21.02.1973
Efri deild: 59. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2022 í B-deild Alþingistíðinda. (1573)

164. mál, aflatryggingasjóður sjávarútvegsins

Flm. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja ásamt fjórum öðrum hv. þdm., þ. e. Steingrími Hermannssyni, Jóni Árm. Héðinssyni, Jóni Árnasyni og Birni Jónssyni, frv. til l. um breyt. á 1. um aflatryggingasjóð sjávarútvegsins.

Hér er ekki um stóra breyt. að ræða á þeim lögum, en þetta er þó breyting, sem skiptir miklu máli fyrir þann litla hóp, sem breytingin varðar, en það eru sjómenn á opnum vélbátum. Í núgildandi l. um aflatryggingasjóð, 17. gr., eru ákvæði, sem fjalla um greiðslur til útvegsmanna vegna hluta af fæðiskostnaði lögskráningarskyldra sjómanna á fiskibátum. Þar segir, að á fiskibátum, sem eru 151 brúttósmálest að stærð eða stærri, skuli greiða 120 kr. á úthaldsdag og áhafnarmann, fyrir minni báta, sem þar eru nánar greindir, skuli greiða 100 kr. í úthaldsdag og áhafnarmann, en þegar um sé að ræða fiskibáta með þilfari, sem ekki hafa lögskráningarskyldu, þá segir, að greiða skuli 85 kr. á úthaldsdag áhafnarmanna. Á árinu 1971 var breyting gerð á þessum l. á þann veg, að bætt var við, að greiða skyldi hluta af fæðiskostnaði vegna opinna vélbáta einnig, en þeir höfðu áður verið útilokaðir. Ef menn bera saman þessi ákvæði, munu þeir taka eftir því, að þau eru samhljóða að öðru leyti en því, að í öllum fyrrnefndu tilvikunum er miðað við greiðslu fæðispeninga á úthaldsdag og áhafnarmann, en í því eina tilviki, þegar um er að ræða opna vélbáta, þá er miðað við róður og áhafnarmann.

Breytingin, sem fólgin er í frv., sem hér liggur fyrir, er sú ein, að fæðiskostnaður verði einnig á opnum vélbátum miðaður við úthaldsdag, en ekki aðeins hvern róður. Það er að vísu svo, að í býsna mörgum tilvikum af þessu tagi og kannske flestum, einkum hér sunnanlands og vestan, fellur þetta nokkuð saman á opnum vélbátum, róður og úthaldsdagar, því að róðrar standa ekki það lengi, að þeir teljist taka marga daga. En aftur á móti á Norður- og Austurlandi er þessu öðruvísi varið. Þar er nokkuð algengt, að 5–10 tonna opnir vélbátar fari langa róðra að sumrinu til. Þeir fara t. d. frá Siglufirði og út að Grímsey og liggja þar í nokkra daga, þeir fara að Flatey eða víðar um norðurslóðir, og þá getur hver róður gjarnan tekið 3–4 daga. En sjómennirnir fá aðeins borgaðan einn dag og eru þannig sviptir réttmætum greiðslum.

Rétt er að minna á í þessu sambandi, að sjómenn á opnum vélbátum greiða lögbundin framlög í aflatryggingasjóð eins og aðra sjóði, sem útgerðin greiðir til, og þarna er sem sagt raunverulega verið að taka af þeim fé, sem þeir hafa sjálfir aflað, hver sinni útgerð. Ég tel, að það sé fullkomið réttlætismál að fá á þessu breytingu.

Í fyrra var sams konar frv. flutt af mér og fyrrnefndum hv. þdm. Það var sent hér til n., síðan sent til fiskifélagsins, sem gerði nokkrar athugasemdir við það, sem síðan voru teknar til greina í sjútvn. og frv. afgreitt þannig frá Ed. til Nd. En einhvern veginn vildi svo til í Nd., að þetta litla mál, sem ekki lætur mikið yfir sér, kafnaði í annríki síðustu vikna þar og menn næstum því tóku ekki eftir því, að þetta mál var þar til meðferðar, og það náði sem sagt ekki afgreiðslu þar, þótt ekki væri vitað, að einn eða neinn væri andvígur málinu, og þó að Nd. hefði nokkrar vikur til að afgreiða bað. Ég vona, að sagan endurtaki sig ekki á þessu þingi, en málið komist fram, enda á það að liggja nokkuð ljóst fyrir nú, þar sem það var sent í fyrra til umsagnar öllum þeim aðilum, sem það varðar, og þyrfti því ekki að endurtaka það nú.

Ein breyting hefur verið gerð á frv. frá því í fyrra, að gert er ráð fyrir, að ráðh. sé heimilt að loknu eins árs reynslutímabili að binda með reglugerð það fyrirkomulag, sem hér er mælt með, þannig að ekki þurfi að flytja frv. um þetta efni á ári hverju. Í fyrra var gert ráð fyrir því, að reynslutímabilið stæði frá 1. maí til 30. sept. 1972 og að loknu því reynslutímabili yrði málið skoðað að nýju og væntanlega flutt nýtt frv. um málið. En hér er lagt til, að reynslutímabilið verði í sumar frá 1. maí til 30. sept. og að loknu því reynslutímabili og að fengnum meðmælum Fiskifélags Íslands sé ráðh. heimilt að ákveða, að fæðiskostnaður verði framvegis greiddur í sambandi við ákvæði þessarar greinar á fyrrnefndu tímabili, hann geti ákveðið það sem sagt með reglugerð.

Mér sýnist, að efni þessa frv. þarfnist ekki frekari skýringa, og legg til, að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til 2. umr. og hv. sjútvn.