15.02.1973
Sameinað þing: 45. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1968 í B-deild Alþingistíðinda. (1539)

138. mál, Lífeyrissjóður allra landsmanna

Björn Pálsson:

Herra forseti. Það má tala langt og mikið mál um tryggingamálin, ef út í það er farið, en ég mun ekki gera það að þessu sinni. Sumir ræðumennirnir hafa komið inn á það, að tryggingakerfi okkar sé eitthvað skylt tryggingakerfi nágrannaþjóða okkar á Norðurlöndum og það sé háþróað kerfi. Ég vil ekki bera á móti því, að það sé það. En hinu vil ég mótmæla, að við höfum svipað eða hliðstætt tryggingakerfi og þeir. Og ég held, að forseti Sþ. eða einhver af framámönnum hér í þingsalnum ætti að fá tryggingalöggjöfina frá Norðurlöndum, Noregi, Danmörku og Svíþjóð, og þá gætu þm. lesið þetta sjálfir, þyrftu ekki að vera að vitna í eitthvað, sem þeir vissu ekki, hvað væri.

Ég hef ekki verið mikill fylgismaður þessara lífeyrissjóða. Mér hefur alltaf verið ljóst, að það er féfletting á fólkinu og mun verða algert vandræðamál og eftir því meira sem lengur líður. Þess vegna fór ég að kynna mér þessa löggjöf á Norðurlöndum. Þeir hafa einfalt kerfi, en hitt er satt, sem kom fram hjá hv. 2. þm. Norðurl. e., að það eru miklir lífeyrissjóðir til í Svíþjóð. Þeir eru bara annars eðlis, eins og t.d. hjá verkfræðingunum hér. Þeir tryggja sig af frjálsum vilja, borga allt tillagið sjálfir, en eru ekkert að jagast við atvinnurekendur að borga tryggingu. Það eru frjálsir sjóðir, og ég hef ekkert á móti þeim. En annars er tryggingakerfið einfalt hjá nágrannaþjóðum okkar, og ég get í stórum dráttum sagt ykkur í örfáum orðum, hvernig það er.

Í Noregi er það þannig, að atvinnurekandinn borgar 8.8%, launþeginn 4%. Þetta er talið þannig í lögunum. En auðvitað er þetta sama og kaup, sem atvinnurekandinn borgar. Hann gæti alveg eins borgað hærra. Atvinnurekendur tryggja sig með 7% af nettótekjum sínum. Þetta er ósköp einfalt. Ríkið leggur sáralítið fram og sveitarfélögin. Hliðstætt er það í Svíþjóð. Þeir borga raunar hærri tryggingar. En í Danmörku er það svipað og gamla kerfið okkar, og ég hygg, að þeir hafi haft dönsku lögin, þegar þeir sömdu upphaflega tryggingalöggjöfina hérna. Þar borga ríki og sveitarfélög mikinn meiri hluta.

En svo er hér út af vinnudeilum fundið upp allt annað kerfi, viðhótarkerfi, eins og hæstv, félmrh. lýsti yfir einu sinni úr þessum stól, að það hefði orðið til af því, að atvinnurekendur hefðu fengizt til þess að leggja fram í lífeyrissjóði, en ekki að hækka kaupið. Vitanlega var það vitleysa hjá atvinnurekendum að gera það. En ég skal ekki segja, fyrir hvaða áhrifum þeir hafa orðið þar. Og þá myndast þetta dæmalausa kerfi, að það á að taka 10% af kaupi nær allra landsmanna og safna því í sjóði þangað til 1985, þá á að fara að borga úr þeim. En núna er það ríkið, sem borgar framlagið á móti atvinnuleysistryggingum og stofnlánadeild landbúnaðarins. Ég held, að bankastjórar Búnaðarbankans séu farnir að renna hýru auga til þessara væntanlegu sjóða, af því að þeir halda, að þeir fái þá inn í bankann, jafnvel þó að eigi að taka þetta framlag smám saman af bankanum, sem hefur verið lagt á neytendur og bændur sem tillag til stofnlánadeildarinnar undanfarin ár. Ég hafði aldrei neinn áhuga á að afnema það og enn minni áhuga á þessum lífeyrissjóðum.

