20.02.1973
Sameinað þing: 46. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2011 í B-deild Alþingistíðinda. (1564)

Umræður utan dagskrár

Bjarni Guðnason:

Herra forseti. Almenningur í þessu landi stendur nú frammi fyrir þeirri staðreynd, að þrjár gengisfellingar hafa átt sér stað í tíð núv. ríkisstj., sem þó hefur ekki setið lengur að völdum en sem svarar rúmlega einu og hálfu ári, og þrátt fyrir það, að í málefnasamningi stjórnarflokkanna sé tekið fram, að gengisfellingu muni ekki verða beitt til lausnar efnahagsvanda. Ég ætla ekki að fara að ræða sérstaklega þessar gengisfellingar í heild og áhrif þeirra á efnahagslífið og þjóðlífið, heldur langar mig að víkja nokkrum orðum að orsakasamhengi og skyldleika milli annars vegar gengisfellingarinnar í des. s. l. og hins vegar þeirrar gengisfellingar, sem var gerð í s. l. viku, og langar mig í því sambandi að beina tveimur eða þremur spurningum til hæstv. viðskrh. og jafnframt víkja örlítið að verðlagsþróuninni í landinu.

Þingheimi er það vel ljóst — (Forseti: Ég vil aðeins vekja athygli hv. fyrirspyrjanda á því, að fundur getur ekki haldið áfram lengur í dag en til kl. 4.30. Hann verður þess vegna að áætla sjálfur, hvaða tíma hann telur hæfilegan fyrir hæstv. viðskrh. til þess að svara sómasamlega því, sem hann ber fram. Það hefur ekki verið venja hér að neita mönnum um að taka til máls utan dagskrár, en það er ætlazt til þess, að þær umr. séu með öðru sniði en venjulegar umr.) Já, þetta skal tekið til greina. — Þingheimi er ljóst, hversu öndverður ég snerist við gengisfellingunni í des., af því að ég taldi, að gengisfellingin stafaði af innlendum orsökum og það vantaði raunverulega forsendur fyrir gengisfellingunni, ekki sízt vegna þess, að aflaverðmæti sjávarútvegsins hafði aukizt á árinu 1972 og veruleg verðhækkun hafði verið allt það ár á útfluttum sjávarafurðum á Bandaríkjamarkaði. Valkostanefndin benti á, að áætlað afurðaverð á Bandaríkjamarkaði á árinu 1973 hefði mestallt komið inn í verðlagið í des. 1972, þannig að allt útlit var á áframhaldandi verðhækkunum, sem stöfuðu vafalaust af skorti á fiski í Bandaríkjunum og einnig öðrum aðstæðum á úthöfum heimsins. Þess vegna kom það mér mjög þægilega á óvart, þegar hæstv. sjútvrh. lét þau orð falla á aðalfundi kaupmannasamtakanna, að því er mér hefur skilizt, að hann hefði ekki staðið að gengisfellingu, heldur valið aðra leið, ef honum hefði verið ljós sú verðhækkun, sem orðið hefur á útfluttum sjávarafurðum til Bandaríkjanna. Ég fagna mjög þessum ummælum, ef þau eru rétt, og ég vil óska eftir því, að sjútvrh. svari því hér, hvort hann hafi fellt þessi orð, hví að það kemur alveg heim við skoðun mína á þessum málum, og jafnframt lít ég svo á, að þá komi fram það, sem ég óttaðist, að þessi gengisfelling í des. væri mistök. Ef það er rétt, að gengisfellingin var ástæðulaus í des. um 11%, þá vaknar sú spurning í beinu framhaldi: Var þá ástæða til þess að fylgja dollarnum núna hvað varðar gengisbreytinguna? Og þá vaknar einnig sú spurning. hvort nauðsynlegt hafi verið að fylgja honum að öllu leyti.

Nú er kunnugt, að verðið á þorskblokkinni hefur hækkað um 10% frá áramótum, og það er í sjálfu sér meira virði en nokkur gengisfelling. Ef gengisfellingin hefði ekki verið gerð núna, a. m. k. ekki 10%, þá hefðu viðskiptakjörin batnað. Mestallur innflutningur kemur frá Evrópumarkaðinum, og þetta leiðir til gífurlegra verðhækkana innanlands. Um leið og ríkisstj. er að bæta aðstöðu útflutningsatvinnuveganna, blasir við sá mikli vandi, að verðbólgan virðist leika lausum hala hér í landinu og mér virðist fljótlega áætlað, að fram undan séu í íslenzku þjóðfélagi verulegar verðhækkanir og dýrtíð. Og þá er spurning til sjútvrh.: Hefur hann nokkurt hugboð um það, hver verður vöxtur framfærsluvísitölunnar á þessu ári fram til næstu áramóta og þá kaupgjaldsvísitölu um leið? Mér sýnist m. ö. o., að hér þurfi að spyrna við fótum, mynda sér einhverja heildarstefnu í efnahagsmálum og standa betur að þessu en hingað til hefur verið gert.

Ég vona, að hæstv. viðskrh. hafi fengið þessar spurningar.