08.02.1973
Sameinað þing: 41. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1844 í B-deild Alþingistíðinda. (1471)

85. mál, veggjald af hraðbrautum

Steingrímur Hermannsson:

Herra forseti. Arið 1965, þegar við Íslendingar höfðum eignazt okkar fyrstu hraðbraut, sem svo hefur verið nefnd, var ákveðið að setja þar á veggjald. Helzti málsvari þess, að svo skyldi gert, var þáv. hæstv. samgrh., hv. 1. þm. Sunnnl. Þótt ég væri ekki á þingi þá, sá ég þó víða eftir honum haft sem hv. þm. og ráðh., að slíkt væri eðlilegt og sjálfsagt, því að ekki mætti draga frá því litla fé, sem í vegáætlun er, til greiðslu vaxta og afborgana af þessum vegum, sem sköpuðu íbúum viðkomandi svæða algjörlega sérstöðu. Þetta sýnast mér rök, sem eru í gildi enn í dag. Við samþykkt vegáætlunarinnar á s.l. þingi urðu u.þ.b. 40 millj. kr. að meðaltali til skiptanna til þeirra landshluta, sem við erfiðastar vegaaðstæður búa. Er nokkuð meira réttlæti í því í dag en þá, að vexti og afborganir af þessum ágætu vegum, sem við öll fögnum, að hér eru komnir, séu dregin af þessari lús?

Mér þótti satt að segja ekkert undarlegt, að hv. 1. þm. Sunnl. þóttu rök 1. flm. góð. Ég hugsa, að þau hafi verið nokkurn veginn þau sömu og hann notaði á sínum tíma. Því miður get ég ekki sagt það sama um þau rök, sem fylgdu á eftir í ræðu þess hv. þm. Sýndist mér satt að segja ríkja þar hinn furðulegasti misskilningur, eins og t.d. í sambandi við fullyrðingar hans um það, að óeðlilegt væri, að Austfirðingur greiddi gjald, þegar hann ekur þessa ágætu vegi inn í borgina okkar. Þetta er notendagjald, en ekki gjald á íbúa viðkomandi svæðis. Það er ætlun okkar og hefur eflaust verið ætlun hans, þegar hann gerðist forsvarsmaður þessa veggjalds, að notendur þessara ágætu vega, hvar sem þeir búa á landinu, leggi nokkurn hlut af þeim verulega sparnaði, sem þeim ávinnst með þessum góðu vegum, til þess að standa undir vöxtum og afborgunum af lánum til þessara sömu vega.

Mér finnst satt að segja ekki, að forsendur hafi á nokkurn máta breytzt frá því, sem þær voru, þegar veggjald var ákveðið á Reykjanesbraut. Helzt mátti skilja af ræðu þessa hv. þm., að það væri hin mesta firra að láta bændur greiða veggjald, þegar þeir aka hinn ágæta veg, sem nú er fenginn austur yfir fjall, en hins vegar má þá draga þá ályktun af því, að slíkt hafi verið talið eðlilegt fyrir sjómenn á Suðurnesjum.

Ég held fyrir mitt leyti, að það væri æskilegra og að öllu leyti manndómslegra fyrir þennan hv. þm. að halda sig að þeim ágætu rökum, sem hann hafði í frammi, er hann mælti fyrir veggjaldi og var aðalhöfundur þess á árinu 1965.

Áður en ég kom til fyrri hluta þessara umr. blaðaði ég nokkuð í ýmsum gögnum frá F.Í.B. og hugðist nota þau til rökstuðnings máli mínu. En þá brá svo einkennilega við, að hv. 2. þm. Reykn. notaði nákvæmlega sömu rökin fyrir sínum málflutningi. Hv. þm. gat þess alveg réttilega samkv. upplýsingum frá F.Í.B., að talið er, að ökumaður spari u.þ.b. helminginn af viðhaldskostnaði bifreiðar með því, að aka þessa góðu vegi. Ég sé satt að segja ekki betur, þrátt fyrir málflutning þessa hv. þm., en að þetta séu ein meginrökin fyrir því, að þessir ökumenn greiði nokkurn hluta af þessum sparnaði til þess að standa undir vöxtum og afborgunum af þessum ágætu vegum.

Ég hef hugleitt þetta nokkuð, síðan ég hlustaði á málflutning hv. 2. þm. Reykn., og hef á engan máta getað breytt skoðun minni að þessu leyti, og í mínum huga eru þetta satt að segja veigamesti rökstuðningurinn fyrir því að þeir, sem aka þessa vegi, greiði nokkurn hluta í vegasjóð. Vitanlega má færa þennan rökstuðning töluvert lengra. Það er talað um, að ökumenn í þessum landshluta hafi þegar greitt 67.2% af tekjum ríkissjóðs af umferðinni og bifreiðum, en það má þá segja jafnframt, að með þessum sparnaði á benzínnotkun, gúmmíi og jafnvel á varahlutum eru þeir farnir að greiða að sínum hluta langtum minna en þeir, sem um hina lélegu vegi aka. Minnir það á það, sem hæstv. samgrh. sagði við umr. um þetta mál á síðasta þingi, að hæsta vegskattinn greiða þeir, sem verstu vegina aka. Þetta held ég, að sé staðreynd og kannske mergur málsins. Hæsta veggjaldið eða skattinn greiða örugglega þeir, sem verstu vegina aka. Þeir greiða mest til vegasjóðs, mest til ríkisins af bifreiðum sínum.

