21.02.1973
Neðri deild: 53. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2031 í B-deild Alþingistíðinda. (1589)

152. mál, ferðamál

Félmrh. (Hannibal Valdimarsson) :

Herra forseti. Frv. um ferðamál er samið af n., sem rn. skipaði 2. febr. 1972 og fól að endurskoða gildandi lög um ferðamál, lög nr. 4 frá 1969. Endurskoðunin skyldi gerð með sérstöku tilliti til endurskipulagningar og uppbyggingar á starfsemi ferðamálaráðs og Ferðaskrifstofu ríkisins. Í n. voru þrír menn, Brynjólfur Ingólfsson ráðuneytisstjóri, sem var skipaður formaður n., Heimir Hannesson lögfræðingur og Lúðvík Hjálmtýsson framkvæmdastjóri ferðamálaráðs.

Það er tilgangur þessa frv. að koma á skipulegri vinnubrögðum en verið hafa og viðhöfð hafa verið í ferðamálum okkar Íslendinga, bæði varðandi ferðalög landsmanna sjálfra og útlendra manna, sem til landsins koma, og einnig að auka hlutdeild Íslendinga í alþjóðlegum ferðamálum að því marki, sem þjóðhagsleg hagkvæmni og umhverfisverndarsjónarmið leyfa. Þetta er allmikill lagabálkur, 34 greinar og í 6 köflum, og til skýringar á einstökum málsatriðum varðandi frv. eru birt 9 fskj. með margvíslegum upplýsingum.

Það er öllum kunnugt, að ferðalög færast nú mjög í vöxt innan einstakra landa og landa í milli. Þetta er vafalaust vitnisburður um batnandi efnahag hjá miklum hluta mannkyns, en sérstaklega er þetta afleiðing af stórbrotnum framförum í samgöngumálum, ekki hvað sízt að því er varðar samgöngurnar í lofti. Fjármagn, sem bundið er við ferðamál í heiminum, er gífurlegt. Það eru t. d. upplýsingar um það, að bandarískir ferðamenn verji 2335 millj. dollara árið 1971 til ferðalaga eða tæplega 190 milljörðum ísl. kr., og þar af er talið, að 1373 millj. dollara séu í sambandi við ferðalög Ameríkumanna í Evrópu eða yfir 120 milljarðar ísl. kr. Er talið, að ferðamálin aukist að meðaltali um 12% á ári, en meðalútflutningur aukist aðeins um tæp 8%, og gefur þetta sína hugmynd, þegar samanburður er gerður á þessu tvennu. Ferðamál eru því orðinn þýðingarmikill þáttur í efnahagslífi flestra þróaðra þjóða, og ber því að gefa þessum málaflokki gaum, því að ekki er hann síður í framþróun í landi okkar en annars staðar í heiminum.

Þegar rætt er um ferðamál, er ekki einungis um þær fjárupphæðir að ræða, sem beint ganga í gegnum greipar ferðafólksins og til ýmiss konar aðila í þjóðfélaginu, heldur hefur ferðamennska geysivíðáttumikil gagnverkandi áhrif í þjóðfélögum. Þar þarf ekki að nefna nema auknar tekjur flugfélaga, sem þessi mál skipta mjög, skipafélaga, gisti- og veitingastaða, ferðaskrifstofurnar og þeirra starfsemi og svo bein og óbein áhrif á gjaldeyrisstöðu þjóðfélaganna almennt. Bandarískar skýrslur segja, að það hafi komið í ljós við rannsóknir í Bandaríkjunum, að markfeldisáhrif hvers dollara, sem ferðamaðurinn eyðir, séu sjöföld í efnahagskerfinu. Einnig kemur það til varðandi okkur Íslendinga, að þessi þróun ferðamálanna gerir okkur nokkru léttara að halda uppi allsómasamlegu samgöngukerfi, og á ég ekki hvað sízt við okkar myndarlegu flugfélög, sem mjög eru í þjónustu ferðamálanna.

