20.02.1973
Sameinað þing: 46. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2011 í B-deild Alþingistíðinda. (1563)

Umræður utan dagskrár

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Mér finnst, að það hafi komið fram þrjú merkileg efnisatriði í þessum umr.

Í fyrsta lagi hefur hæstv. sjútvrh. fullyrt, að það sé skoðun hans, að semja beri við togarasjómenn um hliðstæð kjör og aðrir sjómenn hafi. Þetta hefur komið fram mjög skýrt í ræðum hans.

Í öðru lagi hefur hæstv. ráðh. talað um, að það hljóti að koma til skjalanna viðbótarstyrkur frá ríkisvaldinu til rekstrar togaranna. Ef við lítum á þetta tvennt, annars vegar þá skoðun ráðh., hver kauphækkunin hljóti að verða, og hins vegar þá skoðun hans, að koma muni til nýs viðbótarstyrks, finnst mér þetta jaðra við loforð af hans hálfu um það, við hvað styrkurinn muni miðast, a. m. k. þessa kauphækkun sjómannanna, hvað sem um aðra liði verður að segja.

Í þriðja lagi hefur mér fundizt þessar umr. bera þess ljósan vott, að hér sé um að ræða deilu á milli ríkisvaldsins og togaraeigenda og það hljóti að verða þeir aðilar, sem leysa hana.