13.02.1973
Sameinað þing: 43. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1895 í B-deild Alþingistíðinda. (1500)

158. mál, samningur Íslands við Efnahagsbandalag Evrópu og breytingar á stofnsamningi Fríverslunarsamtaka Evró

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Hinn 22. júli 1972 gerði ríkisstj. Íslands samning við EBE um viðskipti milli landanna. Samningurinn tekur hins vegar ekki gildi, fyrr en hann hefur verið fullgiltur á Alþingi. Við því mun almennt hafa verið búizt, að ríkisstj. legði fram till. um fullgildingu þessa samnings, þegar Alþ. kom saman á s.l. hausti. Þegar hún gerði það ekki og í ljós virtist komið, að hún hygðist ekki gera það að sinni, bar ég hinn 21. nóv. s.l. fram fsp. til hæstv. utanrrh. um, hvenær ríkisstj. hygðist leita heimildar Alþ. til að fullgilda samninginn. Ég var einn þeirra, sem áttu erfitt með að trúa því, að ríkisstj. gerði mjög mikilvægan viðskiptasamning við EBE, en hygðist síðan ekki láta hann taka gildi. Hæstv. utanrrh. svaraði því til, að ríkisstj. hefði enga ákvörðun tekið um málið.

Það hafði hins vegar spurzt, að ágreiningur væri innan ríkisstj. um það, hvort samninginn ætti að fullgilda, vegna fyrirvara, sem gerður hefði verið af hálfu beggja samningsaðila í sambandi við landhelgisdeiluna. Fyrirvari eða bókun EBE var á þá lund, að það áskildi sér rétt til að láta tollfríðindi fyrir sjávarafurðir ekki taka gildi, nema náðst hefðu samningar um fiskveiðiréttindi, sem talin væri viðunandi lausn fyrir aðildarríki EBE. Á sama hátt áskildi Ísland sér rétt til að taka ákvörðun um afhendingu fullgildingarskjala sinna með hliðsjón af því, hvort þessum fyrirvara EBE yrði beitt. Um það hefur hins vegar ekki verið nokkur ágreiningur og getur ekki verið, að samningurinn getur tekið gildi þrátt fyrir þessi ákvæði. Hann mundi fá gildi um tollfríðindi fyrir iðnaðarvörur og einnig tryggja áframhaldandi fríverzlun fyrir íslenzkar iðnaðarvörur í Bretlandi og Danmörku.

Ég benti á það í umr. í nóv. s.l. að ef einhver væri þeirrar skoðunar, að samningurinn gæti ekki tekið gildi vegna fyrirvaranna varðandi landhelgisdeiluna, væri það á algerum misskilningi byggt. Þeir fyrirvarar tækju einvörðungu til viðskipta með sjávarafurðir. Samningurinn mundi taka gildi varðandi viðskipti með iðnaðarvörur, er hann væri fullgildur.

Ég vona, að fsp. mín í haust og tillöguflutningur minn nú, er Alþ. kom saman aftur að loknu jólaleyfi, um, að Alþ. feli hæstv. ríkisstj. að fullgilda samninginn, eigi þátt í því, að ríkisstj. hefur nú tekið málið til meðferðar og flutt um það till. Á því verður þó að vekja athygli, að sá munur er á till. hæstv. ríkisstj. og till. minni, að í till. minni er gert ráð fyrir því, að Alþ. feli ríkisstj. að fullgilda samninginn, en í till. hæstv. ríkisstj. er gert ráð fyrir heimild til að fullgilda samninginn.

Ég vona, að hér sé ekki um raunverulegan efnismun að ræða. Engu að síður veldur orðalag hæstv. ríkisstj. hví, að beina verður þeirri ákveðnu fsp. til hæstv. ríkisstj., hvort hún muni ekki nota heimild Alþ. til að fullgilda samninginn fyrir 1. marz, ef Alþingi samþykkir till. hæstv. ríkisstj. Ég vek athygli á því, að til þess að ákvæði samningsins um tollalækkanir á iðnaðarvörum geti komið til framkvæmda 1. apríl n.k., verður samningurinn að hafa verið fullgiltur fyrir 1. marz.