Það er ekki því að neita, að ýmsir bera beyg í brjósti við sívaxandi ferðamannastraum á Íslandi og hafa um það jafnvel stór orð og eru andvígir því, að nokkuð sé gert til þess að efla ferðamál hér á landi. Ég skal ekki synja alveg fyrir, að það geti verið hætta, sérstaklega fyrir fámenna þjóð, að hleypa óskipulagsbundnum ferðamannastraumi yfir land sitt. En hættan liggur aðallega í því, að þetta gerist óskipulagsbundið. Undir þeim kringumstæðum get ég á það fallizt, að nokkurn varhug beri að gjalda við vexti ferðamálanna. En ef þessum straumi er mætt að fyrirhyggju og skipulögðum vinnubrögðum beitt, álít ég, að hér sé ekkert að óttast, heldur bókstaflega um það að ræða, að möguleikar séu til þess að efla einn merkan þátt íslenzks atvinnulífs, sem við eigum alls ekki að bægja frá okkur.

Þetta frv. byggir nánast á því, að Íslendingar eigi að vera stoltir af því að sýna erlendu ferðafólki hina margbreytilegu náttúru Íslands og gleðjast með erlendum mönnum yfir því að njóta töfra okkar náttúrufegurðar. En allt þetta verður að vera innan þeirra marka, sem eðlileg umhverfisvernd heimtar. Atvinnulíf okkar er einhæft, því neitar enginn, og menn hafa hingað til aðallega fest vonir við það, að auknum fjölda fólks á vinnumarkaði frá ári til árs verði sérstaklega mætt af efldum iðnaði. Menn gera sér ljóst, að okkar gömlu undirstöðuatvinnuvegir, sjávarútvegur og landbúnaður, bæta afköst sín að vísu, en þeir bæta ekki við sig mannafla þrátt fyrir það frá ári til árs, heldur hefur fækkað mannafla í þjónustu þessara atvinnugreina á undanförnum áratugum. Það er þá iðnaðurinn sem tekur við vinnuaflinu. En hér er óneitanlega um atvinnumöguleika að ræða að því er snertir ferðamálin. Ferðamálin geta áreiðanlega á komandi árum, ef vel er á haldið, tekið á móti allmiklum fjölda af því fólki, sem við bætist á vinnumarkaði frá ári til árs.

Það hefur verið sáralítið, sem gert hefur verið af opinberri hálfu til eflingar ferðamála hér á landi. Samt sem áður hefur ferðamennska hér, Íslendinga sjálfra og erlendra manna, aukizt mjög ört meira að segja. Íslenzkar skýrslur sýna, að á árinu 1971 komu hingað um 61 þús. ferðamenn, og voru þá farþegar á skemmtiferðaskipum ekki meðtaldir, en þeir munu hafa verið um 10 þús. Þá væri um að ræða yfir 70 þús. manns, sem hefðu heimsótt Ísland, ef skemmtiferðaskipin væru meðtalin. Þessi tala sýndi aukningu frá árinu á undan, sem nam 14.8%. Skýrslur eru ekki til enn um heildarniðurstöður ársins 1972, en fram til loka okt. á því ári nam tala erlendra ferðamanna, sem hingað komu, 63 800, og aukningin það ár var 13.4%, miðað við sama tíma árið á undan. Meðalaukningin síðustu ár hefur stundum farið upp í 15%.

Hafði íslenzka þjóðfélagið nokkrar verulegar tekjur af þessum ferðamannastraumi? Jú, gjaldeyristekjur af ferðamannaþjónustu námu á árinu 1971 alls 1223 millj. kr., sem eru 9.3% af heildarútflutningsverðmæti Íslendinga það ár, sem mun hafa verið 13 200 millj. kr. Þetta sýnir okkur svart á hvítu, að hér er í raun og veru komin ný atvinnugrein, sem hefur nú þegar verulega þýðingu fyrir efnahagslíf okkar, er komin við hliðina á okkar höfuðatvinnuvegum, sjávarútvegi, landbúnaði, iðnaði og verzlun, og alls ekki ómerkilegur vísir nú þegar.

