14.02.1973
Neðri deild: 52. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1931 í B-deild Alþingistíðinda. (1517)

Umræður utan dagskrár

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Ég skal ekki blanda mér í þær deilur, sem hér hafa upphafizt utan dagskrár, nema það sem ég blandaðist lítið inn í þær, vegna þess að ég leyfði mér að grípa fram í ræðu hæstv. viðskrh. áðan, þar sem ég sagði, að það væru margar setningar í ræðu hans frá því í gær, sem með engu móti yrðu eftir venjulegri málvenju skildar öðruvísi en þannig, að skoðun hans væri sú, að það lægi ekkert á að fullgilda viðskiptasamninginn við Efnahagsbandalagið. (Gripið fram í.) Hæstv. forsrh. sagði áðan, að samningurinn yrði fullgiltur. Það er ekki það, sem spurningin er um. Spurningin er: Verður hann fullgiltur fyrir mánaðamótin? Og ég vænti þess, að hæstv. forsrh. svari þeirri spurningu. Það þýðir líklega ekki að beina slíkri spurningu til hæstv. viðskrh., enda veit ég ekki til þess, að hann eigi að fullgilda þennan samning. En Lúðvík sterki kom hér upp í stólinn og sagði: Ég hika ekki við að draga að fullgilda samninginn. — Er það viðskrh. eða er það utanrrh., sem á að fullgilda samninginn? Við mættum kannske fá úr þessu skorið? En hæstv. viðskrh. segist ekki hika við að draga að fullgilda samninginn og fullgilda hann, þegar honum sýnist. Þetta er alveg í samræmi við það, sem fram kom í gær. Hann var að tala um, að það væri mjög auðvelt fyrir okkur að draga fullgildinguna fram í nóv. Ég vissi ekki, hvað hæstv. ráðh. átti þá við. Það geta verið einhver ákvæði í samningnum eða viðræðum, sem fram hafa farið á milli manna, sem að samningsgerðinni stóðu. En þetta var eitt af því, sem gaf tilefni til þess að ráða af ræðu hæstv. ráðh. þá, að hann vildi ekki fullgilda samninginn fyrir mánaðamótin. Nú hefur hæstv. forsrh. sagt aðspurður, að samningurinn verði að sjálfsögðu fullgiltur, en þá er bara eftir að svara þeirri spurningu: Verður hann fullgiltur fyrir mánaðamótin næstu? Það er það, sem við viljum fá úr skorið undir meðferð þess máls. Eins og hæstv. forsrh. svaraði þessu um fullgildinguna áðan almennt þá vænti ég, að hann geti svarað því jafnhiklaust nú, hvort samningurinn verður fullgiltur fyrir mánaðamótin, eins og nauðsynlegt er, til þess að veigamikil ákvæði hans komist strax til framkvæmda, jafnvel þó að önnur ákvæði frestuðust eitthvað, sem við vitum þó ekkert um. Nú er að sjá, hvor er sterkari í ríkisstj., hæstv forsrh. eða hæstv. viðskrh.

Um kaupgreiðsluvísitöluna, sem hér hefur verið deilt nokkuð um, ætla ég að ræða undir þeim dagskrárlið á fundinum hér á eftir, þegar hann kemur á dagskrá.

Ég vil nota þetta tækifæri til þess að upplýsa það fyrir þingheimi, að við höfum gert ráð fyrir því í samkomulagi við stjórnarflokkana eða hæstv. forsrh., að vantrauststill. sú, sem við sjálfstæðismenn bárum fram fyrir jólin á hæstv. ríkisstj., og till. um þingrof og kosningar kæmi ekki til umr. fyrir en eftir jólafríið, ef ég má kalla það svo, vegna þess að það lá mikið á að afgreiða fjárl. á síðustu dögunum fyrir jól. Um þetta varð samkomulag. Hins vegar var það svo, að þegar þingið kom saman, hafði það gerzt á þriðjudegi í þeirri viku, sem þingið kom saman á fimmtudegi, að jarðeldar voru uppi á Heimaey, og hæstv. forsrh. kvaddi okkur til samráðs við sig eða viðræðna við sig, mig og formann Alþfl., á þriðjudegi 23. jan., og þá hreyfði ég því að fyrra bragði við hæstv. forsrh., að ég teldi eðlilegt og rétt, eins og á stæði, að láta ákvörðun um það, hvenær vantraustið yrði tekið á dagskrá, bíða, meðan við sæjum, hvernig rættist úr þeim hamförum, sem þá voru hafnar, og meðan við værum að afgreiða þau mál, sem voru okkar helzta viðfangsefni á næstunni, eins og öllum er kunnugt. Nú stendur þannig á, að við þm. erum að fara á Norðurlandaráðsfund á morgun, sumir þegar farnir, og það tekur vikutíma, komum aftur um miðja næstu viku, og þá tel ég rétt, að það yrði ákveðið upp úr því, hvenær vantrauststill. kæmi á dagskrá. Annað skal ég ekki um það segja. En ég tel rétt, að það fari ekki á milli mála, að þannig standa málin varðandi það, að vantraustið hefur ekki verið tekið á dagskrá og hvenær ég tel eðlilegt að taka það á dagskrá. Það þarf svo ekki að fjölyrða um, að hafi verið ástæða til að flytja vantraustið fyrir jól, þá er miklu ríkari ástæða til þess nú. En það er annað mál, og við geymum það til síðari umr.

Þar sem nokkrar umr. hafa orðið um það, hversu föst eða völt hæstv. ríkisstj. sé í sessi, þá mætti ég kannske góðlátlega spyrja hæstv. forsrh., hvort nokkuð sé til í því, sem fer nú fjöllunum hærra í hænum, að hæstv. forsrh. hafi haft í huga sunnudaginn 28. jan. að rjúfa jafnvel þing og efna til kosninga og e.t.v. talfært það einnig við forseta Íslands? Það gæti verið nokkur upplýsing í því, ef hæstv. forsrh. treystir sér til þess að staðfesta eða hrekja þessar sögusagnir. En ástæðan fyrir því mun hafa verið sú, að verulegur ágreiningur væri innan ríkisstj.