21.02.1973
Neðri deild: 53. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2031 í B-deild Alþingistíðinda. (1588)

Umræður utan dagskrár

Garðar Sigurðsson:

Herra forseti. Ég vil byrja á að lýsa því yfir, að ég get tekið fyllilega undir það, sem hv. 1. þm. Austf. sagði hér áðan um hlut forsrh. í þessu máli. Ég er dálítið undrandi á hæstv. forsrh. í rauninni að taka alvarlega slík skrif eins og Mogginn og Alþýðublaðið hafa uppi í þessu máli, og það vita allir — (Fosrh.: Ég tek alvarlega öll skrif í sambandi við þetta mál.) Fleira að segja úr þessum blöðum? Já. En það vita allir, að þeir hafa notað hvert einasta tækifæri og búið sér til tækifæri til þess að þyrla upp pólitísku moldviðri jafnvel í svo alvarlegu máli sem þetta eldgosmál er og notað sér það til að kasta skít í einstaka menn að ástæðulausu og ekki sízt þm. og ráðh. Slík skrif eru að mínu áliti varla svaraverð, enda hefur það lengi verið sómi fyrir mann að vera skammaður eða borin lygum í Morgunblaðinu, svo að ég tali nú ekki um Alþýðublaðið, eins og það er orðið nú. Nóg um þetta.

Ég get ekki látið hjá líða sem þm. úr Vestmannaeyjum að lýsa yfir innilegu þakklæti mínu og íbúa míns byggðarlags fyrir svo stórhöfðinglega gjöf sem frændþjóðir vorar hafa nú innt af hendi. Þarna kemur fram í verki sá bróðurhugur og hjálparvilji, sem gekk vissulega langt fram yfir það, sem flestir gátu ímyndað sér, að orðið gæti.