22.02.1973
Sameinað þing: 48. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2053 í B-deild Alþingistíðinda. (1614)

85. mál, veggjald af hraðbrautum

Friðjón Þórðarson:

Herra forseti. Ég hafði kvatt mér hljóðs, þegar þetta mál var á dagskrá 8. þ. m. í þessari hv. d. Þá þegar höfðu margar ræður verið fluttar um málið og ýmis rök tínd til og tíunduð á báða bóga, mörg af þeim skynsamleg. Ég man eftir ræðu, sem hv. 3. þm. Norðurl. v. flutti. Hann tók ekki beina afstöðu til málsins, en lét þess getið, að það hefðu þegar verið flutt mörg skynsamleg rök í málinu, bæði með og á móti, og margar góðar ræður fluttar. Og ekki var ræða hans sízt, því að hún var mjög sanngjörn og ágæt: En það voru aftur sumir aðrir af hv. ræðumönnum, og ég held, að þar hafi aðallega verið um að ræða flm. umræddrar till., sem mér fannst ganga nokkuð langt í málflutningi sínum. Ég man þar eftir ræðum hv. 1. þm. Vestf., 4. þm. Norðurl. e., 6. og 7. landsk. þm. Þessir menn héldu þannig á málum, að mér fannst ganga nokkuð úr hófi fram, þar sem þeir vildu beinlínis gefa í skyn, að þeir, sem væru ekki umsvifalaust með því að leggja veggjald á og hagnýta það til hins ítrasta, væru andstæðingar eða allt að því fjandmenn dreifbýlisins. Ég hygg, að það sem lesa mátti út úr ræðum þeirra, sé ekki ýkjalangt frá þessu. Þess vegna langar mig til, án þess að blanda mér mikið í efnisumr. um þetta mál, að rifja upp fyrir þessum hv. þm. eina kvöldstund hér fyrir síðustu jól.

Þá voru til umr. breytingar á vegal., nr. 23 frá 1970. Ég veit ekki, hvort þessir hv. þm. hafa þá dottað á verðinum sem forsvarsmenn hinna dreifðu byggða eða ekki tekið eftir því, sem þeir voru að gera, og skal ég því rifja það upp fyrir þeim í örfáum orðum. Þeir réttu upp höndina og samþ. að fella niður nokkrar undanþáguheimildir úr vegal., sem gilt hafa mjög lengi. M. a. afnámu þeir með atkv. sínum úr 88. gr. vegal. heimild til að fella niður þungaskatt af skólabifreiðum, sjúkrabifreiðum, slökkvibifreiðum og snjóbifreiðum. Það má vel vera, að það séu skiptar skoðanir um, hvort undanþágur eigi að vera í lögum, en gaman þætti mér þó að sjá þessa hv. þm. semja reglu, sem engin undantekning væri frá. Þarna er um tvennt að ræða. Í fyrsta lagi eru þessar undanþáguheimildir mjög gamlar í íslenzkri löggjöf. Undanþáguheimildirnar um snjó- og sjúkrabifreiðar o. fl. slíkar eru a. m. k. í lögum um bifreiðaskatt frá 1932, og ég held einnig, a. m. k. efnislega, í l. um bifreiðaskatt frá 1921. Og ákvæði í l., sem hafa kveðið svo á, að búendur geti fengið endurgreiddan þungaskatt af bifreiðum, sem þeir nota aðallega í þágu landbúnaðar, jeppabifreiðum, hafa verið í lögum, frá því að byrjað var að flytja jeppabifreiðar til landsins, og sú heimild er a. m. k. örugglega í lögum frá 1947. Þessir hv. þm. taka þannig þátt í að strika út þessar heimildir, sem eru sumar hálfrar aldar gamlar og aðrar a. m. k. aldarfjórðungs gamlar.

Hefur þetta þá nokkur fjárhagsleg áhrif? Ég vil taka eitt dæmi til að sýna, að þetta skiptir þó nokkru máli peningalega. Ef við tökum t. d. bóndann, sem á venjulega landbúnaðarbifreið, dísilbifreið af landbúnaðargerð, þá þarf hann að greiða af henni skatt og gjöld, áður en hann kemur henni í gegnum aðalskoðun á komandi vori. Að óbreyttum lögum hefði þessi maður þurft að greiða af bifreiðinni 1040 kr., áður en hann fær hana skoðaða. Að þessum lögum breyttum eins og gert var á þessari kvöldstund hér fyrir jólin, eins og ég drap á áðan, þarf þessi sami maður að greiða af sömu bifreið 17540 kr. Þetta er kannske ekki mjög há upphæð á mælikvarða hinna háu talna, sem nú gilda, en þó allveruleg a. m. k. í búreikningi hvers bónda, að maður tali ekki um, að þetta skiptir mjög verulegu máli, einkum úti um land, fyrir rekstur snjóbifreiða og sjúkrabifreiða. Við getum allir verið sammála um, að sá rekstur er margfalt meiri erfiðleikum háður í dreifbýlinu en í þéttbýli.

Þetta vildi ég láta koma hér fram og vona, að menn hafi skilið það. Hitt er svo annað mál, að ég er ekki alveg viss um, hvað við þm. eigum að ræða þetta mál lengi. Við getum rætt það lengur eða skemur. En það haggar þó ekki þeirri heimild, sem stendur og staðið hefur í lögum. Heimild ráðh. til að ákveða veggjald var innleidd þegar árið 1963. Hún hefur bæði verið notuð og ekki notuð, að segja má, var ekki tekin til hagnýtingar fyrir 1965, og hún hefur ekki verið notuð frá síðustu áramótum.

Þegar gengið var frá vegalögunum á árinu 1963, útbjuggu þáv. þm. þessa heimild í hendur ráðh., sem síðan hefur staðið óhögguð í 95. gr. þeirra. Ég er ekki viss um, hvað við eigum að ganga langt í því að taka fram fyrir hendur ráðh., hvort hann beiti þessari heimild eða beiti henni ekki. Alla vega hefur hún staðið í lögum frá 1963 og stendur enn ráðh. til handargagns, ef hann vill notfæra sér hana.