Nú skulum við athuga réttlætið í þessum blessuðum lífeyrissjóðum. Ég er búinn að láta reikna þetta allt saman út. Opinberir starfsmenn borga í 30–35 ár og fá 70%, 2/3 af launum sínum. Launþegum er sagt að borga frá 16 ára aldri og allt upp í til ár, 51 ár, en fá það endurgreitt, ef fellur niður vinna t.d. hjá verkamönnum í 6 mánuði, sem þýðir það, að þeir, sem eru í skóla, fá það endurgreitt, en fá það þannig, að þeir fá bara þessi 4%, sem þeir hafa borgað, en ekki 6%, sem vinnuveitandinn hefur borgað, það hirðir sjóðurinn, Þetta hefur verið leikið líka í lífeyrissjóði sjómanna. Ég kalla þetta réttan og sléttan þjófnað. Atvinnurekandinn er búinn að borga þetta sem beint eða óbeint kaup, svo hirðir sjóðurinn það. Þetta kom í ljós hjá dreng, sem ég á og vann í sumar. Það var tekin af honum þessi prósenta, hann fær þetta endurgreitt í vor, en bara 4%, hitt er hirt. Þetta er nú réttlætið.

En svo skulum við athuga upphæðirnar. Ég er búinn að láta reikna það út. Við skulum segja, að launþeginn hafi 330 þús. kr. í árslaun. 33 þús. kr. er þá framlagið í lífeyrissjóð árlega. Eftir 30 ár eru þetta 6.5 millj. með 10% vöxtum og vartavöxtum. Eftir 40 ár er það orðið 16.3 millj., það nærri þrefaldast. Og á fimmta áratugnum fjór- eða fimmfaldast það, þannig að óbreyttur verkamaður borgar allt að því 6–7 sinnum meira en opinber starfsmaður, sem tryggir sig í 30 ár. Svo á hann að fá 2/3 af árslaunum, ef þetta blessað kerfi kemst í ganginn, en það á embættismaðurinn líka að fá. En það er bara tryggt hjá ríkisstarfsmönnum, verðtryggt. Og nú þarf ríkissjóður að borga nærri 200 millj. til þess að verðtryggja þessar greiðslur. Auk þess þarf hann að borga framlag nú til þessara gömlu bænda, sem er svo dregið frá ellistyrknum að mestu eða öllu leyti, þannig að þetta er orðið dálítið skrýtið kerfi og alveg furðulegt, að þeir, sem þykjast vera að berjast fyrir kjarabótum hjá hinum almenna verkamanni, skuli koma á svona endemiskerfi. Það er meira en það, að launþegar þurfi að borga 6–7 sinnum hærri upphæð en opinberi starfsmaðurinn, heldur er allt óverðtryggt hjá þeim. Og ef gengur eins hratt hjá núv. eins og hjá fyrrv. ríkisstj. að minnka krónuna, þá býst ég við, að það tapist mest þannig af þessum sjóðum. Svo er nú það.

