14.02.1973
Neðri deild: 52. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1936 í B-deild Alþingistíðinda. (1522)

Umræður utan dagskrár

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. Þetta svar hæstv. forsrh. er alls ekki nægjanlegt. Ef við ætlum að njóta tollfríðindanna, sem samningurinn býður, 1. apríl, þarf að löggilda samninginn fyrir 1. marz. Það er rétt, sem hæstv. viðskrh. sagði hér í gær, við töpum ekki réttinum til þess að geta lögfest samninginn, þótt við drögum það fram í nóv. í haust. En það eru síðustu forvöð. En íslenzkur útflutningsiðnaður nýtur ekki þeirra réttinda, sem honum eru boðin, frá 1. apríl, ef löggildingunni verður frestað fram í nóv. Og það er þetta, sem er spurt um nú: Ætlar ríkisstj. að gera ráðstafanir til þess, að útflutningsatvinnuvegirnir geti notið þeirra réttinda, sem þessi ágæti samningur býður, frá 1. apríl, eða ætlar ríkisstj. að loka augunum og stuðla að því, að útflutningsatvinnuvegirnir tapi þeim hagnaði, sem boðinn er? Það er rétt, að það er fyrirvari í samningnum um sjávarafurðir, þó ekki allar sjávarafurðir. Efnahagsbandalagið hefur áskilið sér rétt til þess að fresta tollívilnunum á sjávarafurðum, á meðan ekki hefur fengizt sæmileg lausn á landhelgisdeilunni frá sjónarmiði þess. Hins vegar er ekki víst, að Efnahagsbandalagsríkin noti þennan fyrirvara, þótt hann sé fyrir hendi. Það gæti alveg eins farið svo, að við fengjum strax tollívilnun á sjávarafurðum þrátt fyrir fyrirvarann.

Það er ekki nóg, þótt hæstv. forsrh. lýsi því hér yfir, að ríkisstj. muni á tilskildum tíma löggilda samninginn. Það er í rauninni ekkert svar. Það er ekki heldur fullnægjandi svar, þótt hæstv. forsrh. segi: Það er skoðun mín, að það eigi að lögfesta samninginn fyrir 1. marz, — ef ekki er samkomulag um það í ríkisstj. og vilji annarra ráðh., sem vilja fresta löggildingunni, verður ráðandi. Það er þetta, sem spurt er um: Ætlar ríkisstj. að koma sér saman um að lögfesta samninginn fyrir 1. marz, eða ætlar hæstv. forsrh. að láta í minni pokann og láta aðra ráðh., sem eru áhrifameiri, ráða því, að löggildingunni verði frestað til 1. nóv. Íslenzkur iðnaður og íslenzkir hagsmunir geta vissulega liðið fyrir það, ef löggildingunni verður frestað fram á haust.