15.02.1973
Sameinað þing: 45. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1975 í B-deild Alþingistíðinda. (1541)

138. mál, Lífeyrissjóður allra landsmanna

Björn Pálason:

Herra forseti. Hv. 1. þm. Sunnl. var að tala hér áðan um þessar krepptu hendur á bændunum og hvað þeir væru hrifnir að fá þessa aura. En það er nú skemmtilegast við þetta allt saman, að þetta er dregið frá ellilífeyrinum. Ef menn hafa einhverjar aðrar tekjur, fá þeir ekki nema 87 þús. kr. í ellilífeyri, en ef þeir hafa engar aðrar tekjur, fá þeir eitthvað um 130 þús. (Gripið fram í.) Þetta er í lögunum, og það eru öll hlunnindin. Þetta er ámóta upphæð og þeir fá úr þessum lífeyrissjóði nú. Þeir fá það úr stofnlánadeild landbúnaðarins, sem alltaf vantar peninga, og svo úr ríkissjóðnum sem líka vantar peninga. En ég sé ekki annað en það væri alveg sama fyrir ríkissjóðinn að borga þeim bara 130 þús. kr. beint í gegnum tryggingarnar eins og að fara þessar krókaleiðir. Annars held ég, að bændur, sem hafa búið þangað til þeir eru 67 ára, séu yfirleitt allvel stæðir, annars væru þeir flosnaðir upp áður, og þá væru það drengir þeirra, sem ættu kannske erfiðara með að borga þeim eignirnar, ef þeir tækju við, en það eru þeir, sem verða að borga til lífeyrissjóðanna, en gömlu mennirnir, sem hafa nóga peninga, gera það ekki. En hvað um það, ég er eins og ég lýsti yfir, ekkert á móti lífeyri. Við getum kallað þetta lífeyri, ellilífeyrinn, sem lands. menn fá yfirleitt. hað þarf að gerbreyta kerfinu, það á að vera einfalt og allir að búa við svipuð kjör. Ég álít ekki, að allir eigi að fá jafnmargar krónur í ellilífeyri. T.d. eiga gamlir embættismenn og þm. að fá hærra, af því að yfirleitt eru þeir ekki orðnir til neins nýtir, þegar þeir eru 67 ára. En aftur bændur, sem vanir eru við vinnu, eru færir um að vinna allt til áttræðisaldurs.

Þá kom hv. 1. þm. Sunnl, að sköttunum, og það er alveg satt, tekjuskattur hefur hækkað. Það var tekið meira af tekjuskattinum til ríkissjóðs, en minna í útsvör til sveitarfélaganna. En heildarskatturinn er ósköp svipaður og hann var í ráðherratíð þessa hv. þm., ósköp svipaður.

Sannarlega vil ég vinna að því að lækka þennan tekjuskatt. En einn maður getur ekki ráðið öllu í þessu virðulega þingi, eins og þið vitið. Það hefur hv. 1. þm. Sunnl. vafalaust orðið að reyna einhvern tíma. Og þá verða menn að beygja sig fyrir meiri hl. Það er þingræðið. Þau ósköp fylgja því. En auk þess hafa tekjur fólks aukizt ákaflega mikið, og það er ánægjulegt, enda voru tekjurnar takmarkaðar árin 1967 og 1968. En ég held, að skattstiginn hafi út af fyrir sig ekki breytzt neitt sem nemur, ef útsvar og tekjuskattur eru tekin sameiginlega. En hvað um það, skatturinn er of hár, persónufrádrátturinn ætti að vera miklu hærri. Það má ekki leggja tekjuskatt á nauðþurftir. Það er fyrir sig að hafa skattinn allháan á þeim, sem hafa miklar tekjur. En þetta er mál út af fyrir sig. En það, að tekjuskatturinn er áætlaður á fimmta milljarð og verður sennilega meira, sýnir, hvað einstaklingarnir hafa nú miklar tekjur hjá þessari blessaðri stjórn, enda má segja, að hún hafi viljað vera góð við alla og jafnvel reynt að gera meira fyrir fólkið en efnahagurinn hefur leyft. En það kemur ekki beinlínis þessu máli við.

En viðvíkjandi bændum, þá er verið að reyna að telja þeim trú um, að neytendur borgi iðgjöldin að 3/5. Það er náttúrlega tóm vitleysa. Það hlýtur að lenda á ríkinu fyrr eða síðar, annaðhvort í gegnum vísitöluna eða á annan hátt. Það eru tekin 4% af brúttótekjum bænda. Nú fljúga tekjur þeirra upp, margir með 1.5 millj., og það þýðir 60 þús. kr. á ári. Það eru 16 millj. í 40 ár, ef iðgjaldið er 33 þús., ég er búinn að láta reikna það út með vöxtum og vaxtavöxtum, og þegar það fer upp í 66 þús., eru það 32 millj., sem þeir eiga að borga á 40 árum. Þeir mega borða allvel í ellinni, fyrir utan það, að þá eru margir af þeim dauðir, því að meðalaldurinn er 71 ár. Það gefur auga leið, hvort einhver er ekki dauður 67 ára.

Þetta er alveg fáránlegt, og þeir, sem stóðu að þessu, vissu ekki, hvað þeir voru að gera. Þetta er ég búinn að sýna bændum fram á, en það gengur misjafnlega vel að láta þá skilja það, því að menn eru mismunandi miklir stærðfræðingar, og ég veit ekki, hvað þeir eru miklir stærðfræðingar austur í Rangárvallasýslu. En í Norður-Þingeyjarsýslu eru þeir greindir og eru búnir að skilja þetta. En það er ekki nóg með þetta. Ef menn eru með stórt bú, eiga þeir að borga 50% meira. Þeir eiga líka að fá hærri lífeyri eftir 67 ára aldur. En þótt bændur séu allvel stæðir, þá éta þeir ekkert meira en hinir, og þetta er óþarfarausn, og væri bezt að lofa þeim að eiga þessi 50%.

Svona löggjöf þekkist hvergi í heiminum nema á Íslandi, og það er von, að Ingólfur Jónsson vilji reyna að verja þessa vitleysu. En sannleikurinn er sá, að hann fleygði þessu fram án þess að reyna neitt að kynna sér þessi lög í nágrannalöndum okkar og ekki heldur að reyna að skilja þetta. Ég er alltaf að reyna að sýna honum fram á, hvað þetta er vitlaust, en hann ber bara höfðinu við steininn og segir, að þetta sé ágætt.