22.02.1973
Sameinað þing: 48. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2050 í B-deild Alþingistíðinda. (1611)

11. mál, starfshættir skóla

Vilhjálmur Hjálmarsson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. — Ég vil leyfa mér að þakka jákvæða afgreiðslu þessa máls hjá hv. allshn. Með henni hefur n. fyrir sitt leyti fallizt á þær hugmyndir mínar, að þessum þáttum beri að veita forgangsathygli, ef svo mætti að orði komast. Það er nú svo, að þrátt fyrir ákvæði um líkamsrækt í skólum landsins, sem verið hafa lengi í lögum, hefur þróun þeirra þátta í starfsemi skólanna hvergi nærri fylgt eftir aukinni þörf fyrir hreyfingu á námsárunum sjálfum, sem stöðugt verða fleiri og fleiri, þegar á heildina er fitið. Og því síður hefur það náðst, sem hlýtur að verða höfuðmarkmið líkamsræktar og hvers konar íþróttaiðkana í skólum, að glæða almennan skilning á því, að í kyrrsetuþjóðfélagi, eins og hið íslenzka þjóðfélag er orðið öðrum þræði, er dagleg hreyfing og líkamsáreynsla jafnmikil nauðsyn þeim, sem vinnur störfin í stólnum sínum, eins og matur og drykkur eru öllu fólki.

Stór hluti af ævistarfi sérhvers Íslendings er nú unninn í skólum. Það er óhætt að segja það, því að auðvitað er það starf eins og annað, sem menn gera á sinni ævi, og eðlilegt verður að telja, að nokkurs samræmis sé gætt um starfshætti og vinnuálag á hinum ýmsu starfssviðum þjóðfélagsins.

Ég vil leggja alveg sérstaka áherzlu á, að það hlýtur að vera eitt höfuðmarkmið allrar fræðslu að búa nemandann undir störfin í því samfélagi, sem bíður hans að námi loknu. Við höfum komið okkur upp eins konar tómstundaþjóðfélagi, að því er tekur til margra starfsgreina. Og sú þróun þjóðfélagsins verður ekki til mikillar gæfu, nema unga fólkið, sem vex upp í þetta nýja samfélag, nái tökum á tómstundum sínum. Skólarnir eiga m. a. að miða störf sín við að hjálpa nemendum sínum til þess arna.

Ég leyfi mér að vona, eftir þessa jákvæðu afgreiðslu n., að þessi ályktun verði samþ. og að vel takist til um framkvæmd hennar.