12.02.1973
Neðri deild: 51. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1885 í B-deild Alþingistíðinda. (1493)

150. mál, ítala

Pálmi Jónsson:

Herra forseti. Nýting landsins til beitar hefur verið mjög á dagskrá nú undanfarin missiri. Það frv., sem hér er flutt, fjallar um einn þáttinn í lagasetningu, sem myndar ramma um þetta atriði, og þá sérstaklega, hvernig takmarka skuli fjölda búpenings á ákveðnu landssvæði, ef það er talið æskilegt. Ég skal ekki tala hér nema örfá orð um þetta efni. Eins og fram kom hjá hv. flm., var frv. mjög svipaðs efnis flutt af honum á síðasta Alþ., og lét ég þá í ljós þær aths., sem ég taldi ástæðu til í sambandi við það.

Frv. þetta er að mínu mati rétt að skoða með jákvæðum huga, sem og allar þær till. og allar ábendingar, sem fram koma um það, hvernig betur megi takast að hafa vald á því, hve margt beitarpenings gengur á ákveðnu landssvæði. Ég vil þó geta þess, að sú meginbreyting, sem felst í þessu frv. frá gildandi lögum, þ.e. um ákvörðun um ítölu og það, hvernig hún skuli framkvæmd, er að mínu mati ekki til bóta við fyrstu yfirsýn. Hins vegar eru önnur atriði frv. verulega til bóta, og á ég þar t.d. við ákvæði um viðurlög, ef ítala er brotin, og ýmis fleiri atriði.

Ef litið er á það, hvernig uppbygging gildandi laga er um ítölu, þ.e. þess kafla l. um afréttamálefni o.fl., sem fjalla um þessi efni, þá er það í megindráttum þannig, að sveitarstjórn, sýslunefnd eða gróðurverndarnefnd getur haft frumkvæði að því, að ítala sé gerð, einnig um það bil 1/4 hluti af bændum í tilteknu sveitarfélagi eða ákveðnum hluta sveitarfélags, ef afmarkað er. Þannig er það í höndum heimaaðilanna sjálfra að hafa frumkvæði í þessu efni, og ég hygg, að svo muni bezt fara, að það verði áfram.

Það kom fram hér hjá hv. 1. þm. Austf., að þessi mál hafa nú verið mjög rædd að frumkvæði þeirrar n., sem hann nefndi og hann er formaður fyrir. Og hygg ég, að óhætt sé að segja, að n. sem heild og einstakir nm. hafi orðið varir þess mjög mikla áhuga, sem ríkir hjá bændum um allt land í þessum efnum, og að þeir eru reiðubúnir að hafa sjálfir frumkvæði að því að sinna gróðurverndarmálum á þann hátt, að landið sé nýtt til beitar svo sem hagkvæmt er, fyrst og fremst fyrir landið sjálft, og fer það þá auðvitað saman við þeirra eigin hag. Þess vegna er það álit bænda um land allt, að þarna þurfi úrbætur að gera.

Ef einhver af þeim heimaaðilum, sem ég nefndi, óskar eftir því, að ítala sé gerð, þá er boðað til sveitarfundar um málið. Sé það samþykkt, gengur málið sína leið og ítalan er ákveðin. Verði það fellt á sveitarfundi, getur sá aðili, sem ítölu hefur krafizt, skotið málinu til gróðurverndarnefndar sýslunnar eða sýslunefndar, ef gróðurverndarnefnd er ekki til, en þær munu nú hafa verið settar á stofn í öllum héruðum landsins. Gróðurverndarnefnd tekur síðan um það ákvörðun, hvort ítala skuli gerð eða ekki, að fenginni umsögn landgræðslustjóra. Nú veljast yfirleitt þeir menn í gróðurverndarnefndir héraðanna, sem gerkunnugastir eru þessum málum, og yfirleitt eru það menn, sem hafa áhuga á því, að jákvæðar aðgerðir séu gerðar til verndar landinu, þannig að það sé ekki ofnýtt. Það eru þess vegna þessir menn, sem bezt vita, hvort ástæða er til að beita ítölu eða ekki, og taka sínar ákvarðanir, eins og gert er ráð fyrir í l., í samræmi við ábendingar landgræðslustjóra eða fulltrúa hans.