Ummæli hæstv. viðskrh. um mál þetta í framsöguræðu hans hér áðan benda hins vegar eindregið til þess, að ríkisstj. hafi ekki enn tekið fullnaðarákvörðun í málinu. Það kom greinilega fram að mínum dómi í ræðu hæstv. viðskrh., að hann er því andvígur, að samningurinn verði fullgiltur fyrir 1. marz n.k. Orð hans voru að vísu því miður að mínum dómi ekki nægilega skýr. Ef hér er um rangtúlkun á ummælum hans að ræða, er sjálfsagt, að það verði leiðrétt. Engu að síður ber brýna nauðsyn til þess, að þeirri ákveðnu og skýru spurningu sé beint til hæstv. forsrh. eða hæstv. utanrrh., sem þá svaraði fyrir ríkisstj. í heild, hvort endanleg ákvörðun hafi verið tekin um það í hæstv. ríkisstj., að samningurinn verði fullgiltur fyrir 1. marz, ef Alþ. samþykkir till. hæstv. ríkisstj. um þetta efni. Það er nauðsynlegt, að úr því fáist skorið, hvort ummæli hæstv. viðskrh. hér áðan eru mælt fyrir hönd ríkisstj. sem heildar, hvort þau eru mælt fyrir hönd allra þm., sem ríkisstj. styðja, eða hvort hér er um að ræða einkaskoðun hæstv. ráðh. og hans flokks og þá e.t.v. einhverra annarra einstakra þm. í stjórnarflokkunum. Ég óska þess mjög eindregið, að annað hvort hæstv. forsrh. eða hæstv. utanrrh. taki skýrt til orða um það. hver er fyrirætlun ríkisstj. um þetta efni, ef till. hennar um heimild til að fullgilda samninginn yrði samþykkt.

Hæstv. ríkisstj. hefur því miður verið mjög svifasein í þessu máli. Ástæðan getur varla verið önnur en sú, að innan hennar hafi verið skiptar skoðanir um málið eða ríkisstj. í heild, hafi til skamms tíma verið andvíg því, að samningurinn gengi í gildi, að því er snertir iðnaðarvörur, þó að hún hafi undirritað hann á s.l. sumri.

Segja má, að engum þyrfti að koma á óvart, að ágreiningur hafi verið innan hæstv. ríkisstj. um þetta mál, þegar afstaða núv. stjórnarflokka til inngöngu Íslands í Fríverzlunarsamtök Evrópu, EFTA, er höfð í huga. Nú mun varla nokkrum Íslendingi blandast hugur um, að með inngöngu Íslands í EFTA var stigið hagkvæmt, rétt og mikilvægt spor í utanríkisviðskiptamálum og þar með efnahagsmálum Íslendinga. Aðildin að EFTA hefur þegar tryggt Íslendingum miklar hagsbætur, og á þó sú grundvallarstefna í utanríkisviðskiptamálum, sem þá var mörkuð, eftir að færa Íslendingum margfalt meiri hagsbætur á ókomnum árum. Á það má og minna, að hinn mikilvægi samningur við Efnahagsbandalagið, sem gerður hefur verið og er Íslendingum mjög hagkvæmur, hefði verið óhugsandi, ef Ísland hefði ekki gerzt aðili að EFTA á sínum tíma. En þrátt fyrir augljóst hagræði af aðild Íslands að EFTA reyndist samt aðeins einn af núv. stjórnarflokkum fylgjandi aðildinni, þ.e.a.s. SF. Alþb. var aðildinni algerlega andvígt, taldi hana ekki aðeins hafa litla þýðingu fyrir utanríkisviðskipti Íslendinga, heldur um ranga grundvallarstefnu í utanríkisviðskiptamálum að ræða, sem að sumu leyti jafngilti skerðingu á íslenzku sjálfstæði. Stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn þáv. og næststærsti flokkur landsins reyndist ekki hafa skoðun á málinu og sat hjá við atkvgr. um aðildina, þótt hér væri tvímælalaust um eitt mikilvægasta mál að ræða, sem Alþ. hefur fjallað nm á síðari árum.

