13.02.1973
Sameinað þing: 44. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1916 í B-deild Alþingistíðinda. (1508)

117. mál, notkun svartolíu í togaraflota

Bjarni Guðnason:

Herra forseti. Ég vil aðeins blanda mér inn í þessar umr. til þess að benda á það, að hér er um stórmál að ræða. Það hefur verið gerð könnun á notkun svartolíu í ákveðnu fiskiskipi, í Narfa, nú um nokkurra mánaða skeið, og reynsla hefur verið með ágætum. Það hefur sýnt, að þarna er um mikinn sparnað að ræða, og nýlega hefur verið gerð könnun á því, að þessi svartolía hefur ekki valdið sliti á vélum skipsins. Mér sýnist satt að segja, að hér sé um það að ræða að vinna fyrst og fremst bug á vissum tregðuöflum, sem vegna e.t.v. hagsmuna standa gegn þessari nýjung. Ég vil ekki vera með dylgjur í eina eða aðra átt, en það segir sig sjálft, að alltaf, þegar um nýjungar er að ræða, eru menn tregir að bregðast vel við. Ef reynist unnt að spara togaraflotanum í rekstrarkostnað e.t.v. 100 millj. kr. á ári, er það ekki svo lítil upphæð, og ég vil því eindregið taka undir það, sem hæstv. sjútvrh. sagði, að nauðsynlegt sé að halda þessum rannsóknum áfram og fá til þess rétta aðila, sem eru utan við þrengstu hagsmunahópana. Jafnvel þó að árangurinn yrði neikvæður, má einskis láta ófreistað til að komast að niðurstöðum um hið rétta í þessu máli. Hér er um stórmerkilegt mál að ræða, og ég treysti því, að hæstv. sjútvrh. leiði þetta mál til lykta á þann hátt að fá fagmenn til að kanna, hvort svartolía geti í raun og veru sparað togaraflotanum og þjóðarbúinu 100 millj. kr. á ári eða svo.