Þegar lög voru sett 1964 um ferðamál, voru ákvæði í því frv. um það, að hver sá, sem ætlaði að stofna ferðaskrifstofu, yrði að leggja fram 200 þús. kr. sem tryggingafé. Þannig var ákvæðið í frv., þegar það var lagt fram. Þessa upphæð taldi Alþ. þá of lága og hækkaði hana upp í 350 þús. kr. En fljótt kom í ljós, að þessi upphæð var allt of lág. Það gerðist einmitt um þessar mundir, að tvær íslenzkar ferðaskrifstofur urðu gjaldþrota, og sást þá, að tryggingaféð hrökk ekki til. Var þá gerð breyt. á l., ég hygg á árinu 1968, um það, að tryggingafé ferðaskrifstofu skyldi ekki vera lægra en 1.5 millj. kr. Í þessu frv. er sú upphæð hækkuð enn, og skilyrði fyrir því, að einstaklingur eða samtök geti stofnað ferðaskrifsofu, eru nú 3 millj. kr. ábyrgðarfé. Ég held, að þetta sé nauðsynleg öryggisráðstöfun, þó að mönnum finnist kannske upphæðin nokkuð há, því að íslenzkum ferðamálum er það mikill hnekkir, ef ferðaskrifstofur verða gjaldþrota og geta ekki staðið við skuldbindingar sínar. Auk þess þurfa þau að vera undir allöruggu eftirliti samgrn., og er einnig ákvæði um það í þessu frv.

Menn halda kannske, að þetta frv. miði að því að búa til eitthvert nýtt bákn. Það á að vísu að stofna Ferðamálastofnun Íslands, en hún er mótuð upp úr ferðamálaráði, núv. 9 manna ferðamálaráði, og Ferðaskrifstofu ríkisins, og er ekki miðað við, að þarna verði um aukinn mannafla að ræða eða báknið, sem menn mundu helzt óttast, verði á neinn hátt aukið. Ferðamálastofnun Íslands samkv. þessu frv. kemur nánast í stað Ferðaskrifstofu ríkisins og núv. skrifstofu ferðamálaráðs.

Ferðamálaráð er ólaunuð stofnun. Þeir 9 menn, sem starfa í ferðamálaráði, hafa starfað án launa og innt af hendi mjög gott og merkilegt starf. Eitt af því fyrsta, sem ferðamálaráð gerði, var að athuga og undirbúa áætlunargerð um framtíðarþróun íslenzkra ferðamála. Upp úr þeirri athugun kom það, að prófessor við Verzlunarháskólann danska, Ejler Alkjær að nafni, var ráðinn til að gera áætlun um þróun íslenzkra ferðamála. Þetta gerði hann, og þessi maður hafði góðar forsendur til að geta unnið þetta verk, því að hann hafði áður starfað sem ferðamálasérfræðingur fyrir Sameinuðu þjóðirnar. Hann upplýsti, þegar hann var að starfa hér, að Sameinuðu þjóðirnar hefðu í einstökum tilvikum styrkt gerð slíkra ferðamálaáætlana. Þessu máli var svo hreyft við Sameinuðu þjóðirnar, og var á það fallizt, að á þeirra vegum yrði prófessor Alkjær sendur hingað til lands og skyldi gera úttekt á íslenzkum ferðamálum og undirbúa slíka áætlunargerð. Þessi för Alkjærs var kostuð að verulegu leyti af þróunarsjóði Sameinuðu þjóðanna.

