20.02.1973
Sameinað þing: 46. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2017 í B-deild Alþingistíðinda. (1568)

161. mál, þjóðvegakerfið

Félmrh. (Hannibal Valdimarsson) :

Herra forseti. Hv. fyrirspyrjandi hefur bæði lesið þáltill., sem hér er grundvöllur fsp., og fsp. sjálfa, og styttir það mitt mál.

Þessi þál. var send vegamálastjóra 6. júní 1972 með svo hljóðandi bréfi:

„Ráðuneytið sendir yður hér með, herra vegamálastióri, í myndriti þál. um yfirlitsáætlun um fullnaðaruppbyggingu þjóðvegakerfisins samkv. vegal., og er þál. þessi samþykkt á Alþingi 16. maí 1972. Rn. felur yður hér með, eftir því sem unnt er nú, að gera það, sem þál. fjallar nm., þ. e. að láta á árinu 1972 gera lauslega yfirlitsáætlun um fullnaðaruppbyggingu þjóðvegakerfisins og kostnað við hann miðað við þá gerð vega, sem stefna her að samkv. 12. og 13. gr. vegal., nr. 98 frá 1970, og þá flokkun vega, sem upp verði tekin í vegáætlun fyrir árin 1972–1975.“

Þessu bréfi svaraði vegamálastjórinn 5. júlí 1972 á þennan hátt efnislega:

Í sambandi við tjáð fyrirmæli rn. leyfi ég mér að vekja athygli á því, að í umsögn um ofangreinda till. til þál. til allshn. Sþ., dags. 4. apríl s. l., sem rn. var einnig sent samrit af hinn 6. apríl, var tekið fram, að áætlaður kostnaður við gerð slíkrar yfirlitsáætlunar á yfirstandandi ári væri 2–3 millj, kr., þar sem bæta þyrfti við nokkru tímabundnu starfsliði til þess að koma verkinu í framkvæmd.

Þegar vegáætlun fyrir árin 1972–1975 var til lokameðferðar hjá fjvn. Alþ. í maímánuði s. l., benti ég n. á, að æskilegt væri að veita um 2 millj. kr., í vegáætlun til þess að gera þessa yfirlitsáætlun, en fullvíst var þá talið, að þál. þess efnis yrði samþykkt, eins og raun varð á. Þessi málaleitan fékk þó engar undirtektir í fjvn., og var því engin fjárveiting tekin upp í vegáætlun til þessarar áætlunargerðar.

Þar sem veruleg drög liggja fyrir um þá yfirlitsáætlun um heildaruppbyggingu vegakerfisins, sem ofangreind þál. fjallar um, þá tel ég mjög æskilegt, að slík yfirlitsáætlun verði gerð. Hins vegar tel ég mjög vafasamt, að unnt verði að ljúka því verki á yfirstandandi ári, þ. e. a. s. 1972, þó að fé væri fyrir hendi, þar sem ástand á vinnumarkaðinum er þannig nú, að erfiðleikar yrðu á því að fá til starfa tímabundið starfslið til þess að ljúka þessu verkefni á yfirstandandi ári. Ég tel hins vegar líklegt, að ljúka mætti verkinu síðla ársins 1973, að því tilskildu, að nauðsynlegt fé fáist til þessa, eins og að framan greinir, þ. e. a. s. 2–3 millj. kr.

Með vísun til þess, sem að framan greinir, leyfi ég mér að óska eftir nánari fyrirmælum rn. varðandi gerð þeirrar yfirlitsáætlunar, sem ofangreind þál. fjallar um.

Þessu bréfi vegamálastjórans svaraði ég 11. júlí 1972 með örfáum línum, þ. e. a. s. á þessa leið:

„Ráðuneytið vísar til bréfs yðar, herra vegamálastjóri, dags. 5. þ. m., varðandi þál. um yfirlitsáætlun um fullnaðaruppbyggingu þjóðvegakerfisins samkv. vegal. Fellst rn. á rök yðar fyrir því, að ekki verði unnt að ljúka þessari áætlunargerð fyrr en þá seint á árinu 1973. enda ekkert fé til hennar, eins og þér takið réttilega fram.“

Svar vegamálastjórans er á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Með ofangreindu bréfi rn, er fallizt á það sjónarmið, er ég setti fram í bréfi mínu til rn. um ofangreint mál hinn 5. þ. m., að eigi yrði unnt að ljúka gerð slíkrar yfirlitsáætlunar á yfirstandandi ári sökum þess, hve lítill tími er orðinn til stefnu og miklir erfiðleikar á því að fá til starfa tímabundið starfsfólk í slíkt verkefni. Hins vegar benti ég á, að ljúka mætti verki þessu síðla árs 1973, að því tilskildu. að fé yrði veitt til verksins. Þar sem kostnaður við þetta verk er áætlaður um 2 millj. kr. og ekkert fé er veitt til þess, hvorki í nýsamþykktri vegáætlun fyrir næstu 4 ár né í fjárl. yfirstandandi árs, leyfi ég mér að óska eftir ákvörðun rn. um það, hvort fresta skuli að öllu gerð þessarar áætlunar, þar til fé hefur verið veitt til verksins á fjárl. næsta árs, en ljóst er, að fé til verksins mun ekki fáist í vegáætlun fyrr en við endurskoðun hennar í árslok 1973 eða snemma á árinu 1974.“

Málið stendur þá í stuttu máli þannig, að þál. hefur ekki verið framkvæmd vegna þess, að engin fjárveiting hefur verið til að framkvæma hana, en upplýst, að kostnaður við verkið muni verða 2–3 millj. kr., og ekkert útlit fyrir, að þál. verði framkvæmd, nema fjárveiting að þeirri upphæð, 2–3 millj. kr., komi til, og gæti framkvæmdin þá fyrst orðið að veruleika á árinu 1974.