20.02.1973
Sameinað þing: 46. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2018 í B-deild Alþingistíðinda. (1569)

161. mál, þjóðvegakerfið

Fyrirspyrjandi (Gísli Guðmundsson) :

Herra forseti. Ég leyfi mér að þakka hæstv. ráðh. fyrir svarið, en hins vegar verð ég að láta í ljós vonbrigði mín út af því, að honum skuli ekki hafa tekizt að framkvæma yfirlýstan vilja Alþingis. Ég vil leyfa mér að benda á, það eru fordæmi fyrir því, að veittar hafi verið fjárupphæðir á fjáraukalögum til þess að framkvæma ályktanir Alþ. slíkar sem þessa. Hér er ekki um mikla fjárupphæð að ræða, en hins vegar verkefni, sem er ákaflega mikils um vert, að unnið verði. Ég vil nú vænta þess af hæstv. ráðh., að hann gefi vegamálastjóra jákvæð svör við því bréfi, sem hann las upp hér áðan, og að verkið verði framkvæmt á því ári, sem nú er að líða.