08.02.1973
Sameinað þing: 41. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1846 í B-deild Alþingistíðinda. (1472)

85. mál, veggjald af hraðbrautum

Flm. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Ég vil ógjarnan lengja mikið umr. um þessa till, nú við þessa umr., en ég verð þó að víkja örfáum orðum að nokkrum andmælum þeirra hv. þm., sem hér hafa talað gegn till.

Hv. 11. landsk. byrjaði ræðu sína á að blöskrast yfir því, að við skyldum flytja þessa till., af því að málið hefði fengið aðra afgreiðslu á þingi í fyrra heldur en hér er lagt til, að hún fengi. Þegar ég var á Laugarvatni, var sá ágæti maður Ólafur Ketilsson vanur að segja við okkur skólapilta, þegar honum blöskraði fáfræði okkar: Hvar hefur þú alizt upp? sagði hann. Og ég vil nú segja við þennan hv. þm., þó að hann hafi ekki verið á þingi nema tvö ár: hvar hefur hann þá verið hin árin? Það er svo algengt, að menn flytji ár eftir ár mál, þó að þau séu felld fyrir þeim eða afgreidd með öðrum hætti en þeir kjósa, að það er ekki umtalsvert. Þetta er ákaflega algengt. Af því að hv. 3. þm. Norðurl. e. situr hér fyrir framan ræðustólinn í sæti sínu, þá kemur mér t.d. í hug, að hann flutti a.m.k. á 4 þingum till. um athugun á jöfnun námskostnaðar þeirra, sem þurfa að senda börn sín að heiman. Hann og þeir, sem með honum voru, fluttu það mál aftur og aftur, þangað til það var samþykkt. Nei, þessi aðfinnsla er alveg fráleit. Ég er alveg hissa á, að nokkur skuli láta þetta heyrast hér á hv. Alþ. — Ég get svo bent á eitt eða tvö atriði önnur í ræðu þessa hv. þm. Hann sagði t.d., að maður, sem ekur daglega um Reykjanesbraut, hefði borgað á ári 12 þús. kr. í vegtoll. En hvað hefur hann sparað mikið með því að fara hraðbrautina í staðinn fyrir gamla malarveginn 7 Það var talað um, að eftir erlendum töflum og skýrslum hefði veggjaldið á sínum tíma átt að nema helmingi af sparnaðinum við að aka hraðbrautir. Síðan er mikið vatn runnið til sjávar, og mikil verðbólga hefur átt sér stað, svo að það er óhætt að segja, að þarna sé um miklu hærri fjárhæðir að ræða, þannig að hafi hann borgað 12 þús. á ári fyrir að aka brautina, þá hefði hann eigi að síður jafnframt sparað sér á því að hafa hraðbrautina undir hjólunum a.m.k. 15–20 þús. kr. á ári. Það er alveg gefið mál, ef nokkuð má marka þessa útreikninga, sem ég út af fyrir sig hef ekki heyrt neinn vefengja.

Það kom fram í ræðu hv. 1. þm. Vestf., að það er staðreynd, að þeir, sem aka þessar ágætu hraðbrautir, sem betur væru komnar um allt landið, greiða minna til ríkisins í ýmsum gjöldum heldur en hinir. Það er óvefengjanlegt. Þeir eyða minna benzíni, þeir slíta minni gúmmíum, og þeir þurfa að kaupa minna af varahlutum og greiða því minni toll af þessu, þannig að þetta er ekki vefengjanlegt. Þetta er svona. (Gripið fram í: Þeir eyða minni gjaldeyri.) Já, það er ástæða til þess að minna á gjaldeyrinn, því að hv. 11. landsk. þm. vildi láta líta svo út, að umferðin um þessa vegi hérna væri svo mikil, að hún borgaði þá og miklu meira, og manni fór að detta í hug, að honum fyndist kannske ekki mikil ástæða til þess að leggja neitt ofurkapp á vegina, þar sem umferðin væri minni og þeir gæfu ekki svo mikið af sér og væru óarðbærari. En ætli það væri nú ekki eitthvað lítið um gjaldeyrinn, ef ekki væri reynt að halda þessu öllu sem bezt gangandi um allt land. Það er þess vegna út í hött að tala eins og hv. 11. landsk., að taka svona út af fyrir sig einhverja fjölfarna vegi og hamra á því, að þar sé svona mikil umferð og hún borgi veginn og miklu meira en það.

