22.02.1973
Sameinað þing: 48. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2058 í B-deild Alþingistíðinda. (1616)

85. mál, veggjald af hraðbrautum

Félmrh. (Hannibal Valdimarsson) :

Herra forseti. Ég skal vera stuttorður. Ég vil aðeins víkja að örfáum atriðum.

Ég vil þá fyrst segja það, ég tel, að það hafi verið rétt spor, sem hæstv. fyrirrennari minn steig, þegar hann lagði veggjald á Reykjanesbraut. Það gerði hann vegna þess, að fólkið, sem notaði þann veg, kæmi til með að njóta betri vegar en aðrir landsmenn. Þessi vegagerð kostaði mikið fé. Kostnaðarbyrðin lagðist á alla landsmenn að öðru leyti en því, að þeir, sem mest notuðu veginn, tóku að sér að greiða gjald, sem svaraði svo sem helmingi af vöxtum þessa fjár, sem í veginn fór. Og það tel ég, að hafi verið sanngjarnt. Hins vegar er það skoðun mín, að það hafi verið ranglátt, það hafi verið útafkeyrsla af réttri braut hjá hæstv. þáv. ráðh., þegar hann hætti við þetta og ákvað að bera fram till. um að leggja niður gjaldið af Reykjanesbraut, þegar að því kom, að aðrir landsmenn hlutu sams konar veg og þeir, sem Reykjanesbrautar höfðu notið áður. Það fannst mér vera ranglæti gagnvart notendum Reykjanesbrautar að hlaupa þá strax til og leggja gjaldið niður. Þeir hefðu fyrst fengið að sjá það, að þeir sætu við sama borð og aðrir landsmenn, þegar slíkt skattgjald væri lagt á aðra jafnótt og þeir nytu sams konar vegar. Tel ég, að fyrrv. samgrh. hafi beitt Reyknesinga ranglæti með tillöguflutningi sínum, þegar annar vegur, sem að vísu stefndi á Suðurlandskjördæmi, var innan sjónmáls. En nóg um það.

Ég hlýddi á mál hv. 3. þm. Reykn. áðan. Hann var að rökstyðja, að það væri ranglátt að leggja veggjald á þá, sem nytu þessara vega með varanlegu slitlagi. Hann sagði, að þéttbýli leiddi til þess, að menn sæktu atvinnu um langa vegu, menn úr Reykjavík alla leið suður á Reykjanesskaga, Hafnfirðingar í Straumsvík og um miklu stærra svæði en þeir gætu sótt atvinnu til, ef þessara góðu vega nyti ekki. Mér fannst rökstuðningur hans stuðla að því, að það væri versta böl fyrir þetta fólk, að það fengi þessa góðu vegi og leiðir opnuðust þannig til þess að sækja atvinnu um miklu stærra svið en þeir hefðu getað með nokkru móti, ef góðu veganna hefði ekki notið við. Þetta fannst mér vera öfugmæli. En hann vék svo að því, að það mundi hafa verið öfugmæli, sem ég hefði haldið fram í umr., er málið var hér áður til meðferðar, þar sem ég hefði sagt, að Suðurnesjamenn skulduðu þjóðinni vegna þessa þrátt fyrir greiðslu þeirra á veggjaldinu. Ég held ég hafi aldrei orðað það á þann veg. En það er skoðun mín og sannfæring, eins og ég hef vikið að nú í upphafi máls míns, að þeir, sem njóta hinna góðu vega á undan öðrum, hafa með greiðslu veggjaldsins tekið að sér að borga nokkurn hluta, aðeins nokkurn hluta af vaxtakostnaði vegna mannvirkjagerðarinnar. En hverjir hafa borgað hinn hlutann, hinn helminginn af vaxtakostnaði þessa fjármagns? Þeir, sem búa við vondu vegina, hafa fengið að borga það gjald í viðbót við þyngsta vegaskattinn, sem greiddur verður, sem eru hinir vondu vegir, að búa við þá, það er þyngsti vegaskatturinn. Kannske menn fari nú að heita rökum sínum í þá átt að segja: Það er ranglátt, að menn borgi veggjald af hinum beztu vegum landsins, — og komist að þeirri niðurstöðu, að það sé miklu réttlátara að leggja skatt á lakari vegina, vondu vegina? Ég held, að augljósara öfugmæli verði ekki hægt að hugsa sér. Þar með sjáum við það í hendi, að það er réttlátasta fjáröflunarleiðin, sem hugsazt getur til vegabóta í landinu, að leggja eitthvert gjald umfram á þá, sem njóta hinna beztu vega. Ég held, að þetta sé nokkuð auðséð.

Einhver vék að því hér í umr., að það hefði ekki mikið gerzt með þessari atkvgr. í fyrrahaust, þegar samþ. var till. um að fella niður veggjald af Reykjanesbraut í sambandi við afgreiðslu vegáætlunar, heimildin stæði eftir sem áður í lögum fyrir ráðh. að leggja slík gjöld á. Rétt er þetta, að heimildin stendur enn þá í lögum. En þó að till. í fyrra fengi ekki meiri hl. Alþ., var hún afgreidd lögformlega á Alþ., og vilji Alþ. lá fyrir eftir þá atkvgr. um að fella gjaldið niður. Ég taldi mig því ekki geta haldið áfram innheimtu gjaldsins nema með því að virða vilja Alþ. að vettugi, en það taldi ég mér ekki fært. Að þessu var líka vikið áðan af hv. 4. þm. Vesturl., Friðjóni Þórðarsyni. Þess vegna vil ég taka það fram, að ég tel, að vilji Alþ., þó að samþykktin styddist ekki við meiri hl. þings í fyrra, hafi útilokað það, að ráðh, gæti notað heimildina.

En á þeirri stundu, sem það lægi fyrir, að Alþ. vildi, að veggjöld væru lögð á á ný, mundi ég sannarlega nota þá heimild, því að engum er ljósari en mér þörfin fyrir aukið fjármagn til samgöngubóta á Íslandi. Ég mundi nota þá heimild þegar í stað og leggja veggjald ekki aðeins á Reykjanesbraut, heldur á Suðurlandsveg og á Vesturlandsveg, undireins og hann stefnir á Vestfjarðakjördæmi, undireins og sambærileg vegalengd væri þar komin undir varanlegt slitlag. Ég mundi nota allar hliðstæðar heimildir, sem sköpuðust, og ég tel, að enginn réttlátari fjáröflun til vegabóta á Íslandi sé til heldur en lengja ofurlítið aukagjald á þá, sem njóta hinna beztu vega.