald, sem lagt hafði verið um árabil á alla umferð til Suðurnesja um Reykjanesbraut, og samkv. því hefur innheimtu þessa gjalds nú verið hætt. Suðurnesjabúar og aðrir, sem um Reykjanesbraut aka, þurftu þannig að greiða sérstakt gjald fyrir að fara um veg, sem tengir hið fjölmenna Reykjanessvæði við höfuðborgarsvæðið, á sama tíma sem ekkert slíkt gjald var lagt á umferð á öðrum vegum hér á landi, sem lagðir eru varanlegu slitlagi eins og Reykjanesbrautin. Skiljanlegt er, að íbúar Suðurnesja hafi átt erfitt með að sætta sig við þetta og oft mótmælt því misrétti, sem þeir þannig urðu fyrir.

Rökin með og móti veggjaldi hafa margoft verið rakin hér á hinu háa Alþingi, svo að ég mun ekki lengja þessar umr. nú með því að ræða þær í einstökum atriðum, en vil þó við þetta tækifæri leggja áherzlu á, að það mun með öðru hafa ráðið úrslitum um fjármögnun og framkvæmd á byggingu Reykjanesbrautarinnar á sínum tíma, að sú hraðbrautarframkvæmd var knýjandi vegna nauðsynjar á greiðum samgöngum við Keflavíkurflugvöll. Og það er vafasamt, að unnt hefði verið að hrinda því máli í framkvæmd á þeim tíma, sem það var gert, ef ekki hefði þrátt fyrir brýna nauðsyn af öðrum ástæðum verið til staðar hin aðkallandi þörf á hraðbraut milli Keflavíkurflugvallar og Reykjavíkur.

Það liggur auðvitað í augum uppi, að þessi vegur hefur verið Suðurnesjamönnum mikið hagræði. En með hliðsjón af því, hvernig hann er til komin; eins og ég hef bent hér á, er ekki sanngjarnt, að íbúum Reykjaness, sem mest hafa þurft að nota þennan veg, skuli hafa verið íþyngt í gjöldum til hins opinbera með greiðslu veggjaldsins samtímis því, að ekki hefur þurft að greiða veggjald af umferð um aðra vegilandsins, sem lagðir eru varanlegu slitlagi.

Sveitarstjórnarmenn í Reykjaneskjördæmi hafa mótmælt þáltill., sem hér er til umr. og gerir ráð fyrir, að sú ákvörðun, sem tekin var fyrir nokkrum mánuðum um að fella niður veggjald af umferð um Reykjanesbraut, verði nú numin úr gildi og aftur lagður á slíkur skattur.

Ég fæ ekki séð, að aðstæður hafi breytzt í þessu máli frá því, sem var, þegar það var afgreitt hér á hinu háa Alþ. fyrir nokkrum mánuðum. Út frá því sjónarmiði er ekki ástæða til að ætla, að hv. alþm. hafi breytt um skoðun. En hvort stjórnarsinnum, sem áhuga hafa á álagningu veggjalds, hefur tekizt að snúa mönnum á öðrum forsendum til fylgis við það áhugamál sitt, — mönnum, sem áður voru málinu andsnúnir eða tóku þá ekki afstöðu til þess, skal ósagt látið. Það kemur að sjálfsögðu í ljós á sínum tíma. En það er erfitt að trúa því að óreyndu, að menn láti hafa sig til að skipta um skoðun í slíku máli sem hér er um að ræða á svo stuttum tíma, sem síðan er liðinn.

Annars er það athyglisvert og segir sína sögu, að eitt helzta áróðusmál framsóknarmanna gegn fyrrv. ríkisstj. fyrir síðustu alþingiskosningar í Reykjaneskjördæmi var einmitt þetta veggjaldsmál. Þá var ráðizt allharkalega á þáv. ríkisstj. út af því og gefið í skyn, að framsóknarmönnum væri bezt treystandi til að fá hinn óréttláta skatt afnuminn. Þegar málið kom svo til umr. og afgreiðslu á síðasta þingi, reyndist mikill meiri hluti alþm. Framsfl. meðmæltur því, að veggjaldinu yrði haldið áfram. Og slíkur er áhugi þeirra á álagningu þessa vegskatts, að þeir virðast ekki una þeirri ákvörðun, sem þá var tekin í því efni, en eftir því sem bezt verður séð, virðast þeir nú hafa forustu um flutning þeirrar till., sem hér er til umr. og gerir ráð fyrir, að veggjald verði tekið upp á ný á Reykjanesbraut og lagt á umferð um Suðurlandsveg, svo og aðrar þær hraðbrautir, sem lagðar verða með varanlegu slitlagi, þegar þær teljast gjaldbærar.

Rétt og skylt er að geta þess, að það, sem ég hef hér sagt um afstöðu meiri hluta þm. Frarmsfl. til þessa máls, á alls ekki við um hv. þm. Jón Skaftason, 2. þm. Reykn., sem á undanförnum árum hefur verið tíðrætt um þennan skatt og gagnrýnt. álagningu hans. Í því sambandi rifjast upp fyrir mér harðar deilur í Reykjaneskjördæmi milli frambjóðenda Sjálfstfl. og hv. þm. Jóns Skaftasonar fyrir síðustu Alþingiskosningar út af veggjaldinu á Reykjanesbraut, þar sem sjálfstæðismenn héldu því fram, að í raun og veru hefði hv. þm. verið fyrstur framámanna til að koma fram með hugmyndina um veggjald á Reykjanesbraut og lýsti sig fylgjandi henni á sínum tíma, þótt síðar hafi hann skipt um skoðun. Þessar staðhæfingar töldu sjálfstæðismenn sig geta sannað með orðréttum tilvitnunum í ræður og skrif hv. þm.

Ég hef ekki blandað mér inn í þessar deilur framsóknar- og sjálfstæðismanna og ætla mér ekki að gera nú. En ég verð að segja, að mér hefur fundizt, að allt málaþras framsóknarmanna út af veggjaldinu hafi einkennzt af pólitískum skollaleik fyrst og fremst, sem nú nær hámarki í bili með flutningi þeirrar furðulegu till., sem hér er verið að ræða, því að furðuleg er hún vissulega, þegar haft er í huga, hvað á undan er gengið í þessu máli.