Ég sá, að fyrrv. ráðh., Gylfi Þ. Gíslason, hefur haft plagg, sem ég hef líka á borðinu hjá mér, frá Seðlabankanum um þessa blessaða lífeyrissjóði, og það eru í því niðurstöður frá árinu 1970. Ég hef talað við þennan mann í Seðlabankanum og síðast í gær, sem hefur með þessi maí að gera, og eiginlega vita þeir ekki, hvað sjóðirnir eru margir, þeir halda, að þeir séu 90, og enn síður að þeir viti, hver upphæðin er orðin í þeim. En hann telur að að það hafi verið 7 lögboðnir lífeyrissjóðir, áður en þessir stéttarsjóðir komu. Það eru lífeyrissjóðir yfirsetukvenna og opinberra starfsmanna o.s.frv., en séu 27 í gegnum þetta nýja kerfi, sanngjarna kerfi, en hann vissi það ekki fyrir víst, og sennilegt, að iðgjöldin hafi verið allt að 2 milljarðar s.l. ár. Nú er það komið í fullan gang, nú er það 10%, þannig að vegna kauphækkana og hækkunar iðgjalda hjá bændunum munu iðgjöld verða mikið á þriðja milljarð, sem allir þessir sjóðir eiga að fá á næsta ári. Þegar bændasjóðurinn er kominn í fullan gang og þetta er allt saman komið í gott horf, verður þetta sennilega 3 milljarðar. Og ef krónan minnkar mikið úr þessu og launin hækka hliðstætt, þá auðvitað hækkar það í krónutölu.

Nú sjá allir menn, ef þetta kerfi heldur áfram, — við skulum segja, að ekkert sé borgað fyrr en 1985, eins og gert er ráð fyrir, hversu óhemju mikið fjármagn þetta verður með vöxtum og vaxtavöxtum. Og svo á að lána þetta til einstaklinganna. Það verður þannig, að þessir blessaðir lífeyrissjóðir eiga eftir nokkra áratugi meginið af eignum landsmanna. Þetta verður hálfu öflugra auðvald en kaþólska kirkjan var á sínum tíma. Og svo eiga einstaklingarnir að borga vexti af sínu eigin fé. Þetta þekkist hvergi í nokkru þjóðfélagi í veröldinni nema Íslandi, svona vitlaust kerfi.

Þeir eru að tala um, að þeir hafi tekið viðvíkjandi bændasjóðnum allt það bezta, sem þekkist hjá nágrannaþjóðum okkar. Bændur hafa enga lífeyrissjóði lögboðna nema í Finnlandi. Þar er miklu gáfulegra kerfi. Þar borgar einstaklingurinn 2%, en það er lagt á eftir landverði, en ríkið leggur jafnmikið fram á móti. Þeir borga þetta í peningum, en hér er vaðið í reikninga manna og tekið úr þeim og reynt að telja bændum trú um, að neytendur eigi að borga 6% á móti 4%, sem þeir eiga að borga, sem er ekkert nema vitleysa, því að það eru takmörk fyrir því, hvað varan selst, og ríkið verður því að borga þeim mun meira í niðurgreiðslur, ef bændur eiga að fá það sama fyrir afurðirnar. Annaðhvort hlýtur ríkið að borga það eða bændurnir. Neytendur kaupa minna, ef afurðir hækka, og einnig hækkar vísitalan eftir okkar kerfi, þannig að ríkið fær óbeint að borga.

Nei, þetta er orðið furðulegt kerfi. Og ég legg til, að þið fáið lögin um þetta tryggingakerfi hjá nágrannaþjóðum okkar og lesið sjálfir, en látið ekki vera að segja ykkur eitthvað, sem er ekki nokkur fótur fyrir. Auðvitað dáizt þið að, hve menn geta talað fallega um mál, eins og fyrrv. fjmrh. hér áðan, án þess að vera búinn að kynna sér þetta. Það gerir það, að maðurinn er eðlisgreindur og afburðavel máli farinn. Kynnið ykkur bara málið. Ég fékk lögin, og þið hljótið að geta fengið þau líka hjá sendiráðunum.

