21.02.1973
Efri deild: 59. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2019 í B-deild Alþingistíðinda. (1571)

173. mál, verkfræðiþjónusta á vegum landshlutasamtaka sveitarfélaga

Flm. (Alexander Stefánsson) :

Herra forseti. Ég flyt hér ásamt 1. þm. Vestf. frv. til l. um verkfræðiþjónustu á vegum landshlutasamtaka sveitarfélaga. Frv. þetta er endurflutt frá síðasta þingi með nokkrum breyt.

1. gr. frv. hljóðar þannig: „Óski landshlutasamtök sveitarfélaga að koma á fót verkfræðiþjónustu í viðkomandi landshluta, sbr. 2. gr., sem þau hyggjast starfrækja á eigin vegum eða í samvinnu við starfandi verkfræðinga eða aðra aðila, skal ríkisvaldið veita aðstoð við stofnsetningu og rekstur slíkrar starfsemi, eins og segir í lögum þessum, enda sé viðunandi verkfræðiþjónusta að öðrum kosti ekki fáanleg í þeim landshluta.

2. gr. Verkfræðistofur á vegum landshlutasamtaka skulu hafa í þjónustu sinni verkfræðinga, tæknifræðinga og annað starfslið í því skyni að veita sveitarfélögum, fyrirtækjum og einstaklingum í landshlutanum þá verkfræðiþjónustu, sem fært þykir, sem og opinberum framkvæmdaaðilum, enda er þeim skylt að leita þjónustu slíkra verkfræðistofa, eins og frekast er unnt, við undirbúning og eftirlit með opinberum framkvæmdum. Enn fremur er heimilt að fela slíkri verkfræðistofu að vinna skipulagsstörf í viðkomandi landshluta í samráði við skipulagsstjórn ríkisins. Opinber framkvæmdaaðili, sem hefur á sínum vegum eigin starfsmann staðsettan í landshluta, skal fá aðstöðu fyrir slíkan starfsmann á verkfræðistofu, sem landshlutasamtök koma á fót samkv. lögum þessum.

3. gr. Fyrir þá verkfræðiþjónustu, sem veitt er, skal greiða samkv. viðurkenndri gjaldskrá fyrir slíka starfsemi.

4, gr. Verði komið á fót verkfræðiþjónustu, eins op um ræðir í þessum lögum, getur hún tekið að sér áætlanagerð fyrir Framkvæmdastofnun ríkisins gegn hæfilegri greiðslu eftir samkomulagi aðila, enda greiði stofnunin þá sem svarar 3/4 hlutum af árslaunum starfsmanns, sbr. lög um Framkvæmdastofnun ríkisins, nr. 93 frá 24. des. 1971, 31. gr.

5. gr. Ríkisvaldið veitir fjárhagsaðstoð við stofnsetningu og rekstur slíkrar verkfræðistofu, eins og hér segir: 1) 500 þús. kr. vegna stofnkostnaðar, í eitt skipti fyrir öll, hverjum þeim landshlutasamtökum, sem koma á fót verkfræðistofu. 2) Ábyrgist greiðslu á hálfum hluta rekstrarhalla verkfræðistofu, en þó aldrei meira en nemur hálfum hluta af launum og kostnaði við einn verkfræðing.

6. gr. Landshlutasamtök, sem hyggjast koma á fót verkfræðiþjónustu samkv. lögum þessum, skulu gera félmrn. grein fyrir fyrirætlun sinni og láta rn. í té áætlun um stofn- og rekstrarkostnað. Rekstraráætlun skal árlega senda félmrn. ásamt endurskoðuðum rekstrarreikningi fyrra árs. Skal rekstrarstyrkur sá, sem um ræðir í 5. gr., 2. lið, greiddur að fengnum slíkum ársreikningi. Félmrn. áætlar árlegan kostnað hins opinbera vegna stofnsetningar og rekstrar verkfræðiþjónustu á vegum landshlutasamtaka og fær á fjárl. hvers árs fjárveitingu í samræmi við það.