Prófessor Alkjær skilaði síðan skýrslu til Sameinuðu þjóðanna á árinu 1969, og var þessi skýrsla hans samin í nánu samstarfi við formann ferðamálaráðs. Prófessor Alkjær lætur þær skoðanir í ljós í skýrslu sinni, að Ísland eigi mikla framtíðarmöguleika sem ferðamannaland, en leggur áherzlu á, að eins og nú sé háttað sé ferðamannatímabilið hér á landi allt of stutt og þess vegna beri fyrst og fremst að vinna að því að lengja ferðamannatímann ár hvert. Hann leggur því til, að fyrst verði gerð áætlun um eflingu fjögurra þátta í íslenzkum ferðamálum: athuga möguleika Íslands til alþjóðlegs ráðstefnuhalds, kanna möguleika Íslands til stangveiði í ám og vötnum og sjó, gera athugun á möguleikum Íslands í sambandi við jarðhitann, um uppbyggingu heilsuhæla, og síðast, en ekki sízt hagnýta skíðamöguleika, vetraríþróttamöguleika Íslands í þjónustu ferðamálanna. Lagði prófessor Alkjær til, að áherzla yrði lögð á að kanna og efla þessa fjóra þætti, og er álit flestra, sem um málin hafa hugsað, að með þessu sé stefnt í rétta átt. Prófessor Alkjær lagði til, að gerðar yrðu tvær ferðamálaáætlanir fyrir Ísland, önnur skammtímaáætlun, sem miðaði við tvö ár, en hin 8 ára áætlun, þ. e. a. s. þessar áætlanir áttu að ná yfir næsta áratuginn. Hann taldi líklegt, að Sameinuðu þjóðirnar mundu veita styrk til þess að undirbúa og gera slíka áætlun. Síðan var þeirri hugmynd komið á framfæri við fulltrúa Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum, og hafa Sameinuðu þjóðirnar fallizt á að veita Íslandi 140 þús. dollara í því skyni að vinna slíka ferðamálaáætlun. Öllum þeim meginþáttum, sem prófessor Alkjær lagið til, að skyldu felast í slíkri áætlun, hefur verið haldið, þ. e. a. s. að kanna fyrst og fremst notkun heita vatnsins til heilsuhæla, í öðru lagi notkun á vötnum og ám og sjó til sportveiði, í þriðja notkun skíðalanda til vetraríþrótta og loks notkun fundaaðstöðu fyrir minni háttar ráðstefnur og einkum þá í sambandi við vörusýningar.

Þetta eru fjórir meginþættir í þeirri könnun, sem síðan hefur farið fram undir forustu fulltrúa frá Sameinuðu þjóðunum og er nú í gangi og stendur til, að skili lokaskýrslu í næsta mánuði eða ekki seinna en í aprílmánuði.

Af opinberri hálfu hefur ekki verið lagt fram neitt verulegt fé til eflingar ferðamálanna. Ferðamálasjóður er að vísu til, en hann er mjög vanmegnugur að lyfta því Grettistaki, sem hér þarf að lyfta, ekki aðeins um byggingu hótela og gistihúsa, heldur margs konar aðra nauðsynlega fyrirgreiðslu í þágu ferðamála, sem hér þyrfti að koma til. Meiri hlutinn af þeim lánum, sem ferðamálasjóður hefur getað veitt, hefur verið endurlán. Flest lánin hafa verið veitt með gengistryggingu, fengið að láni erlent fé, og gengistrygging hefur orðið að fylgja þessum lánum. Hafi hins vegar féð verið innlent, hafa það verið vísitölutryggð lán. Hvor tveggja þessi lán til ferðamálanna hafa verið næsta óhagkvæm þeim, sem hafa þurft að taka þau, einkanlega þegar til þess er horft, að hótelin og gistihúsin hér á landi hafa eins örskamman starfstíma ár hvert og þau hafa. Fjárhagur þeirra er því erfiður og þeim mjög örðugt um að sæta svo óhagstæðum lánskjörum. Fyrst framan af var framlag ríkissjóðs á fjárlögum til ferðamálasjóðs aðeins 1 millj. kr. á ári, en nú tvö síðustu árin hefur ferðamálasjóður fengið frá ríkinu 5 millj. kr. Má af þessu sjá, að geta hans er næsta lítil.

Nýlega hefur komið fram till. um nokkuð varanlega fjáröflun í þennan sjóð. Till. hefur verið könnuð allrækilega og borin undir ýmsa þá aðila, sem málið snertir, og er það almennt álit flestra, að hér sé á ferðinni allsjálfsögð fjáröflunaraðferð. En hún er sú, sem nú skal greina.

