14.02.1973
Efri deild: 58. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1916 í B-deild Alþingistíðinda. (1509)

160. mál, löndun loðnu til bræðslu

Sjútvrh. (Lúðvík Jósepsson):

Herra forseti. Frv. þetta gerir ráð fyrir smábreytingu á nýsettum lögum um skipulag á löndun á loðnu til bræðslu. Með frv. er farið fram á, að bætt verði við lögin ákvæði um að stofna sérstakan flutningasjóð í sambandi við loðnulöndunina, og er þar gert ráð fyrir því, að kaupendur loðnu greiði í þennan sérstaka flutningasjóð 16 aura á hvert kg af landaðri loðnu til viðbótar því lágmarksverði, er Verðlagsráð sjávarútvegsins hefur þegar ákveðið og tilkynnt. Síðan er gert ráð fyrir því, að loðnulöndunarnefndin, sú n., sem á að hafa með höndum stjórn á loðnulöndun, stjórni þessum flutningasjóði og setji reglur um greiðslur úr sjóðnum.

Lagt er til að gera þessa breytingu á lögunum, eins og fram kemur í grg. frv., samkvæmt sérstakri ósk frá yfirnefnd Verðlagsráðs sjávarútvegsins eða þeim aðilum, sem stóðu að því að koma sér saman um verð á loðnu á yfirstandandi vertíð, en þegar þessi verðákvörðun var tekin í síðara skiptið, varð algjört samkomulag í yfirnefndinni á milli seljenda og kaupenda um verðið og um þann grundvöll, sem hér er lagt til, að lögfestur verði varðandi loðnuflutningasjóð. Hér er því nánast um samkomulagsatriði á milli þeirra aðila að ræða, sem hér eiga hlut að máli, og þykir rétt að lögfesta þetta samkomulag af ýmsum ástæðum. Málið skýrir sig sjálft, og ég sé ekki ástæðu til að hafa um það fleiri orð.

Ég legg til, herra forseti, að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til sjútvn.