7. gr. „Lög þessi öðlast þegar gildi.“

Eins og fram kom hér áður, er þetta frv. endurflutt frá síðasta þingi, þar sem það var ekki endanlega afgreitt. Í Ed. var það samþ. og vísað shlj. til. Nd. með breytingum, sem flm. hafa nú tekið inn í frv. óbreyttar. Heilbr.- og félmn. Nd. skilaði shlj. nál., mælti með samþykkt frv. með þeim hreyt., er Ed. hafði samþ.

Við flm. væntum þess, að þar sem þetta frv. fékk vandlega skoðun þn. á síðasta þingi, fáist það endanlega samþykkt sem lög á þessu þingi.

Með stöðugt vaxandi verklegum framkvæmdum veldur það sveitarfélögum, fyrirtækjum og íbúum dreifbýlisins auknum erfiðleikum, óþægindum og kostnaði að þurfa að leita nánast því allrar verk- og tæknifræðiþjónustu utan síns byggðarlags. Þær eru ekki ófáar ferðirnar, sem fulltrúar sveitarfélaga, fyrirtækja og einstaklinga þurfa að fara til höfuðborgarinnar til þess að fá gerðan nauðsynlegan undirbúning fyrir ýmiss konar framkvæmdir á vegum slíkra aðila. Verkfræðiþjónusta staðsett í byggðarlaginu eða landshlutanum mundi spara ótalin skref og kostnað. Einnig má ætla, að tæknimenn, sem búsettir eru í viðkomandi landshluta, fái smám saman ómetanlega yfirsýn og þekkingu á hinum ýmsu vandamálum og viðfangsefnum viðkomandi svæðis. Þannig geta þeir að ýmsu leyti veitt betri þjónustu en fáanleg er hjá ókunnum aðilum.

Allt það, sem nú hefur verið talið, og fleira mælir með því, að hið opinbera stuðli á einhvern hátt að því, að verkfræðiþjónustu sé komið á fót í hinum ýmsu landshlutum, þar sem slík þjónusta er ekki fáanleg nú. Þessu hafa og þm. lengi gert sér grein fyrir, enda hafa verið lögð fram á Alþ. allmörg frv. um slíka verkfræðiþjónustu. Í flestum tilvikum hefur verið gert ráð fyrir því að hið opinbera komi á fót og starfræki slíka þjónustu. Í þessu frv. er hins vegar farin önnur leið. Gert er ráð fyrir, að landshlutasamtök viðkomandi svæðis hafi veg og vanda af stofnsetningu og rekstri verkfræðiþjónustu. Landshlutasamtökum hefur verið komið á fót um allt land, og hafa þau eflzt mjög verulega upp á síðkastið. Að þessu leyti hefur ástandið því breytzt, og virðist okkur flm. eðlilegra, að þau hafi veg og vanda af slíkri starfsemi, fremur en ríkisvaldið, hvort sem um er að ræða á eigin vegum samtakanna eða í samvinnu við starfandi verkfræðinga eða aðra aðila.

Hins vegar er vafasamt, að slík verkfræðiþjónusta beri sig, a. m. k. fyrst um sinn. Því er nauðsyn, að hið opinbera hlaupi undir bagga við stofnun og rekstur, þegar og þar sem nauðsynlegt reynist. Fyrst og fremst mundi slík verkfræðiþjónusta fá tekjur með greiðslum fyrir hin ýmsu verkefni, sem hún tekur að sér. Tryggja verður, að fyrir þau sé greitt samkv. viðurkenndri gjaldskrá. Sömuleiðis er nauðsyn, að opinberir aðilar noti slíka þjónustu, eins og þeir frekast geta. Vissulega getur í einstökum tilfellum verið um svo viðamikil og flókin verkefni að ræða, að verkfræðiþjónusta eða stofa geti ekki sinnt þeim, en í flestum tilvikum ættu verkfræðingar eða tæknifræðingar á viðkomandi landssvæði að geta veitt ómetanlega þjónustu við undirbúning opinberra framkvæmda. Þetta er nauðsynlegt, að opinberir aðilar skilji og noti sér umrædda þjónustu eins og frekast er kostur á.

Vegagerð ríkisins hefur staðsett verkfræðinga á sínum vegum í landshlutum og sýnt þannig virðingarverðan skilning á því máli, sem hreyft er með þessu frv. Það er ómetanlegt fyrir slíkan starfsmann að hafa aðgang að viðtækari verkfræðistarfsemi.