Fyrir tæpum áratug reyndist nauðsynlegt að gera breytingar á lögum um skemmtanaskatt, þar sem sýnt þótti, að skatturinn innheimtist ekki eins og skyldi. Vegna galla á innheimtunni misstu félagsheimilasjóður og þjóðleikhús af tekjum, sem skemmtanaskattslöggjöfin gerði þó ráð fyrir. Með breytingunni var ákveðið að taka upp svokallað rúllugjald í þeim veitinga- og samkomuhúsum, þar sem vínveitingar voru um hönd hafðar. Rúllugjaldið var þá ákveðið 25 kr. og skiptist þannig, að 8 kr. fóru í skemmtanaskatt, 2 kr. skyldu renna í menningarsjóð og 15 kr. skyldu renna til veitingahússins sem fastagjald og vera eins konar þóknun fyrir að annast þessa innheimtu. Þetta gjald hefur síðan staðið óbreytt í heilan áratug. En fjáröflunarleiðin fyrir ferðamálasjóð er í því fólgin, að þetta gjald verði nú hækkað í 100 kr. og skuli skiptast þannig, að skemmtanaskatturinn hækki um helming og verði 16 kr., gjaldið í menningarsjóð hækki einnig um helming og verði 4 kr. og hluti veitingahússins hækki sömuleiðis um helming og verði 30 kr., en í ferðamálasjóð renni 60 kr. eða helmingur gjaldsins. Ég held sjálfur, að það sé engin fjarstæða að hækka þetta gjald nú í 100 kr., þar sem það hefur staðið óbreytt í fullan áratug, og mér finnst ekki óeðlilegt, að af því fé, sem fólk eyðir til skemmtana sinna, komi nokkurt skattgjald til að efla ferðamálasjóðinn. Í raun og veru væri ekki meira að gert með þessari fjáröflun en að gera ferðamálasjóð starfhæfan og geta veitt fleiri þáttum ferðamálanna en aðeins gistihúsa- og hótelbyggingu nokkra lánsmöguleika og þá væntanlega einnig með nokkru hagfelldari kjörum en hann hefur getað veitt lán hingað til.

Ég vék að því áðan, að raddir hefðu heyrzt um það, jafnvel úr hópi alþm., að sú athugun, sem nú fer fram á framtíðarmöguleikum íslenzkrar ferðaþjónustu, beinist að því að laða sem allra flesta erlenda ferðamenn til landsins, eða eins og það hefur jafnvel verið orðað, miðist við að sökkva íslenzku þjóðinni í erlendan ferðamannastraum, svo að jafnvel verði ekki rúm fyrir landsmenn sjálfa í landinu. Þetta hef ég m. a. séð á prenti frá þeim, sem eru hræddir við eflingu íslenzkra ferðamála. Meira að segja hefur verið reiknað langt fram í framtíðina, hvaða ótölulegur grúi komi hingað eftir nokkra áratugi og þjóðin þannig alveg komin í skuggann. Ég held, að við getum ekki séð fram í tímann lengra en fram til 1980 eða 1985 kannske, og þær tölur, sem koma þá út, þó að vöxturinn verði 12–14%, eru ekkert svimháar. En svo mikið er víst, að ef eitthvað er verulega að gert til eflingar íslenzkra ferðamála, þá aukast að sama skapi þær gjaldeyristekjur, sem þjóðin hefur af erlendum ferðamönnum, og þó að ekki sé farið út yfir nein óhófleg mörk, getur það orðið um að ræða gjaldeyristekjur, sem munar þjóðina verulega í þjóðarbúskapnum.

Þær ógnvekjandi tölur, sem nefndar eru í sambandi við vöxt ferðamála hér á landi af þeim, sem eru hræddir við aukningu ferðamála, eru alrangar að minni hyggju og annaðhvort fram settar af þekkingarskorti þeirra eða jafnvel gegn betri vitund.

Athugunin, sem nú fer fram í sambandi við aðstoð frá Sameinuðu þjóðunum, beinist að því og því einu, hvernig unnt sé að lengja hið árlega ferðamannatímabil hér á landi og tryggja þannig betur fjárhagslegan grundvöll þeirra fyrirtækja og stofnana, sem starfa í þjónustu ferðamálanna. Nú er ferðamannatíminn aðallega hásumarið, nánar tiltekið mánuðirnir júní, júlí og ágúst, og þar með að mestu leyti búið. En þennan tíma mætti lengja með því að efla þá þætti, sem hér hefur verið um rætt. Ráðstefnur eru haldnar á öllum tímum árs og alls ekki einungis bundnar við sumarið, þótt að nokkru leyti komi þær einnig um sumarmánuðina. Heilsuhælin væru stofnanir, sem væru reknar allt árið í tengslum við jarðhitaaðstöðu okkar. Þar væri um að ræða böð, heit og köld böð, í söltu vatni eða ósöltu. Slík starfsemi hefur orðið ýmsum þjóðum geysilegur tekjuauki. Nefnum t. d. Tékka í þessu sambandi, og fleiri þjóðir hafa sínar heimskunnu heilbrigðisstofnanir í sambandi við jarðhita. Það er álit manna, að Ísland hafi einhver hin beztu skilyrði á þessu sviði. Nokkur skilyrði hljótum við að hafa í sambandi við vetraríþróttir, þó að við getum kannske ekki þar mælt okkur við lönd eins og Noreg eða Sviss, en þó eitthvað þar í áttina.