Svo sagði hv. þm. líka, að það mundi stórhækka kostnað við alla vöruflutninga hér að höfuðstaðnum, þegar menn ækju hér orðið hraðbrautirnar, ef þeim væri gert að greiða eitthvert gjald. Þetta er auðvitað alveg öfugt. Sýnt hefur verið fram á, að þótt einhver hluti af hagnaðinum sé tekinn í veggjald, þá náttúrlega lækkar flutningskostnaður eftir hraðbrautunum samt sem áður, þó að hann lækki ekki eins mikið og ef ekki væri neitt veggjald borgað, að er rétt.

Hv. 2. þm. Reykn. er iðinn við kolann að því leyti, að hann heldur sínu striki allt frá 1965 a.m.k., ég hef ekki kynnt mér það lengra aftur í tímann. Hv. þm. sagði í ræðu sinni hér um daginn, að Bretar spöruðu helming rekstrarkostnaðar bifreiða sinna með því að aka malbiki stað malar. Þetta er það, sem alltaf er verið að segja hér. En ég hef bent á það hins vegar, að hér er munurinn bara miklu meiri. Og ég vil nú spyrja í fullri einlægni og alveg kalt og rólega: Er það ósanngjarnt, að þeir, sem spara svona mikið í rekstrarkostnaði bifreiða sinna, leggi einhvern hluta, t.d. 1/2, af hagnaðinum, beina peningahagnaðinum, í vegasjóðinn til þess m.a. að flýta fyrir því, að hraðbrautirnar geti lengzt og að framkvæmdum verði hraðað? Er það ekki nóg fyrir þessa ágætu menn að halda t.d. 2/3 af fjárhagslegum beinum ágóða? Er það ekki nóg að viðbættum þeim herlegheitum, sem það eru vissulega að aka höggfrítt, ef svo mætti segja? Mér sýnist þetta sanngjarnt.

En annars langar mig mest til þess að svara ræðum þessara hv. þm. úr Reykjaneskjördæmi, sem hér hafa talað, bara með einni setningu, þannig: „ég býst við því, að ýmsir landsmenn væru þakklátir, ef þeir mættu greiða veggjald fyrir að eiga nú þegar jafnágætan veg og Reykjanesbrautina!“ Ég vildi helzt svara þessu svona einfaldlega: „Ég býst við því, að ýmsir landsmenn væru þakklátir, ef þeir mættu greiða veggjald fyrir það að eiga nú þegar jafnágætan veg og Reykjanesbrautina!“ En um leið og ég svara á þennan hátt, þá er mér skylt að geta þess, að höfundaréttinn að þessari setningu á ég ekki. Hann á hv. 1. þm. Sunnl., fyrrv. hæstv. samgrh. Og hann beindi einmitt þessari setningu til þessa sama þm., hv. 2. þm. Reykn., fyrir nokkrum árum, þegar þeir voru að ræða um þetta fræga veggjald.

Það er leiðinlegt, að hv. 1. þm. Sunnl. er ekki hér við. (Gripið fram í.) Já, ég held, að hana verði að sjá um sig sjálfur, a.m.k. fyrir mér, að því leyti, og það er líka orðin sú venja hér, að menn tala sinn daginn hvor, ef því er að skipta, þannig að ég held, að ég geti ekkert gert með það og verði að svara nokkrum atriðum í hans ræðu, þó að hann sé ekki hér viðstaddur. Nú koma „tíðindin“ strax út, og hann getur lesið þetta, áður en vikan er liðin.

