20.02.1973
Sameinað þing: 46. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1988 í B-deild Alþingistíðinda. (1551)

Umræður utan dagskrár

Sjútvrh. (Lúðvík Jósepsson):

Herra forseti. Hér er spurt um það, hvað hafi verið gert til þess að stuðla að því, að verkfall á togurunum, sem nú stendur, verði leyst eða takist að leysa það. Ég hafði á sínum tíma náið samstarf við báða samningsaðila, togaraeigendur annars vegar og samtök sjómanna hins vegar, og átti nokkra fundi með þessum aðilum ásamt með sáttasemjara ríkisins, áður en verkfallið skall á. Þá hafði þokazt allverulega áleiðis á milli þessara aðila í samningaviðræðum, þannig að það var mitt mat, að raunverulega bæri hér orðið mjög lítið á milli. Þýðingarmestu atriðin, sem um hafði verið deilt, voru leyst, en hins vegar virtist vera ágreiningur aðallega um fastakaupið eða þann lið í samningunum, sem snertir fastakaup sjómanna, og þar var um tiltölulega lítinn ágreining að ræða að mínu mati. En samkomulag tókst ekki og verkfall skall á. Það er ekki auðvelt að gefa skýringu á því, hvernig á því stendur, að ekki skuli hafa tekizt samkomulag á milli þessara aðila, þ. e. a. s. undirmanna á togaraflotanum og togaraeigenda. Hins vegar hafa yfirmenn síðan gert sínar kröfur, en þeir hafa ekki enn þá lýst yfir verkfalli, svo að binding togaranna stafar ekki af kröfum þeirra. Varðandi kröfur þeirra og sjónarmið togaraeigenda mun bera meira á milli heldur en í sambandi við laun undirmanna.

Það er ljóst, að togaraeigendur telja, að það gerði að koma til allverulegur beinn styrkur frá ríkinu til stuðnings togaraútgerðinni umfram það, sem önnur útgerð í landinu nýtur. Þeir hafa hins vegar ekki sett fram neinar beinar kröfur til ríkisstj. um það, hvað þeir fari fram á. Ríkisstj. hefur hins vegar hlutazt til um að skipa þriggja manna n. embættismanna, sem rannsakaði sérstaklega afkomu togaranna, eins og nú er ástatt. Í þessari n. er einn aðili frá hagrannsóknadeild Framkvæmdastofnunar ríkisins, einn tilnefndur af Fiskifélaginu og sá þriðji af sjútvrn. Þessi n. hefur unnið undanfarna daga að því að rannsaka öll gögn í málinu og mun nú vera komin að því að skila áliti sínu um það, hvernig hún lítur á rekstrarstöðu togaranna.

Það hefur verið sjónarmið mitt, að nauðsynlegt væri að fá samkomulag um launakjör á togurunum, áður en endanlega yrði tekin ákvörðun um, hvert framlag ríkissjóðs yrði sérstaklega til togararekstrarins. Það verður að teljast mjög óheppilegt að ákveða fyrst rekstrarstyrk til atvinnugreinar og síðan semji hún á eftir við þá, sem gera kröfur á útgerðina. Á s. l. ári veitti ríkissjóður togaraútgerðinni beina styrki, sem námu 45 millj. kr., en auk þess fékk togaraútgerðin um 36 millj. kr. í sérstakar bætur úr aflatryggingasjóði. Til viðbótar við þetta má nefna það, að ríkið tók á sig sérstakar greiðslur til vátryggingasjóðs fiskiskipa í því skyni, að hægt væri að halda uppi karfaverði umfram það, sem talið var mögulegt að halda uppi með öðrum hætti, og talið var, að bein útgjöld af þessum ástæðum næmu í kringum 14 millj. kr. á ári. Þessi sérstöku framlög til togaraútgerðarinnar á s. l. ári voru veitt fyrst og fremst til stuðnings gömlu togurunum, sem enn eru í rekstri og talið var, að þyrftu á sérstakri aðstoð að halda. Nýir skuttogarar, sem voru að bætast í flotann á árinu, urðu ekki aðnjótandi þessara sérstöku bóta. En í þeim kjarasamningum, sem nú er rætt um, er að sjálfsögðu jöfnum höndum samið um launakjör á hinum nýju skuttogurum og á gömlu skipunum.