Við eigum ekki að sýna þessum málum tómlæti. Við munum ekki heldur leggja neitt ofurfjármagn þessum málum til eflingar, en við eigum að sinna þeim, það er sannfæring mín, og við eigum að sinna þessum þáttum, sem Sameinuðu þjóðirnar eru að láta kanna fyrir okkur og með okkur.

Það mun vera álit þeirra erlendu sérfræðinga í ferðamálum, sem á þessi mál hafa litið, að hér sé engu í voða stefnt með 12% árlegri aukningu erlendra ferðamanna. Það telja þeir vera hæfilega þróun þessara mála. Ef þetta tekst fram til ársins 1980, mundi það þýða, að við tækjum hér á móti 150–160 þús. ferðamönnum á ári, og til þess þurfum við, ef við eigum að gera það á myndarlegan hátt, að gera ýmiss konar ráðstafanir, því þýðir ekki að neita. Nú er ferðamannastraumurinn um 60–70 þús. manns. Enn fremur er það álit hinna erlendu ferðamálasérfræðinga, að ef við gerum ekkert til eflingar ferðaþjónustunni, muni verða hér stöðnun á þessu sviði ekki seinna en um 1976, eftir 3–4 ár, og þá mundum við ekki verða færir um að taka á myndarlegan hátt á móti fleiri en um 80 þús. manns.

Ég skal taka það fram, að endanlegar tölur eða niðurstöður af könnun Sameinuðu þjóðanna liggja ekki fyrir, en von er á þeirri skýrslu í næsta eða þar næsta mánuði, í marz eða apríl.

Það er sem sé skoðun mín, að þó að þetta frv. stefni að skipulegri eflingu ferðamála, sé ekki ástæða til að óttast, að með því séum við að hleypa svo stríðum straumi erlendra ferðamanna yfir landið og þjóðina, að neinn háski stafi af.

Þó að mér hafi orðið nokkuð tíðrætt um þetta mál, sem ég tel allmerkilegt mál, og ég tel, að endurskoðunin á gildandi löggjöf hafi verið myndarlega framkvæmd og stefni til bóta á allan hátt, þá vil ég nú nefna í sambandi við hinar einstöku gr. frv. helztu atriðin, sem þar horfa til breytinga.

Í 1. gr. er lýst tilgangi frv. og tekið fram, að við þróun og skipulagningu ferðamála skuli bæði hafa hliðsjón af þjóðhagslegri hagkvæmni og umhverfisvernd. Að öðru leyti skýrir gr. sig sjálf.

Í 2. gr. er ákveðið, að samgrn. fari með yfirstjórn ferðamála, svo sem verið hefur og er ákveðið í gildandi löggjöf.

Í 3. gr. frv., sem fjallar um Ferðamálastofnun Íslands, er tekið fram, að hún skuli fara með stjórn ferðamála undir yfirstjórn samgrn.

Stofnunin verður til við sameiningu Ferðaskrifstofu ríkisins og starfsliðs ferðamálaráðs, en það er, eins og nú standa sakir, skipað 9 mönnum. Verkaskipting milli þessara tveggja aðila hefur ekki verið nægilega skýr, en hér er reynt að bæta úr því. Einnig er með ákvæðum þessarar gr. verið að stuðla að aukinni hagkvæmni í störfum með þessari sameiningu. Þetta er m. a. gert með fullu samráði við formann ferðamálaráðs, sem var einn af þeim þremur mönnum, sem endurskoðuðu löggjöfina.

