14.02.1973
Neðri deild: 52. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1937 í B-deild Alþingistíðinda. (1523)

Umræður utan dagskrár

Eyjólfur K. Jónsson:

Herra forseti. Ég get ekki orða bundizt vegna þeirrar framkomu hæstv. forsrh. að færast undan að svara með þeim hætti, sem hann hefur nú gert. Ég var áheyrandi að því hér í fyrrahaust, að hann lék sama leikinn. Það var upp kominn mjög alvarlegur ágreiningur í hæstv. ríkisstj. varðandi varnarmálin. Einn ráðh. sagði já, þegar annar sagði nei. Við þekkjum allir þennan ágreining. Þá lék hæstv. forsrh. þennan sama leik, hann hvorki sagði já né nei, og það varð að ganga á hann á þingfundum fram eftir öllum vetri, þar til hann loksins tók af skarið og fylgdi utanrrh. sínum gegn skoðunum kommúnista í ríkisstj.

Þessar umr. hér voru hafnar með því að ræða ýmiss konar ágreining í ríkisstj. Hv. 7. þm. Reykv. vék að nokkrum atriðum. Við vitum, að þau eru ótal mörg fleiri, þ. á m. varðandi varnarmálin, sem ég vék að áðan. Kommúnistar halda því fram, að málefnasamninginn beri að skýra svo, að varnarliðið eigi að fara af landi brott undir öllum kringumstæðum. Utanrrh. og svo síðar forsrh, einnig standa við þá yfirlýsingu, að það mál hafi ekki verið útkljáð og verði fyrst ákveðið, þegar endurskoðun málsins hefur farið fram. Við munum eftir flugbrautarmálinu sællar minningar. Kommúnistar gleyptu það, gerðu bókun, lýstu yfir, að utanríkisstefna Íslendinga gæti ekki verið sjálfstæð eftir þá ákvörðun. Það var vissulega mjög mikill ágreiningur í ríkisstj. og er enn. Og í sjálfum málefnasamningnum er lýst yfir, að það sé grundvallarágreiningur um afstöðuna til Atlantshafsbandalagsins. Við þekkjum það líka öll.

Og hvað svo með landhelgismálið? Nú gerist það fyrir fáum dögum, að hæstv. utanrrh. kemur í fjölmiðla og lýsir yfir, að hann sé furðu lostinn yfir því, að Alþjóðadómstóllinn skuli telja sig hafa lögsögu í landhelgismálinu. Nokkrum dögum síðar kemur hæstv. forsrh. í þetta ræðupúlt hér og segir, að enginn heilvita maður hefði getað farið í neinar grafgötur um, að dómurinn mundi falla á þann veg, sem hann gerði. Hvað er hér á ferðinni? Talast þeir ekki við, hæstv. utanrrh. og hæstv. forsrh.? Á maður að skilja það svo, að hæstv. utanrrh. ráðgist ekki við forsrh. um mikilvægustu þætti utanríkismála og það sjálfs landhelgismálsins? Og þó er hæstv. forsrh., eins og alþjóð veit, prófessor í lögum. Þessi vinnubrögð eru orðin með þeim hætti, að þjóðin öll stendur agndofa. Það er sama, hvenær þessi ríkisstj. á um tvo kosti að velja, ef annar er réttur og hinn rangur, þá velur hún þann ranga. Það er engin furða, þótt hv. 7. þm. Reykv. veki máls á þessu hér á Alþ.

Og í þessum umr. kemur fram grundvallarágreiningur á milli tveggja ráðh. Hæstv forsrh. er drengskaparmaður, það vitum við öll. Hann segir hér orðrétt: Ég tel ekki réttmætt að eigna embættismönnum frv., þ.e. fyrsta frv., sem samið var, og hann bætir við, að í ríkisstj. hafi verið ræddar þær hugmyndir, sem embættismennirnir áttu að vinna eftir, og segir orðrétt: Á grundvelli þeirra hugmynda og í nánara samráði við mig var frv. samið. — En hæstv. sjútvrh. kemur hér enn einu sinni og segir, að þetta hafi verið vinnuplagg embættismannanna. Þó að forsrh. sé búinn að lýsa því hér yfir, að hann taki á sig alla ábyrgð á framlagningu þessa frv. og efni þess og hún sé á ábyrgð ríkisstj., þá kemur þessi hæstv. ráðh. hér upp í pontuna og heldur fram sama ósannindavaðlinum sem hann er alþekkur að. Og hann margtekur fram: Enginn ágreiningur í ríkisstj., slúðursögur. — Svo segir hann, að Morgunblaðið hafi farið með rangt mál, er það birti efni þessa frv., og bætir við: Þar var um trúnaðarbrot að ræða. — Ég get sagt þessum hæstv. ráðh. það, að Morgunblaðið vissi fullvel um efni frv., löngu áður en formaður Sjálfstfl. fékk það í hendur, og við fengum engar upplýsingar frá honum. Við höfum getað fylgzt með gerðum þessarar ríkisstj. frá þeirra eigin mönnum. Heilindin eru nú ekki meiri en svo. Við gátum í des. frá degi til dags skýrt frá öllu, sem gerðist í stjórnarherbúðunum. Það var aðeins einn dag, á sunnudegi, að við gátum ekki skýrt frá því, sem gerðist síðdegis daginn áður í ríkisstj., af því að blaðið fór svo snemma í prentun. Og trúnaðarbrot var þetta ekki. En svo segir þessi hæstv. ráðh.: Þjóðviljinn birti hitt frv. Var það þá ekki trúnaðarbrot?

Ég skal ekki tefja þessar umr., en mér ofbýður svo —- og það ofbýður svo öllum landslýð — framferði þessarar ríkisstj., að það er vissulega tími til þess kominn, að hún fari að gera hreint fyrir sínum dyrum. Sérstaklega væri ástæða til þess fyrir forsrh. að fara að átta sig á stöðu sinni og reyna að skera úr málum og láta þjóðina vita, hvar menn standa, en ekki að segja alltaf já já og nei nei.