15.02.1973
Sameinað þing: 45. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1965 í B-deild Alþingistíðinda. (1538)

138. mál, Lífeyrissjóður allra landsmanna

Félmrh. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Hugmyndin um einn sameiginlegan lífeyrissjóð fyrir alla landsmenn er orðin nokkuð gömul. Henni skýtur ekki upp fyrst nú og er enginn augnabliksbóla. Lífsneistinn í þessari hugmynd er áreiðanlega mjög sterkur, og þó að menn hafi kannske á vissu tímabili ímyndað sér, að með þróun margra lífeyrissjóða mundi ekki verða þörf fyrir sameiginlegan lífeyrissjóð, þá er samt sem áður niðurstaðan allt önnur. Menn telja, að eftir sem áður, þrátt fyrir tilkomu allra hinna mörgu lífeyrissjóða, beri að stefna að því að steypa þeim með einhverjum hætti saman í samstarfandi heild, og þá heild fella menn undir hugmyndina um lífeyrissjóð, sem rúmi alla landsmenn.

Ég er fyllilega samþykkur því, að það sé þörf á að taka málið nú til rækilegrar skoðunar og þróun lífeyrissjóðsmálanna í landinu sé nú komin á það stig, að það sé fyllilega tímabært að færa þessi mál í einn sameiginlegan farveg með löggjöf. En ekki geng ég þess dulinn fremur en þeir, sem hafa talað á undan mér, að það verður mikið vandaverk, ef það á að framkvæma.

Hv. frsm. vék að því, að Haraldi Guðmundssyni, fyrrv. forstjóra Tryggingastofnunarinnar, hefði verið falin könnun á þessu máli, og vissulega er það rétt. Hann fór til útlanda og kynnti sér þessi mál á því þróunarstigi, sem þau voru þá á Norðurlöndum, og skilaði um þau myndarlegri og merkilegri skýrslu, enda var hann mjög kunnugur öllum þessum málum sem forstjóri almannatrygginganna í landinu. Það var einmitt þegar þessi skýrsla var út komin, sem fyrrv. hæstv. ríkisstj. skipaði mþn. í þetta mál undir forsæti þáv. forstjóra trygginganna, Sverris Þorbjarnarsonar, og ég átti sæti í þeirri n. Þessi n. studdist í fyrsta lagi við niðurstöður Haralds Guðmundssonar og till. hans og aflaði sér einnig vitneskju um lífeyrissjóðsmál í nágrannalöndum okkar, eins og þau mál stóðu þá. En þá mátti segja, að í sumum nágrannalanda okkar væru þessi mál í mótun, en ekki fullmótuð.

Svo var það einmitt meðan þessi n. sat að störfum, að verkalýðsfélögin í landinu öðluðust rétt til myndunar lífeyrissjóða og lífeyrissjóðafjöldinn í landinu nálega tvöfaldaðist, og það fólk í landinu, sem lífeyrissjóðsréttinda naut, tvöfaldaðist einnig fyllilega að tölu til. Þegar málin stóðu svona og með margvíslega breyttum viðhorfum þar af leiðandi, skrifaði n. þáv. ríkisstj. og spurðist fyrir um, hvað nú skyldi gera, hvaða stefnu nú skyldi taka í málinu, því að nú væru viðhorf að mörgu leyti breytt. Mér er ekki vel kunnugt um, hvaða svör bárust frá ríkisstj., en svo mikið er víst, að n. hætti þar með störfum. Hún fékk ekki, svo að ég viti til, fyrirmæli um, á hvern veg skyldi haldið áfram starfinu til þess að móta þetta mál til fullrar tillögugerðar. Ég heyrði núna af ræðu hæstv. fyrrv. fjmrh., Magnúsar Jónssonar, að málið hafði verið í áframhaldandi athugun hjá ríkisstj., og hún komst að þeirri niðurstöðu, að það væri á mótunarstigi, væri síbreytilegt og væri bezt að sjá betur, hver þróunin yrði, áður en fast væri tekið á málinu með till. Þá var í uppsiglingu enn í viðbót við þetta lífeyrissjóðakerfi lífeyrissjóður bænda, sem nú er kominn á laggir, en hins vegar er mér ekki nægilega vel kunnugt um, hvernig hefur starfað í reynd, hvernig hefur gefizt sá þáttur í lífeyrissjóðakerfi, sem er nokkuð sérstakur, eins og skýrt var frá áðan.