Ef eitthvað hefði verið til í því, sem Alþb. sagði um EFTA-aðildina á sínum tíma og tekið var undir af hálfu þess hluta Framsfl., sem fékk því ráðið, að hann sat hjá við atkvgr., hefði mátt búast við því, að þessi öfl beittu sér fyrir úrsögn úr Fríverzlunarsamtökunum, þegar þau voru komin til valda. Sem betur fer voru engir tilburðir hafðir uppi í þá átt. Þvert á móti var haldið áfram á þeirri braut, sem áður hafði verið mörkuð, að gerður var samningur við hið stækkaða Efnahagsbandalag, og er hann í helztu grundvallaratriðum alveg eins og EFTA-samningurinn, sem gerður hafði verið áður og var fyrirmynd að hinum nýja samningi. En líklega hefur hinna afturhaldssömu, annarlegu sjónarmiða, sem réðu afstöðunni til EFTA-aðildarinnar á sínum tíma, haldið áfram að gæta eitthvað innan stuðningsflokka núv. ríkisstj. og þar hafi verið skýringin á því, hversu mikið hún hefur hikað í málinu og hversu sein hún hefur orðið til aðgerða. Allt þetta er þó aukaatriði, ef það reynist rétt, sem ég sannarlega vona, að ríkisstj. hafi ákveðið að fullgilda umræddan samning við Efnahagsbandalagið fyrir 1. marz n.k.

Því til rökstuðnings, að sjálfsagt sé að fullgilda samninginn, þannig að hann komi til framkvæmda að því er snertir iðnaðarvöru 1. apríl n.k., skal ég geta nokkurra meginatriða.

Enn er útflutningur iðnaðarvöru aðeins lítill hluti heildarútflutningsins. Þó getur varla verið um það ágreiningur, að áframhaldandi uppbygging útflutningsiðnaðar hefur grundvanarþýðingu fyrir þróun iðnaðar á Íslandi og þá um leið fyrir þjóðarbúskapinn í heild. En tómt mál er að tala um eflingu íslenzks útflutningsiðnaðar, nema tollfrjáls markaður skapist til útflutnings í löndum hins nýja Efnahagsbandalags, sem er stærsti markaður Evrópu. Það er beinlínis skilyrði fyrir aukningu íslenzks útflutningsiðnaðar, að hann hafi möguleika á því að selja vöru sína á tollfrjálsum markaði Efnahagsbandalagsins. Slík skilyrði mundu skapast, ef samningurinn væri fullgiltur nú. Þótt ákvæði samningsins um tollalækkanir á sjávarafurðum geti ekki komið til framkvæmda, fyrr en lausn hefur fengizt á landhelgismálinu, er engu að síður mjög mikilvægt fyrir Ísland að hafa ákvæði í samningi um þessi efni. Samningurinn tekur til um 70% heildarútflutningsverðmæta okkar til hins stækkaða Efnahagsbandalags. Eftir aðlögunartímabil 1. júní 1977 hafa íslenzkir útflytjendur skilyrði til þess að flytja tollfrjálst og án hindrana meginið af framleiðslu landsins til hins stækkaða Efnahagsbandalags og EFTA-landanna. Það ber að hafa í huga, að þessi samningur tekur til enn stærra hlutfalls af útflutningi okkar en EFTA-samningurinn og þessi fríðindi ná út til stærri markaðar en EFTA-svæðisins. Um 20% af útflutningi Íslands til hins stækkaða bandalags yrðu algerlega tollfrjáls. Til viðbótar þessu kæmu síðar nýir útflutningsmöguleikar, þar sem um tollfrjálsan útflutning væri að ræða.