Mér var það satt að segja alltaf efst í huga, meðan ég hlustaði á hans ágætu ræðu, að hann vur maðurinn, sem beitti sér fyrir setningu vegal. með ákvæði um heimild til þess að taka veggjald, og hann var maðurinn, þá í sæti samgrh., sem beitti sér fyrir því að leggja þetta gjald á í fyrsta sinni og eina skiptið, sem það hefur innheimt verið. Þetta var mér efst í huga, meðan ég hlýddi á hans ræðu. Hv. þm. þóttist vera að leiðrétta mig og gaf það í skyn; að ég hefði farið rangt með staðreyndir, þegar ég vék að afgreiðslu vegáætlunar 1972. (Gripið fram í: Óvart.) Óvart, já. En hvort sem það var að hans dómi óvart eða ekki óvart, þá var fyrir þessu enginn fótur, og ég vil leyfa mér af þessu tilefni að rifja það upp aftur, sem ég sagði um þetta atriði. Það er óþarfi að vera með svona snakk, sem enginn fótur er fyrir. Ég sagði um þetta:

„Á síðasta Alþ. var við meðferð vegal. og vegáætlunar gerð mjög veruleg almenn hækkun á því fé, sem varið er til vegamála. Það er unnið af fullum krafti við hraðbrautir samkv. vegáætluninni. Það er haldið áfram framkvæmd sérstakrar Austurlandsáætlunar, það hefur verið hafin framkvæmd á Norðurlandsáætlun, og það eru hafnar framkvæmdir við að opna hringveg umhverfis landið. Allt þetta var ákveðið á síðasta löggjafarþingi og þess vegna alveg ástæðulaust að hafa mörg orð um þetta atriði, um fjárþörf vegasjóðs, í áheyrn þeirra hv. þm., sem réðu þessum ráðum aðeins fyrir nokkrum mánuðum.“

Þetta var það, sem ég sagði. Og ég hygg, að hver maður, a.m.k. hver hv. þm., sjái, að með þessum ummælum er einungis átt við þær ákvarðanir um fjárgreiðslur, sem í vegáætluninni frá 1972 felast, og ekkert annað. Og ég vísa öllum umvöndunum þessa hv. þm. út af þessum ummælum mínum algerlega heim til föðurhúsanna.

Hitt er svo annað mál, að ég neyðist til þess að vanda um við þennan hv. þm., ég neyðist til þess, — og eins þótt hann sé fjarstaddur, í fyrsta lagi fyrir ósamkvæmni í málflutningi, í öðru lagi fyrir ábyrgðarleysi hreint og beint og í þriðja lagi fyrir skort á óhlutdrægni.

Árið 1963 beitir þessi hv. þm. sér fyrir heimildarákvæði í 95. gr. vegal., og þá segir hann m.a., að hann geri ráð fyrir því, að enginn ágreiningur verði um gr., orðrétt, „að hv. þm. telji það sjálfsagt, að þar sem því yrði við komið, væri þessi háttur upp tekinn, enda er það algengt erlendis, þar sem umferð er mikil, að taka vegtoll eða brúartoll til þess að fá nokkuð upp í kostnað og viðhald vega og brúa“. Þetta sagði þessi hv. þm. þá orðrétt. Árið 1965 grípur hann sem samgrh. fyrsta tækifæri til að beita þessari heimild á Reykjanesbraut. Í umr. á Alþ. þá mælir hann sterklega með þessari tekjuöflunaraðferð og, eins og ég vitnaði til áðan, sagði, að aðrir landsmenn mundu þakka fyrir að fá að gjalda vegtoll. Og þá segir hann enn fremur orðrétt í sambandi við umr. um fsp. haustið 1965:

