14.02.1973
Neðri deild: 52. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1950 í B-deild Alþingistíðinda. (1526)

159. mál, kaupgreiðsluvísitala

Fjmrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Ég skal ekki fara að fara út í almennar umr. í sambandi við þetta mál, þó að ýmislegt, sem fram hefur komið hér á hv. Alþ. í dag, hafi gefið tilefni til þess.

Út af því, sem hv. 1. þm. Reykv. sagði, að heildarskipulag í efnahagsmálum hefði verið einkenni viðreisnarstjórnarinnar og væri það öðruvísi en nú, vil ég segja það, að ef hann bara kynnti sér árið 1968 þar um, þá mundi hann sannfærast um annað. Ég hefði getað lesið upp fyrir honum aðgerðir næstum því mánaðarlega það ár og mundi finna frá fleiri árum aðgerðir í efnahagsmálum hjá þeirri ágætu stjórn, viðreisnarstjórniunni, sem núv. stjórn hefur þó ekki farið inn á, svo að fordæmi eru nú til um ýmsar breytingar hér að lútandi. Ég vildi líka vona, að þegar núv. stjórn færi inn á þau mál, sem fyrrv. ríkisstj. taldi réttmæt, þá standi ekki á þeim, sem hana studdu, til stuðnings við málin, Kannske er þetta tilraun til að fá úr því skorið, hvort svo er eða ekki.

Það er rétt, að um það fara fram umr. og að því verður unnið að taka vísitölukerfið til heildarendurskoðunar á þessu ári. Og það er miðað við það, að sú heildarendurskoðun geti átt sér stað, áður en næstu kjarasamningar verða gerðir. Þess vegna er þetta frv. miðað við það eitt, að þangað til sú endurskoðun hafi farið fram, verði gerðar þær ráðstafanir, sem hér eru til umr.

Í sambandi við það, hvort haft hefur verið samráð við alþýðusamtökin um þetta mál, vil ég vitna til þess, sem hér hefur komið fram áður, að á þeirri ráðstefnu, sem Alþýðusambandið boðaði til 12. jan. s.l., voru þessi tvö atriði m.a. lögð fyrir þá ráðstefnu. Ég vil — með leyfi hæstv. forseta — lesa upp það úr ályktuninni, sem þessi mál varðar sérstaklega. í fyrsta lagi, varðandi bætta þjónustu tryggingakerfisins, segir svo:

„Ráðstefnan lýsir fylgi sínu við þær hugmyndir, að tannlæknaþjónusta verði að meira eða minna leyti greidd af sjúkrasamlögum, og telur, að í slíkri ráðstöfun felist veruleg hagsbót, sérstaklega fyrir láglaunafólk og barnmargar fjölskyldur.“

Það, sem stefnt er að með 1. gr. þessa frv., er að fara inn á þetta atriði, sem þarna er lagt til. Og það er skemmst frá því að segja, að með breytingu á skólakostnaðarlögunum, sem mig minnir, að hafi verið gerð 1968, var horfið frá því, að ríkissjóður greiddi hálfan kostnað við tannviðgerðir í barnaskólum. Áður hafði það verið þannig, að í þeim sveitarfélögum, sem höfðu staðið að því að taka þátt í kostnaði við tannviðgerðir í barnaskólum, var að hálfu leyti greitt af sveitarfélaginu og að hálfu leyti af ríkissjóði. Þessu var hins vegar breytt með breytingu á skólakostnaðarl. Þetta var einn af þeim þáttum, sem þá voru færðir til sveitarfélaganna. Með þeirri breytingu, sem nú er stefnt að með þessu frv., ef það verður að lögum, er gert ráð fyrir að taka einmitt þetta upp á nýjan leik. Og fleiri atriði eru í því máli, sem hafa ekki enn fengið fullnaðarafgreiðslu.