Ég vil stofna einn lífeyrissjóð fyrir alla og ég get t.d. fallizt á það, sem nágrannaþjóðir okkar halda fram, að takmarkið eigi að vera, að menn fengju svo sem 2/3 af starfslaunum í ellilífeyri. Og ég vil láta ganga eitt yfir alla landsmenn með tryggingar á sjóðnum. Það jaðrar við að vera svolítið vit í stöku setningu í þessari ályktun hjá krötunum, en annars er hún tóm vitleysa. Þeir hafa ekki kynnt sér málið og það er að setja hattinn á vitleysuna að fara að stofna eitthvert yfirráð yfir allri vitleysunni, sem ekki á þó að hafa eiginlega neitt vald. Ég las þennan pistil Haralds Guðmundssonar. Ályktunin var sú, að við værum orðnir svo efnaðir, að við gætum komið okkur upp sérstökum lífeyrissjóði. En hvað eru almannatryggingarnar annað en lífeyrissjóður, og er ekki langeðlilegast að hafa þetta kerfi einfalt? Hvað er unnið við að hafa það tvöfalt? Svo er okkar kerfi svo dæmalaust, að menn geta fengið jafnvel þreföld eða fjórföld eftirlaun, ef þetta tvöfalda eða þrefalda kerfi á að halda áfram. Svo eru sumir menn giftir, og konurnar vinna úti, og það er ákaflega mikið um þetta nú, þá verða þær að borga í lífeyrissjóðinn og bóndinn líka. Þegar bæði eru á launum, þá þurfa þau bæði að greiða iðgjald til 67 ára aldurs, og bæði eiga að fá lífeyri, þ.e.a.s. ef þau eru ekki dauð, þá verður þetta miklu meira en venjuleg vinnulaun. Í viðbót við það eiga þau að fá frá almannatryggingunum, þannig að það geta orðið hálf önnur laun eða meira, eftir að þau eru orðin 67 ára og þurfa í raun og veru á afar litlu að halda, búin að ala upp börnin. Hverjir eiga að borga þetta? Auðvitað fólkið, sem vinnur.

Ég hef ekkert á móti því, að við höfum tryggingar, hvort sem það er fyrir opinbera starfsmenn eða aðra, eins háar og eðlilegt er. En það er alger firra að ætla að fara að borga fólki eftir 67 ára aldur miklu hærri laun en það hafði, meðan það þurfti að koma upp heimilum og ala upp börn sín. Og það hefur ekkert þjóðfélag efni á því að taka 10% af kaupi allra vinnandi manna og leggja það í sjóð í áratugi. Það raskar efnahagskerfinu. Enda er sannleikurinn sá, að það verða illdeilur út úr þessu öllu. Ríkisvaldið getur ekki komizt af án þess að hafa peninga, og þeir, sem ráða yfir sjóðunum, vilja ráða yfir þeim áfram, því að peningar skapa vald. Utan um alla þessa sjóði myndast stjórnir, þær fá þóknun. Í þessum nýju sjóðum eru framkvæmdastjórar farnir að hafa 60 þús. kr. laun á mánuði, sumir þeirra. Þeir þurfa eitthvað að gera við peningana og fara að kaupa verðbréf og húseignir til að verðtryggja þá. Bankarnir byggja hallir fyrir eigið fé, skulum við ætla, til þess að varasjóðir þeirra minnki ekki í verðgildi.

Þetta er alveg furðulegt kerfi. Utan við hið einfalda kerfi geta allir tryggt sig, sem vilja. Við því er ekkert að segja. Það er frjáls trygging, og það er ekki nema eðlilegt, að stéttir eða einstaklingar ráði yfir slíku fjármagni. En það er allt annars eðlis, og ég yrði aldrei svo heimskur að fara að tryggja mig þannig, enda hafa þeir sagt mér, sem hafa frjálsa lífeyrissjóði, þeir segjast vita, að þetta sé tapað fé, því að alltaf er verið að verðfella peningana. En það er eini ljósi punkturinn hjá þeim, þeir þykjast geta fengið nokkrar krónur að láni, ef þeir þurfa að byggja. Enda er yfirlýst af mönnum, sem hafa vit á þessu lífeyrissjóðakerfi, að þetta er óstarfhæft kerfi, þegar alltaf er verið að verðfella peningana.

