15.02.1973
Sameinað þing: 45. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1977 í B-deild Alþingistíðinda. (1543)

107. mál, íbúðarlán úr Byggingarsjóði ríkisins

Flm. (Þorv. Garðar Kristjánason) :

Herra forseti. Á þskj. 135 ber ég fram till. til þál. um hækkun íbúðarlána úr Byggingarsjóði ríkisins. Þar er gert ráð fyrir, að Alþ. skori á félmrh. að hlutast til um, að húsnæðismálastjórn breyti hámarki íbúðarlána Byggingarsjóðs ríkisins úr 600 þús. kr. í 900 þús. kr. til samræmis við breytingar á vísitölu byggingarkostnaðar.

Samkv. gildandi lögum um Húsnæðismálastofnun ríkisins frá 1970 var gert ráð fyrir, að upphæð íbúðarlána úr Byggingarsjóði ríkisins væri 600 þús. kr. En jafnframt var húsnæðismálastjórn heimilað, að fengnu samþykki félmrh., að breyta þessari upphæð til samræmis við breytingar á byggingarvísitölunni. Þetta ákvæði var nýmæli í löggjöfinni um Húsnæðismálastofnun ríkisins. Áður var ákveðin upphæð íbúðarlánanna, og þeirri upphæð var ekki hægt að breyta nema með breytingu á lögum. Samkv. gildandi lögum er hægt að breyta upphæð lánanna, án þess að lögunum sé breytt. Þessi þáltill. mín fjallar um það að ýta við réttum stjórnvöldum til þess að breyta upphæð lánanna.

Það er ekki að ástæðulausu, að þessi þáltill. er borin fram. Í maí s. l. voru tvö ár liðin frá því, að löggjöfin um húsnæðismálastofnunina var sett, og maður skyldi halda, að þá strax hefði verið farið að hyggja að því að gera breytingu í þessu efni. Auðvitað hafði það mikla þýðingu fyrir allan þann fjölda, sem stendur í byggingu íbúða. En það bólaði ekki á neinum aðgerðum af hálfu stjórnvalda í þessu efni. Því var það, að ég flutti till. þá til þál., sem hér er til umr. Það var ekki að ástæðulausu, að það var gert, vegna þess að frá því í maí 1970, þegar húsnæðislöggjöfin var sett, höfðu orðið stórkostlegar breytingar á byggingarvísitölunni til hækkunar. Í maí 1970 var vísitala byggingarkostnaðar 439 stig. Tveim árum síðar, í maí s. l., var þessi vísitala orðin 603 stig og hafði því hækkað um 37.4%. Enn hækkaði byggingarvísitalan 1. júlí s. l. í 683 stig og var þá orðin 55.6% hærri en í maí 1970. Og loks er þess að geta, að vísitala byggingarkostnaðar er nú orðin 689 stig, og er þar um að ræða 56.9% hækkun síðan lögin um Húsnæðismálastofnun ríkisins voru sett í maí 1970.

Með þessar staðreyndir í huga, held ég, að það sé ekki ofmælt, sem ég hef þegar sagt, að það var full ástæða til þess að bera fram þessa þáltill. og ýta við stjórnvöldum í þessu efni. Það verður líka að segjast, að þetta hefur þegar borið nokkurn árangur, því að eftir að þessi þáltill. var borin fram, fara viðkomandi stjórnvöld að huga að þessu máli. Og hæstv. félmrh. tók á sig þá rögg í síðasta mánuði að samþykkja hækkun á byggingarlánunum. Þetta er góðra gjalda vert, og það er kannske ekki alltaf, sem þáltill. hafa svo skjót áhrif sem í þessu tilfelli. Hins vegar er hér sá galli á gjöf Njarðar, að hækkun lánanna er einungis upp í 800 þús. kr. á íbúð, úr 600 í 800 þús., en ekki í 900 þús., eins og þáltill. gerir ráð fyrir. Það er því svo, að í þessu máli hefur hæstv. félmrh. dregið fæturna, og það, sem gert er, er of lítið og kemur of seint. Þetta er ekki gott til afspurnar. En það er þó góðra gjalda vert, það sem gert hefur verið. En með því að ekki hefur lengra verið gengið í þessu máli af hálfu húsnæðismálastjórnar og hv. félmrh., er till. sú, er hér liggur fyrir, í fullu gildi enn þá og verður það, þar til búið er að hækka lánin upp í 900 þús. kr., eins og till. gerir ráð fyrir. Ég vona því, að þessi till. fái jákvæðar undirtektir og skjóta afgreiðslu, svo að hægt sé að fullkomna það verk, sem nú er einungis hálfnað, að hækka íbúðarlánin frá því, sem þau voru ákveðin árið 1970.

Ég gæti flutt hér langt mál um nauðsyn þess, að þessi till. verði samþykkt hið bráðasta og efni hennar framkvæmt þannig, að hámark íbúðarlána verði ákveðið 900 þús. En ég ætla ekki að þreyta hv. þingheim á því að fara að telja hér öll þau veigamiklu rök, sem eru fyrir því að efla og styrkja útlánastarfsemi til húsbygginga í landinu. Ég hygg, að öllum sé ljós þessi nauðsyn og raunar hæstv. félmrh. Ég vildi mega treysta því, að honum væri þessi nauðsyn ljós, og ég hef ekki ástæðu til annars, vegna þess að hann hefur talað þannig um þessi mál áður. Ég vildi treysta honum til þess að standa hér upp og lýsa yfir fylgi og stuðningi við svo sjálfsagt mál sem hér er um að ræða.

Með tilliti til þessa sé ég ekki ástæðu til að hafa fleiri orð um þessa till. mína í bráð og legg til, að henni verði vísað til hv. allshn.