Um hinn þáttinn í málinu, um áfengi og tóbak, má að sjálfsögðu deila. Það er alveg rétt, sem komið hefur fram hér í umr. og hefur komið fram í umr, áður, að þetta er þáttur í vísitölukerfinu, og að því leyti er þetta breyting. Hins vegar er nú leitað eftir því, hvort vilji er fyrir því á Alþ. að breyta þessu núna eða hvort Alþ. fellst á að vinna að lausn þess máls í sambandi við kjarasamninga eða breytingu á vísitölukerfinu. Það er misskilningur hjá hv. 1. þm. Reykv., að þessi breyting, sem lögð er til í þessu frv., gefi ríkissjóði 420 millj, kr. Það eru tekjurnar af hækkun á áfengi og tóbaki, sem gert er ráð fyrir, að gefi þessar tekjur. Hins vegar geri ég ráð fyrir því, að þetta snerti ekki ríkissjóð að öðru leyti en því, sem hann verður að greiða þessi stig í kaupgjaldi. En auðvitað verður þetta látið ganga út í verðlagið, en ekki mætt með auknum niðurgreiðslum, það er alveg ljóst. Hér er ekki um það að ræða, heldur bara um það, hvort þessi tekjuöflun á að ganga inn í vísitöluna eða ekki þessa mánuði, meðan samningar fara fram um heildarendurskoðun á vísitölunni. Ef það verður niðurstaða Alþ., að það skuli gerast, þá gerist það, þá gengur þetta út í verðlagið, en verður ekki mætt með niðurgreiðslu. Það er ljóst, og þarf ekki um það að ræða. Ef það hins vegar verður ofan á, að þessari greiðslu verði frestað, meðan þetta mál fer til frekari athugunar, þá gerist það. Þetta var eitt af þeim atriðum, sem ríkisstj. lagði fyrir ráðstefnu Alþýðusambandsins 12. jan., og um það sagði ráðstefnan þetta, með leyfi hæstv. forseta:

„Varðandi niðurfellingu vísitölustiga vegna hækkunar verðs á áfengi og tóbaki, telur ráðstefnan vera um mál að ræða, sem íhuga beri og endurskoða við gerð kjarasamninga, sem fram eiga að fara síðar á árinu, en telur sig skorta umboð til að fallast á eða mæla með lagasetningu, sem fæli í sér beina niðurfellingu á umsömdum greiðslum verðlagsbóta á samningstímanum.“

Þetta var sú ályktun, sem ráðstefna Alþýðusambandsins gerði þar um, og ég skil hana ekki á þann veg, að hún hafi talið, að það væri neitt ódæði að leggja málið fyrir Alþ., þó að hún teldi sig hvorki hafa umráð til að samþykkja það né mæla með því. En það verður svo að sýna sig í meðförum hér á hv. Alþ., hvort þetta nær fram að ganga eða ekki. En það vona ég, að verði þó alltaf árangur af þessu máli hér á hv. Alþ., að gengið verði með fullkominni festu í að endurskoða vísitölukerfið frá því, sem nú er.

Það er nauðsynlegt, að hv. þm. geri sér grein fyrir því, að tekjuöflun ríkissjóðs er með þeim hætti, að beinu skattarnir eru eina tekjuöflunin, sem hægt er að ná til, án þess að það fari út í verðlagið. Meðan svo er, verður ekki, hvorki fyrir núv. fjmrh, sé aðra, hægt að móta ákveðna stefnu í tekjuöflun ríkissjóðs, vegna þessa ákvæðis. Vona ég, að hv. þm. geri sér grein fyrir þessu, og reyndar hefur það komið fram í þessum umr., að menn virðast hafa vilja til þess, og ég vona, að sá vilji sýni sig í verki. Það verður svo að vera á valdi þeirra, hvort þeir gefa þann frest, sem hér er um að ræða, í þessu máli, meðan það er í athugun, eða ekki. Það er í raun og veru það, sem ríkisstj. er að leita eftir hér á hv. Alþ., og til þess sem sagt að auka umr. um þessi mál og ganga í það af fullum krafti, að þessi endurskoðun fari fram.

Ég skal svo ekki tímans vegna fara út í fleiri atriði nú.