26.10.1972
Sameinað þing: 8. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 367 í B-deild Alþingistíðinda. (153)

Umræður utand dagskrár

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Aðeins örfá orð. — Ég er alveg sammála því, að ekki er rétt að ræða efnisinnihald ummæla hæstv. forsrh. í gær að honum fjarstöddum. Ég vissi það ekki fyrr en í þingfundarbyrjun, að hann mundi ekki verða hér viðstaddur í dag, og þess vegna beindi ég engri fsp. til hans. Minar fsp, voru til þeirra samráðh. hans, sem hér væru viðstaddir, um það, hvort þeim hefði verið kunnugt um, að von væri á þessari yfirlýsingu, og þó sérstaklega, hvort þeir væru þeirri stefnumótun, sem í ummælum hans fólst, sammála eða ekki.

Hæstv. viðskrh. fór því miður ekki rétt með það, hvaða spurningum ég beindi til hans. Aldrei þessu vant hafði ég nú orð mín skrifuð, það gerði ég viljandi til þess að vera öruggur um, að ég gæti orðið sem allra stuttorðastur, — ég spurði: Eru ummælí hæstv. forsrh. í gær frásögn af umr. í ríkisstj.? Þessu svaraði hæstv. ráðh. neitandi, og met ég það. Enn fremur spurði ég: Eða bera persónuleg ummæli hans vott um ágreining í ríkisstj? Því svaraði hann einnig neitandi, og þakka ég það líka. En ég spurði þriðju spurningarinnar, sem hann lét ósvarað eða segja má um, að hann hafi svarað út í hött. Ég spurði, eins og bandrit mitt segir til um: Eru hæstv. ráðh. nú reiðubúnir til þess að taka afstöðu til þeirra úrræða, sem hann nefndi, og í framhaldi af seinni spurningunni sagði ég: Í þessu sambandi ítreka ég spurninguna um, hvort aðrir hæstv. ráðh. séu reiðubúnir til þess að taka afstöðu til ummæla hæstv. forsrh.? Þessari spurningu svaraði hæstv. viðskrh. ekki. Hann sagði í seinni ræðu sinni, að enginn ágreiningur væri milli sín, að því er hann vissi til, og hæstv. forsrh. Af þessu vil ég af fyllstu velvild til hæstv. viðskrh. draga þá ályktun, að hann hafi hvorki heyrt ræðu hans í gær, eins og hann raunar sagði áðan, né hlustað á útvarpið í gærkvöldi eða lesið frásagnir af ummælum hans í dagblöðum í morgun.

Ég skal ekki efna hér til neinna efnisumr. að forsrh. fjarverandi, hvað þessi ummæli þýði. Ég bendi aðeins á það, að hann boðaði t.d. breytingu á grundvelli vísitölunnar, sagði sem sína persónulegu skoðun, að breyta bæri reikningsaðferð við útreikning kaupgjaldsvísitölu. Og hann taldi nauðsynlegt að leggja á óbeina skatta, sem ekki yrði tekið tillit til við útreikning kaupgjaldsvísitölunnar. Þetta sagði hæstv. forsrh. sem sína skoðun. Ég vil ekki trúa því og skal ekki herma það upp á hæstv. viðskrh., að hann sé sammála þessu eða enginn ágreiningur sé á milli hans og hæstv. forsrh. um úrræði í efnahagsmálum. Ég vil heldur túlka það þannig, að hæstv. viðskrh. hafi ekki verið fullkomlega ljóst, hvað hæstv. forsrh. raunverulega sagði hér.