Í frv. er þessu öfugt farið. Þar er gert ráð fyrir að stofna embætti nýs gróðurverndarfulltrúa, sem landbrh. skipar til þriggja ára í senn. Þessi gróðurverndarfulltrúi á að hafa frumkvæði um það, að ítala sé gerð, og framhald málsins er að mínu mati óþarflega flókið miðað við það, sem frv. gerir ráð fyrir. Þessi efni hygg ég, að ástæða sé til að skoða nánar við meðferð þessa máls. Í landnýtingarnefndinni, sem hv. 1. þm. Austf. er formaður fyrir, höfum við m.a. rætt það, hvort ástæða væri til þess, að Búnaðarfélag Íslands fengi til þess sérstakan mann að gegna ráðunautarstörfum í beitarmálefnum. Um það hefur engin ákvörðun verið tekin í n., hvort hún leggur till. fram um slíkt. En hvort sem það verður eða ekki, þá er líklegt, að Búnaðarfélagið gefi þessu meiri gaum hér eftir en hingað til.

Í grg. frv. segir, að ítala hafi hvergi verið gerð og það sé bersýnilega af þeim sökum, að annaðhvort sé ekki áhugi fyrir ítölu eða l. séu svo slæm, að það hafi ekki verið talið fært. Þetta er nú ekki að fullu rétt. Í einstökum upprekstrarfélögum hefur ítala verið reynd, og þar sem hún hefur verið reynd, hygg ég, að hún hafi verið talin gefast vel. (Gripið fram í: Hvar hefur hún verið reynd?) hún hefur verið framkvæmd t.d. í Rangárþingi.

Um viðurlög gegn brotum á ítölu er það að segja, að sú leið, sem flm. velur í frv., er að mínu mati mjög til bóta. Hins vegar er það svo, að ítala hefur sums staðar ekki verið reynd, þar sem hún hefur verið talin æskileg, vegna þess að menn hafa óttazt, að ekki væri unnt að koma í veg fyrir, að ákvæðin yrðu brotin. Og það er ákaflega erfitt að fylgjast með því, hvort ákvæðin séu haldin eða ekki. Við vitum, að afréttarpeningur fer sjálfkrafa til afréttar og hann fer sjálfkrafa heim, þegar líða tekur á sumar, enda þótt girðingar séu sæmilegar. Af þessum sökum er ákaflega erfitt að átta sig á því, hvort ákvæðin séu haldin eða ekki. En ég hygg þó, að þrátt fyrir þá annmarka mætti með góðum árangri koma við ítölu víðar en reynt hefur verið.

Eitt í þessu frv. álít ég líka til bóta og þar á ég við, að talað er um að mynda ákveðin beitarhólf fyrir hrossin. Á sumum landssvæðum virðist hrossabeit ekki verða til þess að ofbjóða landinu, en gangi þau vítt og breitt um afréttina, eru önnur svæði, sem þau leggjast sérstaklega á og eru viðkvæm fyrir nagi hrossanna, og er ábyggilegt, að þau eiga þar stóran þátt í því, að landið gengur úr sér. Ef þannig væri að verki staðið að koma upp ákveðnum hólfum, þar sem bezt hagar til hrossabeitar, væri einnig með því móti hægt að veita þeim bændum, sem t.d. eiga einungis hross og kýr, en ekkert sauðfé, nokkurn rétt til þess að hafa sinn afréttarpening á afmörkuðum svæðum. Í því væri nokkur sanngirni, miðað við það, að ef ætti að banna alla beit hrossa á afréttarlönd, þá er ekki hægt að líta fram hjá því, að þessir menn eru sviptir réttindum, sem þeir hafa átt og þeirra jörðum fylgja.

Ég sé nú ekki ástæðu til þess að hafa um þetta fleiri orð. Frv. fer til þeirrar n., sem ég á sæti í, og ég hef ekki haft tíma til þess að kynna mér nægilega, hvað það er mikið breytt frá frv. flm. á síðasta ári. En ég endurtek, að ýmislegt í þessu frv. þykir mér ljóst, að sé til bóta, og ég mundi fella mig mjög við það, að þau ákvæði, sem samstaða reyndist um, að væru til hins betra, væru felld að þeirri uppbyggingu, sem kaflinn um ítölu í l. um afréttamálefni o.fl. felur í sér, og frv. yrði á þessu þingi afgreitt með þeim hætti.