20.02.1973
Sameinað þing: 46. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2008 í B-deild Alþingistíðinda. (1561)

Umræður utan dagskrár

Sjútvrh. (Lúðvík Jósepsson):

Herra forseti. Það er aðeins örstutt leiðrétting, sem ég ætla að koma hér á framfæri.

Hv. 2, þm. Norðurl. e., Magnús Jónsson, taldi, að ég hefði hugsað mér að standa öðruvísi að lausn þessara samninga en ég hefði gert áður, t. d. varðandi bátakjarasamningana, og sagði, að í þeim efnum hefði ég fyrir hönd ríkisstj. veitt tiltekin loforð um ákveðinn stuðning við bátaútgerðina, til þess að hægt hefði verið að ná samningum um kjörin á bátaflotanum. Þetta er ekki rétt með farið hjá hv. þm. Samningar um launakjör á bátaflotanum voru gerðir fyrir ári. Ég tók þá talsverðan þátt í því að koma á lausn í þeirri deilu. Þá var samið um launakjörin á bátaflotanum. Forsvarsmönnum bátaútgerðarinnar datt þá ekki í hug að setja fram kröfu um það, þegar bátakjarasamningarnir voru gerðir þá til tveggja ára, að fá fyrir fram tryggingu fyrir því, hvað ríkissjóður kæmi til með að greiða þeim mikinn styrk eða hvaða tryggingar þeir ættu að fá frá ríkinu varðandi rekstur bátaflotans. Þannig hefur þetta alltaf verið, þegar um beina kjarasamninga hefur verið að ræða. Það, sem gerðist um síðustu áramót og hv. þm. Magnús Jónsson blandaði hér saman, var það, að verið var að ákveða fiskverð á komandi vetrarvertíð, — fiskverð, sem átti ekki að gilda aðeins fyrir bátaflotann í landinu, heldur einnig fyrir togaraflotann. Og í sambandi við samkomulag, sem þá varð á milli aðila, féllst ríkisstj. á að veita útgerðinni í landinu, — ekki aðeins bátaflotanum, heldur einnig togararekstrinum, — tiltekinn stuðning. Þetta var í sambandi við ákvörðun á fiskverði. En það, sem hér er um að ræða, virðist vera það, að forsvarsmenn togaraflotans í landinu vilji ekki gera almennan kjarasamning um grundvallarlaun sinna sjómanna án þess að fá samning við ríkið um leið um það, hvað ríkið eigi að borga mikið af rekstrarkostnaðinum. Ég tel, að í þessum efnum sé staðið rangt að málinu, og í engu tilfelli í sambandi við rekstraraðstöðu bátanna hefur verið staðið þannig að málunum.

Ég vil svara hér um leið þeirri spurningu, sem hv. þm. beindi til mín, hvort það væri ákveðið af hálfu ríkisstj. að veita skuttogurunum engan stuðning eða engan styrk. Engin slík ákvörðun hefur verið tekin. Þvert á móti gerum við að sjálfsögðu ráð fyrir því, þegar verður ákveðið að veita einhvern stuðning til togaraútgerðarinnar, að sá stuðningur hljóti að ná til skuttogaranna eins og annarra, þegar þar að kemur.

Það má vitanlega ekki tala um afkomu togaraútgerðarinnar í landinu án þess að gera sér grein fyrir því, að afkoman þar er auðvitað mjög mismunandi. Einstök skip í þessum hópi eru gerð út með allmyndarlegum hagnaði. Það sýna þeir reikningar, sem liggja fyrir. Önnur skip aftur eru gerð út með verulegum halla, og það eru sérstaklega viss skip eða skip af ákveðinni tegund, sem eru gerð út með mestum hallarekstri, af því að skipin eru orðin mjög gömul og kostnaðarsöm í rekstri og orðin óhentug. En í þessu tilfelli er verið að reyna að leggja rekstrargrundvöll fyrir skip, sem við höfum ekki haft hér í rekstri áður og búa við allt aðra rekstraraðstöðu en hin eldri skip. Það verða auðvitað uppi mismunandi sjónarmið um það. Einn álítur, að hin nýju skip eigi að hafa eitthvað meiri möguleika til þess að afla. Aðrir halda því hins vegar fram, að þau munu ekki afla meira en gömlu skipin gerðu og verði því að fá alveg samsvarandi styrk. Ég vil segja það um vissar hugmyndir, sem hér komu fram hjá hv. 4. þm. Austf. í sambandi við fyrirgreiðslu við hin nýju skip, að ég er á mjög svipaðri skoðun og hann í þeim efnum og er alveg opinn fyrir því að ræða um stuðning af því tagi í sambandi við rekstur þeirra skipa, þegar þar að kemur. En ég tel nú eins og áður, að það sé mjög óeðlilegt að blanda saman þessu atriði varðandi almenna rekstrarafkomu togaranna og því að leysa kjarasamningamálin, af því að þar ber raunverulega ekki svo mikið á milli. En við skulum vona, að að því komi samt, að aðilar að þessum samningum sjái að sér og reyni að finna lausn á þessum vandamálum, og sjálfsagt er, að aðstoð ríkisins komi til við það að leysa deiluna, eftir því sem kostur er á.