Gert er ráð fyrir því, að Efnahagsbandalagið afnemi tolla frá Íslandi í fimm áföngum frá 1. apríl 1973 til 1. júlí 1977, nema að því er varðar ál, þar verður tollur ekki felldur niður fyrr en 1. jan. 1980. Gert er ráð fyrir, að tollalækkun á ísfiski nemi um 75%, þ.e.a.s. á þorski, ýsu og ufsa úr 15% í 3.7% og karfa úr 8% í 2%. Enn fremur eru ákvæði um lækkun tolla á heilfrystum fiski um 75%. Tollur á kavíar, niðursoðnum hrognum, rækjum og humri verður afnuminn að fullu, en lækkaður á niðursoðinni og niðurlagðri síld úr 20% í 10%.

Á móti þessum tollalækkunum eiga Íslendingar að fella niður verndartolla á innflutningi frá bandalagslöndunum á sömu vörum og samkv. sams konar tímaáætlun og er í gildi gagnvart EFTA-löndunum. Ástæða er ekki til þess að ætla, að íslenzkum iðnaði stafi meiri hætta af samkeppni frá Efnahagsbandalagslöndunum en frá EFTA-löndunum. En reynslan hefur þegar sýnt, að sá ótti, sem ýmsir báru í brjósti varðandi samkeppnishæfni íslenzks iðnaðar við iðnaðarvörur frá EFTA-löndunum, var ástæðulaus. Fyrsta tollalækkunin, 30%, yrði 1. apríl 1973, hliðstæð þeirri, sem gerð var gagnvart innflutningi frá EFTA-löndunum 1. marz 1970. Síðan eiga þessir tollar að lækka um 10% árlega frá 1. jan. 1974 og verða þannig að fullu felldir niður 1. jan. 1980. Fjáröflunartollum þarf ekki að breyta, en þeir eru innheimtir af um það bil 70–75% af heildarinnflutningnum.

Þá er þess og að geta, að þessi samningur tekur ekki til landbúnaðarafurða. Þess vegna er ekki um að ræða neinar skuldbindingar um að leyfa innflutning á landbúnaðarafurðum, sem við framleiðum sjálfir. Ekki tókst að fá viðskiptafríðindi fyrir íslenzkt kindakjöt í hinu stækkaða Efnahagsbandalagi, eins og tókst að því er snertir Norðurlöndin í EFTA-samningunnm. En þar eð Norðmenn hafa ekki gerzt aðilar að Efnahagsbandalaginu, verða þó ekki breytingar á útflutningsskilyrðum okkar á kindakjöti til Noregs.

Um samninginn í heild er það að segja, að hann er ekki aðeins mjög hagstæður fyrir helztu atvinnugreinar okkar, heldur varðveitir hann viðskiptatengsl okkar við þær þjóðir, sem við höfum átt meginviðskipti við um langan aldur. Hann styrkir almenn tengsl okkar við Vestur-Evrópu. En það hefur grundvallarþýðingu, ekki aðeins frá viðskiptasjónarmiði, heldur einnig frá menningar- og stjórnmálasjónarmiði, að koma í veg fyrir, að Ísland einangrist frá Evrópu. Það hefur grundvallarþýðingu í utanríkisviðskiptamálum og utanríkismálum yfir höfuð að tala, að náin og góð samvinna haldist við Evrópuríki á öllum sviðum.

Ég vil að síðustu ítreka þá fsp. mína til hæstv. ríkisstj. í heild, til hæstv. forsrh. eða hæstv. utanrrh., hvort hún hafi þegar tekið ákvörðun um að fullgilda þennan samning fyrir 1. marz n.k., ef Alþingi samþykkir till. hennar, og fá þar með úr því skorið, hvort hæstv. viðskrh. — hafi ég skilið orð hans rétt áðan — hafi talað fyrir hönd allrar ríkisstj. og þar með fyrir hönd allra stuðningsmanna hæstv. ríkisstj. á Alþ. Undir því mun afstaða okkar Alþfl: manna til till. hæstv. ríkisstj. verða komin.