Það er að mínu viti hin mesta skekkja að tala um heildina. Við erum að leggja gjald á einstaklinginn. Við erum að leggja gjald á hvern þann einstakling, sem þessa vegi ekur, en ekki á heildina.

Hv. 11. landsk. þm. er nýliði hér í þingsölum eins og ég, en ég verð að segja fyrir mitt leyti: Ekki mundi ég undrast það, þó að brtt. kæmi fram af hans hálfu við eitthvert mál, sem hann hefur ekki fengið hér fram, ef með svipuðum hætti hefði verið og það mál, sem er til umr. nú.

Menn eru að undrast, að flutt skuli vera sú till., sem hér er til umr. Við atkvgr. á síðasta þingi sátu hjá allmargir þm., m.a. þm. úr dreifbýlinu, sem ég fyrir mitt leyti vil endilega veita tækifæri til að endurskoða afstöðu sína. Ég er ekkert hræddur um skakkaföll í atkvæðaveiðum okkar flm. Ég er miklu hræddari um skakkaföll í atkvæðaöflun hinna, sem sátu hjá við síðustu atkvgr., þó að ég telji ekki slíkan málstuðning við hæfi.

Hv. 1. þm. Sunnl. furðaði sig á því og taldi jafnvel vafasamt, að heimilt væri samkv. þingsköpum að bera fram brtt. við vegáætlun, sem samþ. var á síðasta þingi. Ég vil benda hv. þm. á, að hér er um brtt. við tekjuhlið vegáætlunarinnar að ræða, og ég vil einnig benda hv. þm. á það, að við afgreiðslu fjárl. samþykktu þessir sömu hv. þm., a.m.k. þeir, sem greiddu fjárl. atkv. sitt, verulega breytingu einmitt á tekjuhlið vegáætlunarinnar, svo að ég get alls ekki séð, að hér sé um neitt einsdæmi að ræða. Ef mér reiknast rétt, þá var þar um 250 millj. kr. breytingu að ræða á tekjuhlið vegáætlunar. Mér sýnast því öll þessi andmæli gegn flutningi þessarar till. falla mjög svo um sjálf sig.

Hv. 11. landsk. þm. kom einnig með fróðlegar upplýsingar um tekjur ríkissjóðs af hverjum km sem ekinn er, 2.88 kr. Ég læt nægja að minna á það, sem ég sagði áðan, að tekjur ríkissjóðs af hverjum km sem ekinn er úti í dreifbýinu á hinum lélegri vegum, eru að sjálfsögðu langtum meiri en á hinum betri vegum.

Ég get tekið undir það með hv. þm. og vona, að það verði tekið til athugunar, þegar þessi till. hefur náð fram að ganga, að beita ódýrari innheimtuaðferðum, og vonandi verður þá kleift að heimta slíkt veggjald af fleiri vegum, þegar þeir ná þessu stigi.

Hv. þm. taldi vel koma til greina að innheimta veggjald af göngum gegnum fjöll eða öðrum meiri háttar framkvæmdum þess háttar. Ég get út af fyrir sig vel fallizt á það. En það er gjörbreyting á þeirri stefnu, sem áður var mörkuð og ég satt að segja leyfi mér að fullyrða, að flestir hafi verið farnir að sætta sig við. Samkvæmt áliti F.Í.B. er stærsta stökkið tekið í sparnaði viðhalds á bílum og aksturskostnaði fyrir hvern einstakling, þegar varnalegt slitlag er fengið. Þetta held ég, að sé óumdeilanlegt, og það er af þessari ástæðu að mínu viti, sem mörkin um veggjald eru eðlilega sett, þegar þeim áfanga er náð.

Ég sé ekki ástæðu til að fjalla um innanríkisdeilu þeirra í Reykjaneskjördæmi, sem einkenndi mjög ræðu hv. 5. landsk. þm., en vil ljúka máli mínu með því að minna á það, að hér í sölum hins háa Alþ. hefur hvað eftir annað og ítrekað í gegnum árin verið lögð áherzla á jafnvægi í byggð landsins, og menn hafa talað af mikilli fegurð um það, að við, sem í þéttbýlinu búum, þurfum að leggja eitthvað af mörkum til þess að jafna hlut þeirra, sem í dreifbýlinu búa. Því miður hefur ekki fengizt mikið með þessu tali. Í mínum huga reynir hér enn einu sinni á þetta mál. Það reynir á það, hvort við, sem fleytum rjómann ofan af erfiði þeirra, sem í dreifbýlinu búa, að ýmsu leyti, fleytum rjómann ofan af erfiði þeirra, sem leggja grundvöllinn að okkar meginatvinnuvegum, viljum greiða til baka smáhlut til þess að gera auðveldara að veita þeim betri vegi.