„Með tilliti til þess, að varanleg vegagerð er fjárfrek, gæti ég vel trúað því, að hv. Alþ. teldi eðlilegt að taka umferðargjald af vegum, sem kynnu að verða byggðir sambærilegir við Reykjanesbraut.“

En menn taka eftir, að hann er aðeins farinn að draga í land frá því 1963, — aðeins, en þó lítið. Nú aftur á móti, á þingi 1972 og aftur núna, finnur þessi hv. þm. þessari leið allt til foráttu. Þetta kalla ég ósamkvæmni í málflutningi í hæsta máta, ef ekki hreinan hringlandahátt, því að ekkert hefur breytzt í þá stefnu, að óþörf sé þessi gjaldheimta fyrir vegasjóðinn. Fjárþörf hans hefur ekki minnkað, og það hefur síður en svo dregið úr kröfum landsmanna um betri vegi og um að hraða vegaframkvæmdum, síður en svo dregið úr þeim kröfum.

Ég verð að segja það líka, að mér finnst framkoma þessa hv. þm. við afgreiðslu þeirra breytinga, sem gerðar voru á vegáætlun nú fyrir áramótin og þýddu aukna tekjuöflun fyrir vegasjóð, — mér finnst hún bera vott um hreint ábyrgðarleysi, og það því fremur þegar þess er gætt, að hv. þm. er nýstiginn upp úr sæti samgrh. og þekkir þess vegna betur en nokkur annar þarfirnar. Þar að auki hafði hann æ ofan í æ notið eindregins stuðnings stjórnarandstöðunnar, nálega allrar og stundum allrar, við að afgreiða nauðsynlega tekjuöflun vegasjóðs.

Mér finnst það líka satt að segja alls ekki sæmandi að beita sér fyrir töku veggjalds af hraðbraut í nágrannakjördæmi og gefa í skyn, raunar segja með berum orðum, að það sé sennilegt, að reikna megi með slíkri gjaldtöku víðar, — og þá vissu allir eða gerðu a.m.k. ráð fyrir því, að Suðurlandsvegurinn yrði næstur í röðinni, — en snúast svo öndverður, þegar hraðbraut er komin á heimaslóðir. Það getur vel verið, að einhverjum sýnist þetta allt í lagi, en ég kann ekki við svona vinnubrögð hjá hv. þm., sem ég hef sjálfur unnið með oftar en einu sinni ásamt mínum flokksbræðrum og fleirum utan hans flokks við að afla vegasjóði tekna og auðvitað unnið með honum að ýmsum öðrum gagnlegum málum, eins og gengur.

Hv. þm. gaf í skyn í sinni ræðu, að það væri vafasöm heimild til þess að fara að endurskoða vegáætlunina núna. Þetta er náttúrlega ekki nein endurskoðun á vegáætlun út af fyrir sig. En ég get ekki fundið neitt í vegal., sem hannar það að hreyfa við vegáætluninni, að afla vegasjóði aukinna tekna á milli þess, sem hin formlega endurskoðun fer fram. Þar er ákvæði um, að ráðh. skuli undirbúa endurskoðunina með sínum mönnum á tilteknum tíma, en ég get ekki fundið neitt ákvæði, sem bannar það að líta eftir þessum hlutum þar á milli, enda hefur það vissulega verið gert, og sú lagahreyting, sem gerð var á vegal. núna fyrir áramótin, er með vissum hætti breyting á vegáætlun. Hún snertir vegáætlunina og tekjuöflunina til vegasjóðs alveg eins og þessi till. gerir nú.