Í 4. gr. er lagt til, að Ferðamálastofnun Íslands verði sett sérstök stjórn skipuð 5 mönnum. 3 þessara manna verði skipaðir af samgrh. Gert er ráð fyrir, að einn þeirra sé úr hópi fastra starfsmanna samgrn., tilgangurinn er að tryggja sem nánast samband og samstarf milli rn. og stofnunarinnar, en 2 stjórnarmannanna skulu skipaðir eftir tilnefningu ferðamálaráðs, en um skipun þess er aftur rætt í 9. gr.

5. gr. fjallar um ferðamálastjóra, og segir þar, að í embætti ferðamálastjóra séu samkv, gr. sameinuð störf núv. forstjóra Ferðaskrifstofu ríkisins og framkvstj. ferðamálaráðs, auk nýrra verkefna, sem þessi maður á að hafa. Rétt þykir að taka fram í l., að ferðamálastjóri geti ekki átt sæti í stjórn Ferðamálastofnunar Íslands, enda ekki talið fara vel á því, að framkvæmdastjórinn sé einnig í þeirri stjórn, sem gefur honum fyrirmæli um verkefni. — Þetta er efnið í fyrstu tveimur köflum frv.

Þá er III. kaflinn um ferðamálafélög, ferðamálaþing og ferðamálaráð. Ferðamálafélögin eru orðin allmörg hér á landi og vinna að minni hyggju allmerkilegt starf. Þetta er sjálfboðavinna áhugamanna í hinum einstöku héruðum, og er gert ráð fyrir að lögfesta verksvið þeirra í þessu frv. Síðan gildandi lög um ferðamál voru samin, hafa ferðamálafélög risið mjög víða upp. Þetta eru samtök einstaklinga og sveitarfélaga og ýmissa annarra aðila, sem vilja vinna að bættri aðstöðu fyrir ferðafólk á því svæði, sem heyrir undir hvert þeirra um sig. Tvö elztu ferðamálafélögin eru félagið í Reykjavík og félagið á Akureyri, og hefur hvort um sig innt af hendi, eins og ég áðan sagði, og eins mörg fleiri, mjög merkilegt sjálfboðastar! Þessi kafli fjallar eingöngu um ferðamálafélögin og samstarf þeirra við ferðamálaráð og Ferðamálastofnun Íslands.

Þá er IV. kaflinn um almennar ferðaskrifstofur. Um ferðaskrifstofurnar er fyrst og fremst fjallað í 11. gr. frv. Hugtakið ferðaskrifstofa er hér skilgreint á sama hátt og í fyrirmynd OEEC að löggjöf um ferðaskrifstofur, að því viðbættu, sem segir í síðustu mgr. varðandi úrskurð í vafatilfellum. Norðmenn fylgja einnig þessari fyrirmynd nákvæmlega í sínum lögum. Sú þjónusta, sem um ræðir í a-d-liðum þessarar gr., á að vera innt af hendi í atvinnuskyni til þess að teljast veitt af ferðaskrifstofu. Það fær sem sé enginu leyfi til þess að nefna rekstur sinn ferðaskrifstofu nema fullnægja ákvæðum þessarar gr., og þarf til þess staðfest leyfi. Ferðaskrifstofan verður að annast upplýsingar í einhverri mynd um innlend eða erlend ferðamál, hvers konar farmiðasölu með skipum, bifreiðum, flugvélum eða járnbrautum, útvegun herbergja eða húsnæðis til gistingar, langan eða skamman tíma, skipulagningu og sölu hópferða innanlands eða erlendis og móttöku erlendra ferðamanna. Óheimilt er að stunda störf, sem greind eru í þessari lagagr., svo sem nota í nafni eða auglýsingu einstaklinga, félaga eða fyrirtækja orðið „ferðaskrifstofa“ eða hliðstæð erlend heiti, nema hafa til þess sérstakt leyfi samgrn.