Að því er viðvíkur þessari till., sé ég, að ætlunin með henni er að venda málinu í þann farveg, að allir þeir lífeyrissjóðir, sem nú starfa í landinu, eigi að lúta einni og sömu stjórn, og það álít ég, að sé rétt spor, með hvaða hætti sem það verður stigið. Mér þætti ekki ólíklegt meira að segja, þótt ekki yrði sett um það löggjöf, að lífeyrissjóðirnir finni nú þegar eða fljótlega þörf fyrir að samhæfa störf sín með því að mynda eitt bandalag lífeyrissjóða, og að því hefur þróunin vissulega stefnt að því er snertir nokkra þeirra. En í vegi fyrir þessu stendur að nokkru leyti mjög ólík aðstaða þeirra á ýmsan hátt. En ég mundi vænta þess, að lögbundin sameiginleg stjórn yfir lífeyrissjóðina gæti einhverju áorkað í þá átt að samhæfa störf þeirra og aðstöðu. Fulltrúaráð, þar sem sætu fulltrúar allra lífeyrissjóða í landinu, yrði geysifjölmenn sveit, en henni er samkv. till. ætlað að kjósa síðan fámennari stjórn yfir sjóðakerfið. Það orkar að sjálfsögðu mjög tvímælis, hvernig ætti að skipa þessum málum, og er vafalaust ekki hugsað öðruvísi en sem ábendingar, það sem er sagt í inngangi þáltill. En ég held, að í niðurlagi hennar, þegar kemur að því að ræða um hlutverk sameiginlegs lífeyrissjóðs fyrir alla landsmenn, þá sé þar gripið á a.m.k. mjög þýðingarmiklum atriðum, þar sem tilgangurinn sé, að þeir, sem nú njóta ekki lífeyrisréttinda, öðlist þau, þannig að slík réttindi nái til allra landsmanna, og að samræma störf lífeyrissjóðanna, bæði að því er varðar réttindi þau, sem þeir veita, og ráðstöfun á fjármagni þeirra. Ekki hvað síst mundi vera brýn nauðsyn fyrir þjóðfélagið að hafa einhverja hönd í bagga um ráðstöfun á því gífurlega fjármagni,, sem sjóðirnir nú þegar og þá alveg sérstaklega innan fárra ára koma til með að ráða yfir. Ég held, að það sé sannast mála, að fjármálum á Íslandi og efnahagsmálum verði ekki tryggð stjórn að fullu, án þess að einnig sé tekið tillit til þess, að þetta nauðsynlega fjármagn leiki ekki lausum hala og fari kannske þvert á þá stefnu, sem ríkiandi er hverju sinni í efnahagsmálum og fjármálum, en þetta verði því að samhæfa stefnu ríkisvaldsins, þannig að þar vinni ekki hver höndin gegn annarri eða fari sitt í hverja áttina, heldur verði þar samstaða á milli. Enn fremur á með þessari samræmingu að stuðla að því, að rekstur lífeyrissjóðanna verði sem hagkvæmastur, og má vel vera, að það væri hægt að draga eitthvað úr fjármagnskostnaði við stjórn sjóðanna. Þó að það sé að vísu staðreynd, að mjög margir af þessum sjóðum fá innta af hendi ókeypis sem sjálfboðavinnu. einkanlega smærri sjóðirnir, þá vinnu, sem fram er lögð í sambandi við rekstur þeirra og stjórn, svo að ég veit ekki, hversu haldgott það yrði að draga úr kostnaði með því að steypa þeim öllum saman, því að vissulega er það rauði þráðurinn í þessari till., að sjóðirnir eigi eftir sem áður að halda sem allra mest sjálfstæði sínu.

Ég tek fyllilega undir það, að nauðsyn beri til að haga málum þannig, að allir landsmenn njóti réttinda á lífeyrissjóðum og stefna og störf sjóðanna séu samræmd og einnig samræmd fjármála- og efnahagsmálastefna ríkisvaldsins á hverjum tíma. En svo sagði tillögumaður: „án þess að skerða sjálfstæði sjóðanna,“ og þetta held ég, að sé setning, sem geti farið vel í þáltill., en yrði erfiðara að móta í löggjöf. Ég er afskaplega hræddur um, að þetta sé ekki framkvæmanlegt, svo að sannleikurinn sé sagður á þessu stigi. Ég er afskaplega hræddur um, að það verði ekki hægt að framkvæma sameiningu og samhæfingu allra lífeyrissjóða í landinu án þess að skerða sjálfstæði þeirra að einhverju leyti, og þar er vafalaust viðkvæmi punkturinn í þessu máli, sem hæstv. fyrrv. fjmrh., Magnús Jónsson, drap hér líka á áðan.

Ég skal ekki hafa fleiri orð um þessa till. Ég held, að hún séu orð í tíma töluð og að málið sé stórt og mikið og setja þurfi löggjöf um þetta og mjög í þeim anda, sem þessi till. stefnir að. Og ég lýsi yfir stuðningi mínum við jákvæða afgreiðslu hennar.