Hv. þm. segir, að það hafi verið gengið frá áætluninni endanlega í fyrra. En það sést strax, að þetta er ekki alls kostar rétt, þegar það er haft í huga, að fyrir Alþ. nú liggur frv. um framkvæmdaáætlun ríkisins, þar sem gert er ráð fyrir tiltekinni upphæð, 75 millj. kr., sem varið skuli til vegasjóðs. Þetta er enn þá aðeins frv. og hefur ekki verið afgr. nú þegar, þannig að það er ekki heldur rétt, að innheimta veggjaldsins sé út af fyrir sig óþörf fyrir vegasjóðinn, því að enn er eftir að ganga endanlega frá fjáröflun á þessu ári. Það má einnig til viðbótar þessu, að þarna eru óafgreiddir stórir hlutir, er vegasjóðinn verða, minna á, að kostnaður við vegaframkvæmdir hækkar meira núna á milli ára 1972 og 1973 heldur en ráð var gert fyrir, þegar vegáætlunin var sett 1972. Þá var sá háttur á hafður í fyrsta lagi, að framlögin 1972 voru reiknuð með áætluðu kostnaðarverði. Síðan var miðað við áætlaða kostnaðarhækkun um upphæðirnar 1973, og eins og ég sagði áðan, er þegar ljóst, að sú hækkun verður meiri en þar er gert ráð fyrir. En síðan var miðað við þá tölu áfram með tilliti til þess, að 1974 eru þau tvö ár, sem þá eru eftir, tekin til endurskoðunar og þá væntanlega tölum breytt í samræmi við það, sem þá liggur fyrir um vegagerðarkostnaðinn. Og þannig er það margt, fyrir utan að það er laus endi þarna í framkvæmdaáætluninni, sem bendir til þess, að þarna sé þörf aukins fjármagns, þótt ekki sé nema til þess að halda í horfinu.

Það voru ekki miklu fleiri atriði í ræðu hv. 1. þm. Sunnl., sem ég vildi víkja að. Hann var með smágamansemi þarna, hún er náttúrlega alltaf vel þegin, og virtist bera fyrir brjósti hag Austfirðinga, sem yrðu eitthvað hart úti, eftir að hringvegurinn opnaðist. Aftur á móti taldi hann, að Reykvíkingar mundu sleppa vel, því að það væri bara ein ferð um árið, sem þeir færu út úr bænum austur fyrir fjall Þetta kom mér nú eiginlega skemmtilega á óvart, að jafnvel hann, þessi hv. þm., geti verið svona gamansamur. En um þetta ætla ég þó ekki að ræða. En ég get ekki stillt mig um að vekja athygli á öðrum slíkum gamansömum punkti, sem mér þótti alveg frábær. Hann sagði, hv. þm., að „þessi skattheimta er óréttlát einnig vegna þess, að sú skattlagning kemur helzt niður á þeim, sem sízt gætu eða ættu að bera þessa skatta. Hún kemur niður á framleiðslunni, og hún kemur niður á þeim, sem helzt nota vondu vegina!“ Þetta stendur í þessu nýútkomna hefti.

Svo ætla ég þá að ljúka máli mínu með því, að það er mín skoðun, að við eigum alveg hiklaust að halda við þá stefnu í þessu máli, sem mörkuð var undir forustu hv. 1. þm. Sunnl., þáv. hæstv. samgrh., árið 1963, þegar heimildin um töku veggjalds var sett inn í vegalög og síðan framkvæmd af sama manni frá 1965. Mér finnst það fráleitt að hverfa frá henni nú, þegar búið er að greiða þessi ár af þessum eina vegi, jafnvel þótt vegur sá, sem næst kemur til gjaldtöku, liggi austur yfir heiði, inn í kjördæmi hv. 1. þm. Sunnl. Mín stefna er sú, að halda beri þessari stefnu, sem þarna var mörkuð. Og ég legg enn og aftur áherzlu á þessi tvö atriði: Það er þörf landsmanna fyrir hraðar framkvæmdir í vegamálum og þörf vegasjóðsins fyrir aukið fé til þess að geta orðið við þessum þörfum og þessum óskum. Og hins vegar það, að ég fæ með engu móti séð, að það sé neitt ósanngjarnt, þó að þeim, sem nota hraðbrautirnar, sé gert að greiða hluta af sínum beina peningalega hagnaði til vegasjóðs.