21.02.1973
Efri deild: 60. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2024 í B-deild Alþingistíðinda. (1576)

178. mál, dómsmálastjórn í Vestmannaeyjum

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Hér er um mjög einfalt mál að ræða. Það er um breyt. á l., sem hér voru sett ekki fyrir alllöngu um bráðabirgðabreytingar á dómsmálastjórn í Vestmannaeyjum, en eins og menn rekur minni til, voru ákveðnir ýmsir frestir í þeim lögum, og var þar miðað við 22. febr. 1973. Það hefur sýnt sig, að þessir frestir hafa ekki reynzt nægilega langir. Það hefur ekki tekizt að koma högum manna vegna atburðanna í það horf, sem æskilegt má telja. Þess vegna þykir nauðsynlegt að framlengja þessa fresti, sem eru í fyrrnefndum lögum, og fresta réttaráhrifum, sem þar var um að ræða, um einn mánuð til viðbótar, þannig að frestirnir, er í lögunum frá 31. jan. voru settir til 23. febr., verði settir til 23. marz.

Þetta frv. er flutt samkv. ósk stjórnar Viðlagasjóðs, og í því felst, eins og ég sagði, herra forseti, einföld breyting. Það er aðeins um mánaðarframlengingu á þessum frestum að ræða. Það er hins vegar nauðsynlegt, að það gerist nú, að þessi framlenging eigi sér stað.

Ég sé ekki, að efni málsins gefi tilefni til þess, að þetta frv. fari í n., og þess vegna geri ég ekki till. um það, heldur óska eftir því, að því verði vísað til 2, umr. og það gæti svo fengið áframhaldandi meðferð hér í d. á eftir. En ef einhver ósk kemur fram um nefndarmeðferð, er vitaskuld sjálfsagt að verða við því.