22.02.1973
Sameinað þing: 48. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2046 í B-deild Alþingistíðinda. (1603)

Umræður utan dagskrár

Sjútvrh. (Lúðvík Jósepsson):

Herra forseti. Það eru aðeins örfáar aths. — Ég ætlaði ekki að halda þessum umr. áfram, þó að augljóst sé, að þá, sem hér taka til máls, langar til þess að hafa hér almennar umr. Það er vitanlega hægt að taka þær upp hér, ef þeir óska eftir. En þegar skýrt er jafnhrapalega rangt frá og hv. 1. þm. Sunnl. gerði hér áðan, er full ástæða til að leiðrétta það.

Hv. þm. talar um, að það hafi í rauninni ekki orðið nein aflaminnkun á s. l. ári, og leikur sér þá með tölur á þann hátt, að hann tekur 100 þús. tonn af loðnu, sem var meiri afli á s. l. ári en árið á undan, og tekur hann með beint inn í myndina. En þó að loðnuaflinn væri 100 þús. tonnum meiri á s. l. ári, fékkst minna verðmæti fyrir loðnuaflann á s. l. ári heldur en árið á undan. Aflarýrnunin kom fram í því, að dýrmætasta tegundin, sem við veiðum, þorskur, hefur minnkað um 30% á tveimur árum og rúmlega 15% á s. l. ári. Menn geta auðvitað haldið áfram að lemja höfðinu við steininn og snúa út úr og falsa tölur á þennan hátt, en það vitanlega breytir engu.

Ein aðalröksemdin hjá togaraeigendum fyrir því, að þeir eigi bágt, er sú, að afli togaranna hafi minnkað svo mikið frá því, sem áður var, sérstaklega hafi minnkað hinar dýrmætari tegundir, sem togararnir veiða.

Það er líka út af fyrir sig að koma hér upp með vandlætingartón um það, að nú sé dýrtíðin að vaxa hér út fyrir öll mörk, og vera nýbúnir að neita um að gera nauðsynlegar og óhjákvæmilegar ráðstafanir í efnahagsmálum í sambandi við stórtjón, sem að höndum bar, og neita að fallast á þá leið að fresta tiltekinni kauphækkun, sem stóð fyrir dyrum. 6–7%, í sjö mánuði, á sama tíma sem vitað var, að launþegasamtökin í landinu höfðu almennt samþykkt þetta, enda var það svo, að forustumenn sumra flokkanna, þeirra sem í andstöðu eru nú, voru búnir að lýsa yfir, að þeir gætu fallizt á þetta. En af hreinu ábyrgðarleysi sneru þeir frá því, sem þeir höfðu áður lýst yfir.

Það er dæmi fyrir sig, að það er Sjálfstfl., sem krefst þess með afstöðu sinni, að þessi tiltekna kauphækkun skuli koma strax fram, en henni skuli ekki frestað. Hann vildi frekar fara hækkunarleiðina en lækkunarleið, sem var hægt að fara nú. Það var hann, sem knúði það fram m. a., að atvinnurekendur skulu fá að borga næstum tveimur vísitölustigum meira í kaupgjaldi núna út á áfengis- og tóbakshækkun. Það er krafa hans, að svo skuli verða. En hann ætti þá ekki að koma upp á eftir og kvarta fyrir hönd atvinnurekenda, þegar þeir þurfa að borga þetta.

Það er svo til samræmis við allt annað að halda því fram, að um leið og þetta gengur yfir í þjóðfélaginu, hefðum við ekki átt nú að skrá gjaldeyri okkar til samræmis við dollar, við hefðum átt að gera hag útflutningsframleiðslunnar verri en gert var. Það er svona til þess að fylla inn í myndina með samræmi.

Ég skal ekki tefja tímann frekar að þessu sinni. Það er vissulega tilefni til að taka hér upp almennar umr. um þetta, en það er ekki ástæða til þess að gera það utan dagskrár.