V. kafli frv. er um ferðamálasjóð. Ferðamálasjóður skal vera eign ríkisins og lúta stjórn samgrh. Þetta er stofnlánasjóður þeirrar starfsgreinar, sem ferðaþjónusta einkum byggist á, og er hlutverk hans að stuðla að þróun íslenzkra ferðamála með lán- og styrkveitingum. Fé hans má ráðstafa á eftirgreindan hátt: 1) Sjóðurinn skal veita einkaaðilum og opinberum aðilum lán til framkvæmda við gisti- og veitingastaði gegn fullnægjandi tryggingum. 2) Sjóðnum er heimilt að veita einkaaðilum og opinberum aðilum gegn fullnægjandi tryggingum lán til annarra þátta ferðamála en í 1. lið greinir, svo framarlega sem með lánveitingunni er stuðlað að þróun íslenzkra ferðamála. 3) Sjóðnum er heimilt að veita Ferðamálastofnun Íslands framlag til að koma upp eða endurbæta hreinlætis- og snyrtiaðstöðu á fjölsóttum ferðamannastöðum utan alfaraleiða, svo og til annarrar umhverfisverndar, sem nauðsynleg er vegna ferðamanna, sbr. önnur ákvæði þessara laga. Styrkveitingar mega þó aldrei nema hærri fjárhæð en 10% af árlegum tekjum sjóðsins.

Tekjuöflunin til ferðamálasjóðs er hugsuð á þennan hátt: 1) Árlegt framlag úr ríkissjóði, ekki lægra en 10 millj. kr. Það er tvöföldun á þeirri upphæð, sem nú er ætluð sjóðnum. 2) Hluti tekna af aðgöngumiðagjaldi af vinveitingahúsum samkv. lögum. Hér er byggt á tekjustofni, sem ég nefndi áðan, en yrði að flytja sérstakt frv. um til breyt. á skemmtanaskattslögunum. 3) Tekjur af starfsemi sjóðsins. — Ég vil aðeins taka fram, að það mál hefur verið rætt nokkuð við menntmrh., og hann taldi ekki ólíklegt, að hann féllist á og hans rn., að skiptingin á þessu svonefnda rúllugjaldi yrði eitthvað á þá lund, sem ég gerði grein fyrir áðan. Ferðamálasjóðnum er svo heimilt að fengnu samþykki ríkisstj. að taka allt að 200 millj. kr. lán eða jafnvirði þeirrar fjárhæðar í erlendri mynt, ef árlegt ráðstöfunarfé sjóðsins nægir ekki til, að hann geti á viðunandi hátt gegnt hlutverki sínu.

Þetta eru ákvæðin um tekjur ferðamálasjóðs og lánsheimild honum til handa. Mörg ákvæði fleiri eru um ferðamálasjóðinn, en ég tel þýðingarmest að geta um fjárhagslega möguleika hans.

VI. kaflinn er svo um ýmis ákvæði, og eru þar m. a. á ferðinni tvö bráðabirgðaákvæði. Bráðabirgðaákvæði 1 er á þessa leið:

„Við gildistöku laga þessara tekur Ferðamálastofnun Íslands við öllum eignum, réttindum og skuldbindingum Ferðaskrifstofu ríkisins og ferðamálaráðs þess, er starfaði samkv. l. nr. 4 1969. Á sama hátt kemur ferðamálasjóður samkv. lögum þessum í stað samnefnds sjóðs samkv. eldri lögum og tekur við eignum hans og skuldbindingum.“

Síðara bráðabirgðaákvæðið er á þessa leið: „Ferðamálaráð samkv. l. nr. 1 frá 1969 skal boða til ferðamálaþings eigi síðar en 30. sept. 1973. Þar til ferðamálaráð er kosið, fer eldra ferðamálaráð með þau mál, sem undir ferðamálaráð eru lögð samkv. lögum þessum:

Þetta frv. fjallar sem sé um endurskipulagningu gildandi laga um ferðamál, ætlar þeim meiri opinber fjárframlög en hingað til hefur verið gert, og skipulagsbreytingin er aðallega sú, að núv. ferðamálaráð og Ferðaskrifstofa ríkisins renna saman í eina stofnun, Ferðamálastofnun Ístands.

Ég legg svo til, herra forseti, að frv. verði að umr. lokinni vísað til 2. umr. og samgn. og læt svo máli mínu lokið.