22.02.1973
Sameinað þing: 48. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2051 í B-deild Alþingistíðinda. (1613)

85. mál, veggjald af hraðbrautum

Oddur Ólafsson:

Herra forseti. Það er nú vafalítið búið að segja flest það, sem máli skiptir, um þetta veggjaldsmál. Þó langar mig til að bæta við hér nokkrum orðum, vegna þess að mér finnst ekki hafa komið hér fram nógu skýrt atriði, sem ég tel vera mikilvægt í þessu máli, en það er félagslegur aðstöðumunur í þéttbýli og strjálbýli.

Hér hafa myndazt nokkrir byggðakjarnar á Suðvesturlandi, og þeir valda því, að fjöldi af fólki verður að búa alllangt frá vinnustöðum þess. Reykvíkingar vinna suður í Hafnarfirði og í Keflavík, Hafnfirðingar vinna í Straumsvík og Keflavík o. s. frv. Þetta veldur því, að þessu fólki er nauðsynlegt að aka miklum mun meira á hverju ári en þeim, sem búa á vinnustað sínum eða búa í 1–3 km fjarlægð frá vinnustað, eins og er algengast úti um landið. Þetta veldur því, að kostnaður við akstur yfir árið verður að jafnaði miklu meiri hjá þéttbýlisfólkinu en úti á landsbyggðinni, enda þótt á þeim vegum, sem það ekur, sé dýrara að aka hvern km. Þetta er í raun og veru nokkuð augljóst mál. En þetta er í fyrsta lagi meginástæðan fyrir því, að byrjað er að leggja hraðbrautirnar á þessu svæði, og í öðru lagi er það kannske orsök þess, að að mínu áliti hefur verið tekin upp ný stefna í fjármögnun vega. Fyrir 10 árum var gjald til vegasjóðs af hverjum benzínlítra 1.47 kr., en nú í dag er þetta gjald 9.87 kr. Það er því augljóst, að þeir, sem aka mest, og þeir, sem eru nauðbeygðir til að aka daglega langan veg að og frá vinnustað, gjalda mest til vegasjóðsins. Enginn vafi er því á, að það er rétt, sem hér hefur komið fram, að þeir, sem búa hér á þéttbýlissvæðunum, eru búnir að greiða til vegasjóðs þá upphæð, sem hefur kostað að leggja þessar hraðbrautir. Og ég tel það hrein öfugmæli, sem kom hér fram hjá hæstv. samgrh. í fyrra, að Suðurnesin skulduðu þjóðinni vegna þess 50 km vegar. Slíkt er algert öfugmæli. Ég tel, að hvorki á því sviði né öðrum skuldi þau nú og hafi jafnan verið fær um að axla sínar byrðar. Sömuleiðis hefur komið fram í þessum umr., að það værum við í þessum landshluta, sem fleyttum rjómann af erfiði annarra. Ég tel þetta einnig ómakleg ummæli. Ég held, að það verði ekki sagt um Reykjaneskjördæmi, að íbúar þess leggi ekki þjóðarbúinu það, sem þeim ber.

Ég sagði áðan, að það hefði verið mörkuð ný stefna á síðustu árum í fjármögnun vega, og tel ég, að þetta hafi komið berlega fram nú fyrir jólin, þegar við fengum hina miklu jólagjöf, 200 millj. kr. aukningu á benzíngjaldi og þungaskatti. Taldi ég nú, að af því leiddi, að þessi till. mundi ekki koma til frekari umr. Því miður varð svo.

Þetta veggjald er ekki eins einfalt mál og léttbært og margir hyggja. Það hefur komið fram hér í umr., að verði það tekið upp aftur, muni það vafalaust verða hækkað um 100%. Mig langar að geta hér um örfá dæmi, hvernig þetta kemur út.

Við vitum, að fjöldi manns á Hafnarfjarðar- og Reykjavíkursvæðinu vinnur suður í Straumsvík. Þessir menn aka alla vinnudaga Reykjanesbrautina án þess að þurfa að greiða veggjald. Ef aftur á móti svo vill til, að maður suður í Vogum eða suður á Vatnsleysuströnd vinnur í Straumsvík, þá verður hann að borga veggjald, sem hefur numið 10–12 þús. kr. á ári og mundi þá nema milli 20 og 30 þús. kr. á ári, eftir að það hefði verið tvöfaldað. Ef veggjald yrði sett við Þingvallavegamót á Vesturlandsveg, sem mér finnst líklegasti staðurinn, þar sem vegir skiptast þar — og ekki mundi veita af að fá alla umferðina um þá inn í kerfið, mundi gjald fyrir vörubíl í Mosfellssveit, sem ekur eins og þeir hafa gert á undanförnum árum, 8–10 ferðir á dag til Reykjavíkur alla daga árið um kring, skipta hundruðum þúsunda. Þessi sami vörubíll mun í ár leggja vegasjóði til um 250 þús. kr. tekjur, og mér sýnist, að það sé ljóst, að hraðbrautarkjördæmin þrjú, sem talað hefur verið um hér, þ. e. a. s. Reykjaneskjördæmi, Reykjavík og Suðurlandskjördæmi, mundi leggja vegasjóði til í ár milli 800 og 900 millj. kr. Þetta munu þau vafalaust gera um langa framtíð árlega vaxandi. Þarfir þeirra fara hins vegar minnkandi fyrir vegafé. Og ég get ekki betur séð en þetta sé ærið veggjald, sem þetta svæði greiðir.

Hefur þá ekkert verið lagt til þjóðveganna úti á landi á því tímabili, sem þessar hraðbrautir hafa verið í byggingu? Sannarlega er það svo. Ég er þá ekki að tala um göng og múla, hliðar eða enni. En mér skilst, að nú þegar séu tilbúnir undir olíumöl 100–2000 km á þjóðvegum úti um landið. Þetta er nærri helmingi meiri km-fjöldi en báðar hraðbrautirnar sem við erum ætíð að ræða um. Kostnaður við að fullgera þetta verk mun hafa verið talinn s. l. sumar um 300 millj. kr., ef miðað er við 200 km. En ef framhald verður á þeirri verðlagsþróun, sem nú er, getur hann vel verið orðinn 400–500 millj. í haust. Hins vegar er það svo, að þegar við lítum á þær geysilegu tekjur, sem vegasjóður fær af hraðbrautarsvæðunum, þá held ég, að það sé ekki að vænta annars en stutt sé í það, að alllangir kaflar á þjóðvegunum verði gerðir varanlegu slitlagi.

Ég vona, að hv. þm. sjái, að aukagjald á hraðbrautir er ósanngjarnt og kemur mjög misjafnt niður, eins og ég hef drepið á. Mér finnst það óþarft, vegna þess að ég tel, að í þéttbýli, þar sem fjöldinn verður að aka að og frá vinnustað, greiði hann með því fyrirkomulagi, sem nú er, sitt veggjald. Hins vegar finnst mér leitt, ef það er rétt, sem ég hef heyrt, að nú eigi að draga úr lántökum til vegasjóðs. Ég held, að það hafi komið ljóst fram einmitt í þessum umr., að lagning varanlegs slitlags á vegi sé mjög arðbær framkvæmd, og ég er sannfærður um, að þau svæði, sem fá varanlegt slitlag, eru fullkomlega fær um að sjá um vexti og afborganir af þeim lánum, sem tekin eru til þeirra framkvæmda. Ég vona því, að hv. þm. sjái, að það er þegar búið að fullsetja á greiðslugetu þeirra, sem þessar hraðbrautir aka, og málin séu í raun og veru ekki svo dökk úti um landsbyggðina, þegar litið er á næstu framtíð.