Það hefur legið skýrt fyrir, að ríkisstj. væri tilbúin að ræða við forsvarsmenn togaraútgerðarinnar í landinu um sérstakan rekstrarstyrk á yfirstandandi ári, eins og á s. l. ári, þegar fyrir lægju samningar um launakjör og annan rekstrargrundvöll togaranna. Ég tel því, að af hálfu ríkisstj. hafi verið stuðlað að því að leysa þessa deilu, eftir því sem tök eru á á þessu stigi málsins, en lausn hefur ekki fundist enn. Það er auðvitað alltaf álitamál, hvenær ríkisvaldið á að skerast í leikinn, m. a. með beinni íhlutun löggjafarvaldsins. En þegar álitsgerð þeirrar n., sem unnið hefur að sérstakri athugun á rekstrarafkomu togaranna, liggur fyrir, þá koma væntanlega fram formlegar kröfur togaraeigenda um það, eftir hvaða stuðningi þeir óska, en slíkar kröfur hafa ekki komið fram til þessa.

Rætt hefur verið við sáttasemjara ríkisins um það, hvort hann teldi væntanlegt til þess að leysa þessa deilu, að skipuð yrði sérstök sáttanefnd í deilunni. Hann hefur talið, að það væri ekki líklegt, eins og sakir standa, að það mundi verða til þess að flýta fyrir lausn á deilunni.

Ég býst því við, að nú næstu daga verði úr því skorið, hvort samningsaðilar sjálfir geta fundið lausnarleið út úr deilunni eða hvort hér verða að koma til bein afskipti ríkisvaldsins til að leysa þessa deilu. En ég undirstrika það enn sem mína skoðun, að áður en ákveðið er framlag ríkisins til rekstrar togaraútgerðar í landinn, þurfa samningar um launakjör að takast. Ég er sammála hv. 2. þm. Reykv., sem lagði hér fram sína fsp., um, að það þarf að semja við sjómennina á togurunum um góð kjör. Það þarf að gefa þeim kost á hliðstæðum launakjörum og öðrum sjómönnum í landinu, og það er sú viðmiðun, sem er eðlileg af hálfu togaraeigenda í þessum samningum, að reyna að ná samningum við samtök togarasjómanna um hliðstæðar launagreiðslur til þeirra og samið hefur verið um í annarri ritgerð í landinu til annarra sjómanna. Komi það svo í ljós, eftir að slíkir samningar hafa verið gerðir, að óhjákvæmilegt sé að veita togaraútgerðinni eða hluta hennar eftir atvikum sérstakan fjárhagsstuðning umfram aðra útgerð í landinu, þá verður vitanlega að gera það til þess að tryggja þennan þýðingarmikla rekstur.

Ég vil benda á, að þetta verkfall, sem vissulega er alvarlegt, nær aðeins til hinna stærri togara, það nær ekki til minni togaranna í landinu. Það er því ekki rétt, sem sagt hefur verið, að jafnóðum og hin nýju skip sigla til landsins, sem sum hver eru að koma nú, þá lendi þau í verkfalli. Hér er aðeins um að ræða skip, sem eru yfir 500 brúttó rúmlestir að stærð. En þó að verkfallið nái aðeins til þeirra skipa, er hér um svo þýðingarmikinn lið í okkar atvinnurekstri að ræða, að það ber vitanlega að leggja áherzlu á að leysa þessa deilu sem allra fyrst. Og ég teldi fyrir mitt leyti eðlilegast, að samningar tækjust á milli togaraeigenda og sjómannasamtakanna um launakjör sjómanna, þar sem fyrir liggur, að ekki ber raunverulega orðið mikið á milli þessara aðila. Ég held, að ef þannig hefði verið staðið að málinu, hefði verið líklegt, að unnt hefði verið að leysa á eftir aðra þætti málsins, sem upp hefðu komið.

Svar mitt við því, sem hér var gagngert spurt um, er þetta: Ég hef fyrir hönd ríkisstj. haft afskipti af þessum samningum og leitast við að stuðla að lausn. Lausnin hefur enn ekki fundist. Nú næstu daga, þegar fyrir liggur álitsgerð þeirrar þriggja manna n., sem ég hef skýrt hér frá, hlýtur að verða tekin afstaða til þess, hvort ríkisvaldið verður að skerast í að leysa þessa deilu eða samningsaðilar finna leið út úr vandanum á þeim grundvelli, sem þá liggur fyrir hjá þessari sérstöku athugunarnefnd.