20.02.1973
Sameinað þing: 46. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1990 í B-deild Alþingistíðinda. (1552)

Umræður utan dagskrár

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Það fer vart á milli mála, að tæplega mánaðarverkfall íslenzka togaraflotans hefði verið mun meira í hinu pólitíska sviðsljósi, ef ekki hefðu gerzt önnur tíðindi, sem dregið hafa athygli þjóðarinnar jafnvel frá slíkum atburði sem þessum. Hins vegar hefur nóg yfir okkur gengið, þó að það bætist nú ekki við, að mörg hundruð millj. kr. tap verði af verkfalli þessu, en hér hefur verið bent á, að búast megi við eftir reynslu rúmlega 700 millj. kr. tapi á mánuði, sem gæti þá orðið meira við tilkomu nýrra skipa á næstunni.

Það er ekki óeðlilegt, eftir að þetta verkfall hefur staðið í tæpan mánuð og það liggur fyrir, að ekki hefur verið talað við samningamenn undirmanna í rúmlega 2 vikur, að minnt sé á, hvernig hæstv. sjútvrh., flokksbræður hans og skoðanabræður brugðust við, þegar slíkan vanda bar að höndum og þeir sátu á stjórnarandstöðubekkjum. Ólíku er saman að jafna orðum þeirra og ákafa þá eða hinum hæga og ábyrga embættismanni, sem tíundaði hér áðan allt, sem hann hefði gert til að reyna að fyrirbyggja þetta verkfall, sem ég skal í sjálfu sér á engan hátt vanmeta eða vanþakka.

Það er grundvallarstaðreynd í þessu máli, að undirmenn á togurum hafa haft lægst laun allra hópa af íslenzkum sjómönnum undanfarin missiri og að svo getur ekki verið í framtíðinni, þegar við erum að eignast nýjan og fullkomnari togaraflota, sem við bindum við miklar vonir. Það liggur líka fyrir, að þróun hefur verið togaraflotanum óhagstæð, ekki aðeins hvað snertir heildaraflamagn, heldur líka hvað snertir samsetningu aflans. Einhvern veginn hefur ávallt farið svo þrátt fyrir nokkra viðleitni til leiðréttingar, að sá fiskur, sem togararnir hafa mest veitt af, hefur fengið aðeins brot af þeim prósentuhækkunum í verði, sem bátafiskurinn hefur fengið. Afkoma togaranna hefur því verið slæm, um það þarf ekki að ræða, og þeir hafa fengið ýmiss konar aðstoð.

Mér skilst, að nú þegar hafi tekizt að semja um fjölda manna á togurunum. Ef það er rétt, eins og heimildarmenn mínir segja, er það í sjálfu sér mikið skref, af því að samningar um stærð áhafnar hafa verið allviðkvæmt mál um langt árabil. En það hefur ekki tekizt að semja um kjör þessara manna. Hæstv. ráðh. hefur nú skipað n. til að athuga málið, og hann hefur tekið þá ákveðnu afstöðu, að það skuli ekki ákveða neina aðstoð við þessi skip, fyrr en samið hefur verið. Ég vil benda á, að nauðsynlegt kunni að vera að gera sér grein fyrir því, hvort vitneskja um væntanlega aðstoð gæti ekki einmitt orðið til þess að leysa deiluna, en alger óvissa um, hve aðstoðin verður aukin mikið, geti frekar orðið til þess að draga deiluna á langinn. Um þetta kunna að verða skiptar skoðanir, en ég tel, að það sé lífsnauðsyn að velja þá leiðina, sem fyrr bindur enda á verkfallið, jafnvel þó að aðilar þurfi að fá tiltölulega fljótlega einhverjar, ef ekki endanlegar hugmyndir um, hvers konar viðbótaraðstoð togararnir geta átt von á.

Ég vil að lokum segja, að mér finnst það ærið mikil tíðindi að heyra frá munni núv. sjútvrh., að það sé aðeins álitamál, hvenær ríkið, — þar mun hann eiga fyrst og fremst við löggjafarvaldið, — á að grípa inn í vinnudeilu og leysa hana, — það er aðeins „álitamál“, þegar þessir menn sitja sjálfir í ráðherrastólum, en það var kallað ýmsum öðrum nöfnum, þegar þeir voru í stjórnarandstöðu og einstöku sinnum þurfti út úr neyð að grípa til slíkrar lausnar. Það er því athyglisvert að heyra, hvernig mennirnir breytast eftir því, hvar þeir sitja.

Hitt vil ég að lokum taka undir með hæstv. ráðh., að það er lífsnauðsyn að binda endi á þessa dellu og alveg óhjákvæmilegt, að endirinn verði þannig, að sjómenn á togurunum fái algerlega sambærileg kjör við það, sem aðrir íslenzkir sjómenn hafa, því að öðruvísi verður útilokað fyrir okkur að manna og hagnýta þau nýju tæki, sem við erum að kaupa fyrir nokkur þús. millj. um þetta leyti.