Norðmenn hafa það nú þannig, að ríkið leggur hér um bil ekkert fram. Nú er um þriðjungur af ríkisútgjöldunum, sem fer til tryggingamála. Ef við gætum breytt yfir í norska og sænska kerfið, þá væri hægt að spara sennilega um 5 milljarða. Þá hefði ekki þurft að fella krónuna um 10% fyrir jólin, til þess að ríkið fengi nægilega peninga.

Það kemur einhvern tíma stjórn á eftir þessari stjórn, og ég held, að stjórnarandstaðan ætti alveg eins að hafa áhuga á því, að eitthvað sé gert af viti í tryggingamálum, eins og þeir, sem eru í stjórn nú. Sannleikurinn er sá, að t.d. tekjuskatturinn er farinn að ganga langt úr hófi. Það er ekkert vit í því að hafa tekjuskattinn svona háan. Persónufrádrátturinn þarf að vera meiri en hann var t.d. s.l. ár, því að það er ekki dregið frá fyrir nauðþurftum fólks. Þetta þýðir það, að þeir, sem eru í háum tekjum, fara að draga úr vinnu sinni, þeir kæra sig ekkert um að borga 55 kr. af hverjum 100 fyrir að vinna á nóttunni, sem er eðlilegt.

Ég held, að það væri þörf á því, að þm. færu sjálfir að kynna sér, hvernig þetta sé í þeim löndum, sem við álítum, að standi framarlega í tryggingamálum, og fari svo að reyna að breyta tryggingalöggjöfinni þannig, að það yrði eitthvað vit í henni. Það er n. starfandi í þessu, en hún hefur engin fyrirmæli fengið af viti og veit ekkert, hvað hún á að gera.

Nei, það er meira en þetta sé óviturlegt kerfi. hað er ranglátt líka. Og ég held, að ég sé nú kominn áleiðis með bændur að sýna þeim fram á, hvað þetta sé fáránlegt, því að það sagði mér starfsmaður í Búnaðarbankanum, sem fór í göngur að gamni sínu í Norður-Þingeyjarsýslu, — sá maður vinnur í Búnaðarbankanum, sem hefur með þessi mál að gera nú, upplýsingastarfsemina og annað, — og hann sagði, að þeir hefðu alltaf verið að skamma sig fyrir lífeyrissjóðina.

Svo þarf endilega að fara að sýna launþegunum fram á, hve herfilega er með þá farið, m.a. þegar þessir aumingja drengir eru að vinna að sumrinu og borga 4%, og þá er hirt það, sem atvinnurekandinn borgar og hann borgar auðvitað af því, að þessi vinna var framkvæmd hjá honum, og er ekkert annað en óbeint kaup.

Þá má minna á atvinnureksturinn. Þetta er einhver versti liðurinn fyrir atvinnurekendur. Ég hef fengið það upp hjá iðnaðarmönnunum, ef þeir borguðu 100 kr. í kaup, þá þurftu þeir að borga í 18 skatta 40 kr. af hverjum 100 kr., sem þeir borguðu í laun, og þ. á m. var lífeyrisgjaldið. Það hefur hækkað um 21/2% síðan, og þá er það um 421/2 króna núna fyrir utan útsvar og gjöld til ríkisins. Hvað haldið þið, að væri hægt að borga miklu hærra kaup, ef einhverju af þessum sköttum væri sleppt?

Við verðum sennilega að breyta alveg kerfinu og fara yfir í norska kerfið. Það væri eina ráðið til þess að sameina þetta í einfalt kerfi, og þá þurfa atvinnurekendur að borga — við skulum segja hliðstætt og Norðmenn — 8.8%, og þá væri hægt að lækka við þá launaskatt eða eitthvað annað í staðinn, svo að það mundi ekki auka útgjöld þeirra. En þá ætti aftur að vera hægt að lækka aðra skatta.

Ég ætla ekki að fjölyrða um þetta meira. En ég held, að þm. ættu að fá lög um tryggingamálin hjá nágrannaþjóðum okkar, en ekki alltaf að vera að vitna í eitthvað, sem ekki er til hjá þessum nágrannaþjóðum okkar.