Í lögum um Framkvæmdastofnun ríkisins, er samb. hafa verið á Alþ., er gert ráð fyrir því, að Framkvæmdastofnun ríkisins greiði 3/4 hluta af launum starfsmanns, enda vinni hann að áætlunargerð fyrir stofnunina. Með þessu ákvæði er stefnt að aukinni tækniþjónustu í dreifbýlinu. Í þessu frv. er gerð tilraun til að efla slíka starfsemi, þannig að um alhliða þjónustu geti orðið að ræða.

Í 2. gr. frv. er breyt. frá fyrra frv., sem er þannig, að heimilt sé að fela slíkri verkfræðistofu að vinna skipulagsstörf í viðkomandi landshluta í samráði við skipulagsstjórn ríkisins. Þetta er sett inn í frv. vegna þeirrar reynslu, sem sveitarfélögin í landinu hafa af þessum bætti, sem verður þýðingarmeiri með hverju ári sem liður og er raunar grundvöllur fyrir eðlilegri uppbyggingu margra sveitarfélaga. En skipulags- og áætlunargerð byggjast fyrst og fremst á samstarfi manna með margs konar menntun og starfsreynslu. Umfang þessarar starfsemi er orðið slíkt, að sveitarfélögum landsins, nema örfáum þeim stærstu, er um megn að standa undir þeirri starfsemi, sem nútíma vinnuaðferðir krefjast. En þó að hér sé um sérhæfð störf menntamanna að ræða, er mikil nauðsyn, að þan séu í sem nánustum tengslum við þá, sem unnið er fyrir. Þessu verður ekki fullnægt með því, að þessi störf fari öll fram í stofnun eða stofnunum í höfuðborginni. Er því eðlilegt að stefna að því, að skipulagsstörf fari sem mest fram á vegum landshlutasamtaka sveitarfélaga í tengslum við íbúa og stofnanir landshlutans, en yfirstjórn þessara mála, eftirlit, samræming og tæknileg aðstoð verði í höndum ríkisins, þ. e. skipulagsstjórnar. Þetta fyrirkomulag getur orðið mjög virkt, og jafnframt því að velta sveitarfélögum betri og fljótvirkari lausn mála getur það fyrirbyggt á frumstigi misskilning og ágreining heimamanna og ríkisins.

Landshlutasamtök sveitarfélaga eru áreiðanlega heppilegur aðili til lausnar á verkefnum, sem nú eru í höndum ríkisins, og verkefnum, sem nú eru í höndum einstakra sveitarfélaga, og geta e. t. v. leyst sum þeirra mun betur en unnt hefur verið til þessa. Landshlutasamtökin skapa grundvöll fyrir margs konar þýðingarmikla opinbera þjónustustarfsemi úti á landi, sem hingað til hefur einungis verið á boðstólum í Reykjavík. Einnig skapa þau nýtt viðhorf til ýmiss konar opinbers rekstrar og opinberra framkvæmda, þar sem þau gera mögulegt, að starfað sé á mun víðari grundvelli og í stærri stíl úti á landsbyggðinni en unnt hefur verið til þessa. Landshlutasamtökin styrkja vissulega vonir um, að unnt verði að draga úr því mikla bili, sem orðið er á opinberri þjónustu og aðbúnaði af hálfu sveitarfélaga á milli höfuðborgarsvæðisins og annarra landshluta. Og síðast, en ekki sízt, munu landshlutasamtökin skapa grundvöll fyrir störf sérmenntaðra manna úti á landi og þannig með söfnun og kerfum upplýsinga ljá röddum landsbyggðarinnar kraft sannfæringar, þekkingar og víðsýni og um leið auka sjálfforræði byggðarlaga.

Herra forseti. Við flm. þessa frv. teljum, að með samþykkt þess verði stigið mikilvægt skref í þessa átt, um sé að ræða brýnt réttlætismál fyrir landsbyggðina. Vil ég vænta þess, að hv. alþm. skilji nauðsyn þess, að þetta mál nái fram að ganga á þessu þingi.

Ég legg til, að frv. verði að lokinni umr. vísað til félmn.